föstudagur, október 07, 2005

Mea culpa

Mamma gaf mér einu sinni úlpu. Alveg risastóra, jöklaprúf úlpu. Gula og brúna. Þegar ég er í henni kemst ég varla inn í bílinn minn. Maður verður í laginu eins og dekkjastrákurinn frá Michelin. Sést held ég úr geimnum. Ég og Kínamúrinn. En það góða við hana er að hún er ruddahlý. Þó maður vaggi alltaf asnalega og þurfi alltaf að vera með hendur út í loft vegna stærðar hennar er mér aldrei kalt þegar ég er í henni. Stundum ímynda ég mér að ég sé Halli pólfari og fer í langar göngur. Sérstaklega þegar kalt er. Þá reyni ég líka að framleiða horslím sem ég reyna að festa í skegginu mínu. Svo þegar ég kem heim segi ég mömmu hreykinn frá ferðalögum mínum í gulu og brúnu úlpunni, drekk mjólk sem óður væri og segi alltaf hróðugur að lokum: “Iss... og mér var bara ekkert kalt”.

...

Hvernig ætli það sé samt að vera svona alvöru pólfari eins og Halli pólfari? Hafa pólfarar bólfarir? Ætli Halli sé alltaf með attitjúd þegar hann verslar mjólkurvörur í frystideildinni í Bónus; “Þetta er ekki rassgat kalt... Er einhverjum kalt hérna? Þið mynduð ekki lifa einn dag á pólnum” ...? Eða eipi á vel klætt, grandalaust fólk á götum úti? Taki máski kalda augnaráðið á það.

Þó ábyggilega betra að vera pólfari með minnimáttarkennd en að vera algjör kuldaskræfa.

En að útúrdúrum slepptum ber ég blendnar tilfinningar til þessar úlpu minnar. Hún er alveg hlý og svona en ég er bara alltaf eins og haugur þegar ég er í henni. Mér líður eins og ég sé bygging þegar ég er í henni. Ekki það að ég hafi eitthvað á móti byggingum. Held stundum að ég sé of lítil sál fyrir svona stóra úlpu.

Það má samt enginn segja mömmu frá þessum hugrenningum mínum. Og ég vil helst ekki að það spyrjist út til Halla pólfara að ég sé að dissa hann.