mánudagur, október 17, 2005

Festen

Ég ákvað eitt sinn að bjóða til matarveislu á lögheimili mínu. Stofna matarklúbb og bjóða nokkrum vel völdum félögum að eyða með mér kvöldstund þar sem vindlar, áfengi, sælkerafæði og háleitar samræður áttu að ráða ríkjum. Umfram allt átti þetta þó að vera fullorðins samkoma, umræðurnar áttu að snúast um fullorðins málefni eins og viðskipti, þjóðmál og lífeyrissparnað. Allir áttu að koma virðulega klæddir og síðar meir yrði jafnvel farið í bæinn og þá á alvöru fullorðins staði. Máltíðin var þríréttuð og á matseðlinum voru fullorðins orð eins og marinerað og gratinerað. Gestirnir mættu fágaðir til leiks, voru allir smekklega klæddir og virðuleikinn uppmálaður. Við drukkum vín, borðuðum og létum eins og gjörvulegir og þroskaðir ungir karlmenn á þrítugsaldri láta. Vorum hæfilega skopsamir en fyrst og síðast tígulegir, gáfulegir og fullorðinslegir.

En einhvern veginn fór þetta allt handaskolum. Einum okkar varð skyndilega litið á salernisdyrnar sem eru nákvæmlega gegnt dyrunum að geymslunni okkar. Hann strauk einn dyrakarminn á nær erótískan hátt með annarri hendinni en hélt á rauðvínsglasinu í hinni og sagði: “Vá, þetta er meistaralega hönnuð íbúð. Það er jafnvel alveg hægt að taka handboltaleik hérna, dyrnar eru eiginlega alveg beint á móti...”. Vissulega var þetta óvitlaus ábending enda hafði ég leikið yfir þúsund handboltaleiki á þessum leikvangi frá því ég var barn en þar sem ég sá hvert stefndi reyndi ég allt til að afstýra stórslysi: “Hmmm, já kannski, svona fyrst þú minnist á það... Hvað segið þið annars um sölu Símans, góðu herrar? Hvaða skoðun hafið þið á henni?” En ég hafði ekki erindi sem erfiði. Strákarnir fóru ólmir að skoða handboltavöllinn í íbúðinni og einn þeirra hljóp upp í herbergi til mín og kom til baka með samanvöðlaðan sokkabolta. Annar náði í blað og penna og sagði: “Nú tökum við mót!”. Menn rifu af sér bindin og jakkana, drógu í 8-liða úrslit og fóru yfir reglur og umgjörð mótsins. Fullorðinssamkoman var á svipstundu orðin að enn einum barnalegum boltaleiknum. Við féllum á fullorðinsprófinu. Ég átti óneitanlega erfitt með að fela vonbrigði mín.

Móðir, másandi og vel kenndir fórum við samt í bæinn að móti loknu og skemmtum okkur bara ágætlega, minnir mig. Sjálfur fór ég alla leið í úrslitaleikinn en tapaði þar, 10-6. Varði varla skot í leiknum og misnotaði frábær færi. Spilaði eins og algjör gúbbi.