fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Hnattvæðing

Var að þjálfa eitt sinn um hávetur. Útiæfing í alkuli, snjó og strekkingi á gervigrasinu í Krikanum. Eftir æfingu hafði ég hvorki tilfinningu í fingrum né tám. Gekk snögglega frá boltum og keilum og gerði mig kláran fyrir að labba heim. Þetta var 20 til 25 mínútna labb þegar veður var gott. Samt labba ég mjög hratt. Stormurinn varð sífellt ágengari. Snjóhríð, stundum haglél og mikill vindbylur mér í mót. Ég bölvaði því að búa á illu skeri á norðurhjara. Bölvaði þessum ógeðisútnára. Ég skjögraði áfram Álfaskeiðið í hatrammri baráttu við mótvindinn þegar ég heyrði í símanum mínum. Svaraði og þrátt fyrir óhljóð veðurs og vinda heyrði ég mann segja: “They never did like mama's homemade dress; Papa's bankbook wasn't big enough.”

Ég hljóp eins og fætur toguðu að gömlu kjörbúðinni á Álfaskeiðinu (þar sem nú er bílaleiga) og faldi mig bakvið gám. Kengboginn og samanrekinn lá ég í skjólinu og hlustaði á manninn í símanum. Ég hreyfði hvorki legg né lið í sirkabát fimm mínútur. Þegar ég loksins stóð upp og gekk frá símanum sá ég að ókunnugum manni var starsýnt á mig. Hann var klæddur í snjógalla og með risastóra loðhúfu á höfði, stóð með undarlegan svip en steig annað slagið nokkur skref til baka enda með strekkinginn beint í fangið. Hann þurfti að kalla hátt svo ég heyrði: “Er í lagi með þig?”. Af svipnum að dæma var hann með miklar áhyggjur af mér. Ég reyndi að afstýra þessum misskilningi og láta áhyggjur mannsins hverfa: “Jáááá, bróðir minn er á tónleikum með Bob Dylaaan!”. Áhyggjur mannsins hurfu þó ekki við þetta og ég þurfti að útskýra allt saman eins og ég væri að tala við fimm ára krakka. Hann áttaði sig þó að lokum.

Ég kvaddi manninn og hélt áfram förinni en nú með bros á vör. Mér var ekki lengur uppsigað við veðrið eða þennan alheims útkjálka sem ég var staddur á og arkaði löturhægt áfram um leið og ég raulaði ‘Tangled up in blue’ í hljóði.