föstudagur, október 21, 2005

101 Reykjavík

Tvær vinkonur voru eitt sinn að vinna í Máli og menningu á Laugarveginum. Önnur nam bókmenntafræði en hin ekki. Yfirmaður þeirra hafði nýlega lesið yfir hausamótunum á starfsfólkinu og innleitt þá stefnu að reyna að selja eins mikið á kassanum og hægt væri. Um leið og einhver keypti svo mikið sem strokleður átti að bjóða kúnnanum upp á bók eða tímarit. Alvöru sölumennska í Máli og menningu. Og bókmenntafræðigellan var ansi klók í þessum bransa, seldi ófá blöðin einmitt við kassann og jafnvel fólki sem ætlaði sér engan veginn að kaupa þau. Hin fylgdist vandlega með og reyndi að stúdera helstu bellibrögðin.

Loks kom að því að hún fékk tækifærið. Sköllóttur maður mætti á kassann með erlend dagblöð og hún hugsaði sér gott til glóðarinnar. Þessi maður var Hallgrímur Helgason.
-Eitthvað fleira, sagði hún.
-Nei, takk, sagði hann.
-Þú hefur þó ekki lesið þessa? Alveg frábær bók, sagði hún og var alveg að gera gott mót ef ekki hefði verið fyrir þá staðreynd að hún hélt á bókinni 101 Reykjavík.
Þögn skall á og meðan á henni stóð góndi maðurinn með stórum augum (á við sívaliturn hreint alveg) á konuna. Loks rauf hann þögnina.
-Uuuh. Um hvað er hún, spurði hann.
-Hún? Hún er um lífið í miðbæ Reykjavíkur... skemmtanalífið... fær mjög góða dóma.
-Já... e-eftir hvern er hún, spurði hann á ný.
-Uuuh, Hallgrím Helga, sagði hún með bros á vör, sannfærð um að hann hefði ekki tekið eftir því að hún las það af kápunni.
-Uhm, nei, held ég sleppi því. Ætlaði eiginlega bara að kaupa þessi blöð.

...

Trú storí samt, trú storí.