þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Ókindin

Á sumrin var snilld að spila fótbolta við nunnuklaustrið. Toppgras, ljósastaurarnir fínar stangir og klausturveggurinn snilldarbatti. Þegar yfirhöfuð var hægt að spila á grasi fórum við þangað í ein’snertingu, naut eða skiptum bara í tvö. Ég, Stebbi, Gubbi, Davíð, Hjalti, Andri og allir kapparnir í bekknum. Kannski níu ára gamlir. Kannski ellefu.

En leikvangurinn var ekki alveg lýtalaus. Gamanið tók heldur að kárna þegar boltinn fór yfir helvítis vegginn og inn í garð nunnanna. Við vorum skíthræddir við nunnurnar. Þær voru eitthvað svo dularfullar. Sáust nær aldrei á almannafæri. Heyrðum þær samt oft hjala tómt rugl á pólsku þegar þær unnu í kálgarðinum. Þessu pólska babli hreyttu þær yfir vegginn og í okkur meðan við eltum leðrið á ‘Nun Stadium’ í Klausturhvamminum. Ég skildi hraflið alltaf þannig að þær væru sannarlega ekki að fíla að deila veggnum með okkur.

Og einn afdrifaríkan sumardag lenti ég í því óhappi að sparka mínum eigin bolta yfir. Í þá daga vissi maður örlög sín ef maður sparkaði knettinum yfir. Ef einhver annar hefði sparkað honum hefði sá þurft að sækja hann. En böndin bárust að mér. Ég vissi vel af frægri sögu um eldri strák sem var að dingla sér í nunnugarðinum og uppskar þá refsingu að vera rifinn inn í klaustur og skammaður á pólsku fyrir að dirfast inn í garðinn. En ég vissi líka að ég varð að freista þess að endurheimta boltann. Varð að tefla djarft og leggja í þessa svaðilför.

Þó afar fáir þorðu inn í garðinn vissu allir hvernig maður komst þangað. Fyrst þurfti að klifra upp á bílskúr og svo að þiggja ‘fótstig’, eins og það var kallað, frá félögunum. Þetta gerði ég, um leið og hjartað barðist um í brjósti mér. Ég var á leið í hóp örfárra en valinkunnra villinga í hverfinu sem barið höfðu garð nunnanna augum. Og senn blasti hann við mér. Tré, kálgarðar, runnar og blóm hvert sem augað eygði. Mér var hugsað til Edengarðsins úr kristinfræðitímunum. Ég stökk mígandi hræddur inn í garðinn og þakkaði guði fyrir að engin nunna væri í sjónmáli. Ég hljóp hratt milli trjárunna og faldi mig ávallt stundarkorn þegar ég gat mögulega skýlt mér bakvið þá. Það var góð aðferð. Ég fann fyrir æ meira hugrekki og æ minni hræðslu. Þetta var ekkert mál. Ég var alveg að koma að staðnum þar sem mig grunaði að boltinn væri. Ég lét vaða, hljóp framhjá stóru tré sem byrgði mér töluvert sýn en snarstoppaði skyndilega og rak upp kvenlegt óp. Gegnt mér var ófrýnileg, stórvaxin nunna í kálgarði með stóra hrífu í hendi. Hún var eldrauð í framan og svipljót. Ég var augliti til auglitis við þessa vambmiklu og ótótlegu forynju. Mér fannst reiðisvipur og ygglibrún nunnunnar segja mér: ‘Ég ætla að éta þig!’. Ég skríkti skyndilega af hræðslu, sneri við og tók til fótanna. Hljóp hraðar en nokkru sinni fyrr í átt að klausturveggnum. Ég leit til baka og sá þá tröllvaxna nunnuna halda í kuflfaldinn og hlaupa á eftir mér. Ég man hvernig ég stundi af hræðslu á sprettinum. Var með grátstafina í kverkunum. En mér til happs var hún feit og svifasein. Hægfara silakeppur. Ég var skotstund að klifra upp vegginn og til strákanna. Hún mátti auðvitað ekki elta okkur út fyrir klausturvegginn en þó ég vissi að ég væri hólpinn var ég svo hræddur að ég fór beinustu leið heim. Var lengi móður og másandi og enn lengur í algjöru andlegu ójafnvægi.

Nokkrir mánuðir liðu. Það var vel liðið á haust þegar síminn hringdi heima. Svenni bróðir svaraði. Einkennileg, eiturhress rödd hljómaði.
-Jállóóó, jir Krjessmúndúr hjeima?
Svenni var handviss um að þarna væri einhver félagi minn að gera gott grín og svaraði um hæl.
-Jálló, Krjistmúndúr ér sko hjeimaaaa.
Svenni kallaði á mig í símann. Í símanum var nunna. Hún var glöð í bragði og tjáði mér að hluti kartöfluuppskeru nunnanna þetta árið hefði verið hvítur fótbolti.
-Adíns of stjór tila vjíra kjardöfflur, sagði hún og hló skærum, manískum nunnuhlátri.

Ég þorði ekki að vitja knattarins nema í fylgd Svenna bróður og hans úrræðagóða vinar, Sigga E. Ég var skíthræddur um að tröllvaxna nunnuómyndin í kálgarðinum tæki á móti okkur og myndi snappa á mig. Sem betur fer kom smávaxin, vinaleg nunna til dyranna í klaustrinu og lét mig fá boltann. Hann var vel merktur: ‘Kristmundur s. 5 1261’.

Ég fór aldrei aftur yfir vegginn. Samskiptareglurnar milli mín og nunnanna voru skýrar eftir þetta. Þær áttu að fá að vera í friði. Ég þorði aldrei með þegar krakkarnir bönkuðu upp á hjá þeim og sníktu biblíumyndir. Safnaði fótboltamyndum í staðinn.