mánudagur, nóvember 07, 2005

Uppgjör við uppalendur

Þegar ég var lítill voru föstudagar alltaf eins. Heimatilbúin pítsa í matinn og áður en borðað var fór fram heilög stund fyrir framan sjónvarpið. Þá voru Strandverðir. Við brósi horfðum alltaf á Strandverði. Rákum upp stór, útstæð augu (sem minntu á augu Ástþórs Magnússonar) og góndum. Man að einu sinni starði ég svo hart á stelpurnar á ströndinni að það kom sprunga í sjónvarpsskjáinn. Lengi vel hafði ég samt ekki hugmynd um af hverju CJ var uppáhaldspersónan mín í þessum þáttum, fattaði það ekki fyrr en nokkrum árum seinna.

Í dag er ég enn að leiðrétta ýmsar ranghugmyndir sem Strandverðir létu mér í té. Ég hef lært að það er rangt að hlutgera stelpur (ekki einu sinni þó þær séu mjög flottar) og ég veit núna að fæstar þeirra eiga rauð flotholt. En oft er þetta erfitt. Stundum þegar ég fer í bæinn með félögunum sé ég CJ-ar út um allt. Þegar ég villist inn á staði eins og Hverfisbarinn (undantekningarlaust eingöngu til að spyrja til vegar) verður mér gjarnan um og ó. Allt úir og grúir í fáklæddu kvenfólki með stór flotholt. Það vantar gjarnan bara litla hreinskilna krakkann úr ævintýrunum til að banka í stelpurnar og segja: ‘en þú ert ekki í neinu!’.

...

Hverfisbar bernsku minnar var í enn meira uppáhaldi en hinir þrýstnu verðir strandarinnar. Hann var staddur í miðri stofunni heima og hét Staupasteinn. Ég leit einna mest upp til glaðværa bjórbelgsins Norms. Hann var allra manna fyndnastur á kránni, gerði bæði grín að sjálfum sér og öðrum og var í miklum metum hjá öllum á knæpunni. Allir voru vinir Norms. Menn hrópuðu nafn hans þegar hann mætti á svæðið og leituðu jafnvel til hans í kröggum. Oft þráði ég að vera eins og Norm. Kaldhæðinn gleðigandur en um leið hlýr og mikils metinn.

En þegar ég varð eldri og fór að stunda pöbba sjálfur áttaði ég mig á að þættirnir um Norm og félaga voru fullkomlega á skjön við raunveruleikann. Fyrir það fyrsta var aldrei neinn fullur á Staupasteini, aldrei sá á Norm og Cliff, sama hvað þeir þjóruðu. Á pöbbum raunheims er fólk heldur ekki með sama græskulausa húmorinn. Ef ég myndi skjóta einni vinalegri Cliff-skrýtlu á sessunautinn á barnum yrði ég líklega laminn fyrir dónalegheitin.

Staupasteinn gaf falsmynd af knæpulífi alveg eins og Strandverðir af strandlífi. Í Staupastein vantaði mikilvægasta faktorinn í formúluna, sjálft áfengið.

Margar af ranghugmyndum mínum um lífið eru semsagt sprottnar upp frá sjónvarpsáhorfi. Oft hef ég spáð í að leita mér aðstoðar, t.d. hjá sálfræðingum, en er um leið smeykur um að þá fari ég kannski að efast um vinnubrögð góðvinar míns, Frasiers Crane. Sem væri vont.

Og ekki láta mig byrja á staðreyndavillum í þáttunum um Búrabyggð.