laugardagur, nóvember 26, 2005

Enn kvenmannslaus ólíkt heimskum junki

“Er ég landsins mesti piparpúki?
Piparsveinn er heima húki?
Er ég bjáni? Eða kjáni?
Einn, hreinn sveinn; kvenmannslaus”

Söngsveitin Randver


Um langt skeið hef ég reynt að miðla fræðum knattspyrnunnar til mér yngri manna. Einn lærisveina minna, sem var í minni umsjá í heil fimm ár (kappinn er tíu ára í dag), hafði undir það síðasta djúpstæðar áhyggjur af hjúskaparstöðu minni. Hann botnaði ekkert í því hví ég væri einhleypur, fannst að ég ætti að vera tvíhleypur. Þessi mál ræddi hann sífellt við móður sína og lýsti hvað eftir annað furðu sinni á þessum ráðahag mínum. Einu sinni sagði hann hugsi við móður sína: “Krissi kann örugglega bara ekki að tala við stelpur á sama hátt og ég”. Þar hafði hann örugglega ýmislegt til síns máls. Í sumar, þegar piparjunksfárið var sem mest, kom hann uppljómaður til foreldra sinna og bað þá um að skrá mig í basselörþáttinn. Þannig gæti ég kannski náð mér í kvensu. Hann lagði einnig hart að mér að bjóða mig fram og varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég ákvað að gera það ekki.

Hér fyrir stundu sá ég hins vegar glefsur úr umræddum þætti og verð að lýsa yfir óánægju minni með helvítis junkinn. Þetta er bara djöfulsins garmur. Áðan var hann að þakka fyrir sig á amerískum veitingastað og varð að orði “And as we say in Iceland; takk fyrir versta hamborgara sem ég hef smakkað!”. Glansdúkkan, deitið hans varð vitaskuld vandræðaleg og þá spurði forsmánin: “Fannst þér þetta ekki fyndið sem ég sagði?”. Svo hló mannkertið.

Um leið og ég hafði skipt um stöð og hrækt smánaryrðum að sjómbanum varð mér hugsað til stráksa sem óður vildi að ég yrði hórumangari Íslands. Og eitt lítið augnablik var ég sannfærður um að ég væri betri piparjunkur en þessi gúbbi sem birtist stundum á sjónvarpsskjánum mínum.