föstudagur, nóvember 18, 2005

Jólin, jólin, jólin, jól-i-i-in (I’m begging of you please don’t take my man)

“Hey Santa! Pass us that bottle, will you?”
... sagði guðspjallamaðurinn Ian Andersen


Julebryg er kominn til byggða og mín kanna stendur full uppi á stól, bíðandi eftir að verða drukkin. Ég hef alltaf verið hrifinn af fullum bjórkönnum rétt eins og fullum bensíntönkum og fullum konum.

Jólasveinki með röntgenaugum er byrjaður að fylgjast með. Ef maður er góður fær maður karamellu, óþekkir fá kartöflu. Kallast held ég jákvæð styrking eða umbun í uppeldisfræðum. Jóli sér um að vega og meta hegðun barna og þegar jólahátíðin rennur upp rennur stund sannleikans upp líka.

Ég veit um tvo menn með röntgensjón. Hinn heitir Guðsi. Þeir eru báðir allt í öllu út um allt og ekki hægt að leika á þá. Þá blöffar enginn. Það kemur líka að því að Guðsi fellir yfir þér dóminn. Umbun í húfi fyrir þæga.

En Jóli er plat. Allir fatta það á endanum að fullorðna fólkið stendur á bakvið allan áróðurinn, vopnað karamellum og kartöflum. Tvífari hans og röntgenbróðir, Guðsi, er meiri ráðgáta. Ætli fullorðna fólkið sé líka að grilla í okkur hvað hann varðar? Að halda okkur þægum?

Skiptir það máli á föstudögum? Held ekki.

Ég er ekki aðdáandi jólaauglýsinga í október og nóvember. En ég er aðdáandi Tuborg Julebryg og ljóst er að eitthvað helvítis almanak nær ekki að stía okkur vinunum í sundur svo glatt. Það má kalla þetta tvöfalt siðferði. Hann rennur allavega drullugreiðlega niður þetta árið.