Red, red ref
Í sumar upplifði ég í fyrsta sinn að þjálfa stelpur í fótbolta. Svona níu ára stelpur. Það var fínt. Lenti í einu sérstaklega súru augnabliki.
Vorum að spila við KR á einhverju smámóti í Mosfellsbæ. Ungur piltur var að dæma, á að giska 19 ára. Einhver hafði neytt hann til að dæma nokkra leiki og hann var augljóslega aðeins of töff fyrir þetta hlutverk. Var varla að nenna þessu. Hann nennti til dæmis ekki að hlaupa á eftir leikmönnum, tók sér bara stöðu á miðjunni og var svalur á því. Þetta var hörkuleikur, okkar lið var að vinna með einu marki þegar lítið var eftir.
Stelpurnar sem voru að spila voru eiginlega alls ekki sérlega skotfastar, þegar hreinsað var frá marki álpaðist boltinn yfirleitt bara örfáa metra, svona eins og gengur og gerist í yngri flokkum. En algjörlega upp úr þurru tókst einni KR-stelpunni að smellhitta knöttinn einu sinni svo eftirminnilega að hann flaug á ógnarhraða um loftið. Og viðstöddum til lúmskrar kátínu endaði hann beint framan í dómara leiksins sem skaust aftur á bak og lá brátt afar lúpulegur í grasinu. Stelpurnar hættu að spila enda flestar í hláturskasti. Eftir örstutt hlé vildi dómarinn þó halda leik áfram. Á meðan stelpurnar héldu áfram að sprikla hélt hann þó fyrir nef sér og kom á daginn að hann var með fossandi blóðnasir. Blóðið var út um allt, á bolnum hans, buxum og andlitið auðvitað alblóðugt. Ég hljóp inn á, bauðst til að dæma sjálfur og bað hann að láta hlúa að sér en spaðinn var sko ekki á því, enda bara tvær mínútur eftir. Áfram blæddi lokamínúturnar og hvítur bolurinn var orðinn alrauður og gegnblautur. Loks flautaði hann af og hljóp í burtu.
Ég efast um að stelpurnar hafi nokkurn tíma séð eins mikið blóð á ævi sinni en það breytti þó ekki þeirri staðreynd að þær voru alsælar með uppákomuna. Eiginlega skipti engu máli hvernig leikurinn fór, bæði lið voru í skýjunum. Ég heilsaði seinna upp á greyið dómarann sem var allur að braggast. Ekkert blóð lengur framan í honum en þó ennþá sami sauðalegi svipurinn. Og það versta af öllu; kúlið var gengið til þurrðar.
<< Heim