föstudagur, nóvember 11, 2005

Verðgildi fólks

Það skiptir máli að tala rétt. Segja ‘ég hlakka til’ og aldrei ‘ég vill saltstengur’. Það skiptir máli að lesa bækur þó að þær séu stundum langdregnar. Það skiptir máli að hlusta á réttu tónlistina, horfa á réttu kvikmyndirnar og sjónvarpsþættina og mikilvægt er að agnúast út í nýja íslenska piparjúnkinn og sveia yfir nafngift þáttarins (‘bachelor’ er sko útlenska). Það skiptir máli að hafa menntun. Það er betra að vera með BA-gráðu í heimspeki eða finnsku en að vera sjómaður. Það skiptir máli að gera aldrei skandala þegar maður er í glasi. Það skiptir öllu að gæta hófs. Það skiptir máli að klæða sig rétt, eiga margar flottar tegundir jakkafata og að vera virðulegur. Það skiptir máli að eiga nýjan bíl. Það skiptir máli að vera snyrtilegur og raka sig reglulega. Það skiptir máli að þekkja vel til frétta í dagsins önn. Það hjálpar að skrifa greinar í Moggann og Fjarðarpóstinn um mikilvæg málefni.

En það er ekki nóg að vera búinn að ná þessum atriðum öllum. Það þarf líka að leggja alla áherslu á að halda sér undir öllum kringumstæðum á beinu brautinni. Það skiptir máli að gera ekki mistök sem gætu rýrt verðgildi þitt og valdið gengisfellingu.

Þetta er bara spurning um ávana. Þegar maður er lítill venur maður af sér að míga á sig. Þegar maður er stór venur maður af sér að þora að vera maður sjálfur svo maður geti verið eins og hinir.

Vertu með. Það er gaman.