mánudagur, október 17, 2005

Where everybody knows your name

Hansen er nafn sóðaknæpu sem margir kannast við. Sögulegrar sóðaknæpu. Þegar ég var yngri heimsótti ég Hansann reglulega enda ölið sauðbillegt og stemmningin oft skrautleg. Svo tók við skeið þar sem mér fannst Hansen viðurstyggilegur staður, bara subbulegt, reykmettað ormabæli. Og þá hætti ég að fara þangað. En undanfarið hef ég slysast inn í öl aftur á Hansen og áttað mig á sögulegu mikilvægi staðarins. Þetta er kannski ekki sérlega álitlegur staður, en þetta er staður með sál. Ég hef næstum tekið hann í sátt aftur. Eina ástæðan er að ég á margar misgóðar og einkennilegar minningar tengdar þessu húsi.

Hansen er staðurinn þar sem gamli kallinn reyndi að leigja Jóa eins og ég hef oft bent á í ritum mínum. Þegar Jói greyið gaf afsvar þakkaði sá silfurhærði samt fyrir sig og kvaddi kurteisislega. Stuttu seinna sagði starfsmaður Hansen sögur af uppáferð gráhærðs manns eftir lokun á salerni Hansen. Hver beit á agnið það kvöldið vita sjálfsagt fáir. Þetta gerðist allt auðvitað fyrir mörgum árum en ég hata samt ekki að skeggræða þennan atburð. Þó Jói kallinn verði forseti lýðveldisins einn daginn verður hann alltaf sveinninn sem gamlinginn vildi leigja fyrir mér.

Þegar FH komst í bikarúrslit 2003 eftir sykursætan sigur á KR var fagnað á Hansen. Ótrúleg stemmning alveg, markaði held ég svolítið upphaf að upprisu stuðningsmannaveldis FH í fótbolta.

Ungrú Ísland 1962 hótaði eitt sinn að drepa okkur félagana á Hansen.

Einu sinni var mér boðið að sniffa bensín á salerni A. Hansen. Gaurinn var bara kokhraustur með brúsann undir arminum.

Á Hansen hef ég séð slagsmál, tónleika, drukkinn grænlenskan sjómann sem dansaði við peysuna sína, fólk í karókíi, fólk að tala og fólk sem ríkið þarf að ala. Hentu inn vita og þá ertu kominn með rammhafnfirskustu súpu sem gerð verður. Bjarni Sívertsen gæti ekki matreitt hana betur.