fimmtudagur, nóvember 24, 2005

A poem should not mean, but be

Það er einn gaur sem er skáld. Drullufínt skáld alveg. Og hann var með ljóðaupplestur um daginn sem hafði verið auglýstur út um allar trissur svo dögum skipti. En þegar stóra stundin rann upp voru bara fjórir mættir. Mamma skáldsins, tveir hundgamlir og frekar subbulegir kallar og vinur skáldsins sem var hvort eð er að læra á bókasafninu sem upplesturinn fór fram á. Þegar ég frétti þetta fór ég mikið að spá. Hefur fólk ekki áhuga á ljóðum lengur eða eigum við kannski engin skáld sem trekkja að? Og ég fór á stúfana. Krufði m.a. mest lesna ljóðasmið landsins til mergjar og reyndi að komast að því hvað það væri í kvæðum hans sem heillaði fólk. Fólki til glöggvunar hef ég ákveðið að birta eitt verka skáldsins. Athugið að athugasemdir mínar eru í svigum.

Hvar er ég?
eftir Birgittu Haukdal

ég horfi í augun þín skær
mig langar að komast miklu nær (nær hverju?)
hleyptu mér að þér
sjáðu hér stend ég ein og sár
ég vil ei sjá þig hverfa mér frá (sár rímar illa við frá)
aðeins þig (aðeins þig hvað? Í hvaða samhengi er þessi ljóðlína?)

hvar er ég?
inní þér? (hvernig getur ljóðmælandi verið inni í einhverjum öðrum?)
langar að vita miklu meir
veit ég vil
finna frið (vil rímar ekki við frið frekar en ég við þér á undan)
þú veist ég vil bara aðeins þig (bara aðeins? Þýða þessi orð ekki það sama?)

þótt tíminn standi stundum kyrr (hvenær þá? Útskýra, takk!)
ég hugsa meir um þig en fyrr (hvað kemur það því við að tíminn standi kyrr?)
ég standa vil með þér
tíminn hverfur mér frá (hefur hún skyndilega ekki tíma fyrir hann? Þarf hún að fara? Hvað merkir þessi lína?)

hvern dag sem dvel ég mun þér hjá (hvaðan kemur þetta ‘mun’? Fáranleg ljóðlína)
þig ég vil (vill hún hann semsagt bara þá daga sem hún dvelur hjá honum?)

Verkið ‘Hvar er ég?’ kýs ég að túlka svo að höfundur varpi ákveðinni gátu fram með heiti ljóðsins og að hið rétta svar sé að hann sé í góðu sýrupartíi í Kristjaníu. Á svona 'Fear and loathing' trippi. Reynist þetta ekki meining höfundar skil ég ljóðið alls ekki.

Spurning hvort ég hafi loksins fundið BA-verkefnið mitt: Söngvaskáldið Gitta.