miðvikudagur, nóvember 09, 2005

You would cry too if it happened to you

Fór í mína fyrstu vísindaferð á föstudaginn. Tók mér stöðu við opinn bar um fimmleytið og byrjaði að sulla af krafti, grunlaus um hvaða afleiðingar svona ferðir geta haft. Sex tímum seinna stóð ég með míkrafón í hendi á stórum palli fyrir framan fullt af fólki syngjandi Kríb á Ölveri. Þetta var í fyrsta sinn sem ég syng karókí ef karókíkeppni grunnskóla Hafnarfjarðar 1996 er undanskilinn. Í tilefni af því að ríjónjón gamalla grunnskólafélaga verður haldið bráðlega ætla ég að rifja þá stuttu sögu upp.

Fjórir félagar, ég, Gunni, Danni og Jói, mönuðum hvern annan til að syngja í keppninni og úr varð að reyna að fá að syngja fjórir saman. Einhverra hluta vegna var það ekki mögulegt og því stóðum við frammi fyrir því að þurfa að syngja tveir og tveir saman. Ég man að ég tók af skarið og valdi að vera með Jóa því ég vissi að hann gat sungið smá. Gunni og Danni mynduðu því hitt teymið. Söngflokkarnir tveir voru því næst sendir í sitt hvort hornið þar sem menn völdu lög og upphugsuðu strategíu. Við Jói brutum höfuðið mikið, vorum að spá í 'Mighty Quinn' með Bob Dylan lengi vel en ákváðum að lokum að fá leðurjakka lánaða hjá stóru bræðrum okkar og syngja ‘Born to be wild’. Við ætluðum að freista þess að vera með sviðsframkomuna í lagi og bæta þannig upp lagleysið. Hittum loks Danna og Gunna, sögðum þeim frá okkar lagi og spurðum hvaða tónverk þeir ætluðu að taka. Þeir ljómuðu og færðust allir í aukana þegar talið barst að þeirra lagi, sögðust hafa fengið snilldarlega hugdettu og voru svo óþreyjufullir og spenntir að ég fann strax fyrir smá afbrýðissemi. Allt þar til þeir tjáðu okkur að lagið þeirra væri ‘It’s my party and I can cry if I wan’t to’ og yrði flutt í kvenmannsdrögtum. Við Jói litum hvor á annan og mér fannst eins og undrunarsvipur hans segði mér ‘takk fyrir að hafa valið mig’. Ég var alveg að fara að útskýra fyrir Danna og Gunna að svona gerði maður ekki svo annað fólk sæi en langaði pínulítið að sjá þetta atriði þeirra og ákvað að segja þeim það bara eftir performansinn.

Senn hófst keppnin og okkur Jóa gekk ágætlega. Brutum m.a. blokkflautu í gítarsólóinu. Þegar systir mín spurði mig nokkru síðar hvort ég vissi um flautuna hennar yppti ég bara öxlum og skimaði flóttalega í kringum mig. Hefur tekist ágætlega að lifa við að hafa rænt hana flautuleikaraframanum. Danni og Gunni komu á eftir okkur og sungu ‘It’s my party and I can cry if I wan’t to’. Í drögtum og með kollur.

Samnemendur okkar dæmdu atriði þeirra reyndar ekki eins harkalega og ég hélt að raunin yrði. Ljóst er þó að sagan dæmir það af vægðarleysi. Skiptir kannski ekki máli þar sem Guðrún Árný vann helvítis keppnina eins og alltaf. Allar heimsins blokkflautur hefðu ugglaust ekki getað breytt því.