laugardagur, desember 03, 2005

Some people call me the space cowboy

Þegar ég var að byrja í Flensborg var ansi mikið af Gunnum (drengjum sem báru nafnið Gunni) í busahópnum. Minn uppáhaldsgunni var Gunni Grétar. Annar Gunni kom úr Grindavík. Og einu sinni stakk ég upp á að til aðgreiningar yrði hann kallaður Gunni Grindevicensis eins og Grindvíkingurinn Jón Guðmundsson Grindevicensis í Íslandsklukkunni. Það viðurnefni festist aldrei í sessi. Í staðinn fékk ég viðurnefni sem senn var á hvers manns vörum: ‘Fávitinn’. Átti sér skírskotun í heimsbókmenntirnar líka.

Á fjórða ári var ég hins vegar þekktur undir nafninu Elding. Ég var Elding, Jói var Þruman og Siggi var Stormur. Bárum þessi nöfn í daglegu tali. Einhver spurði kannski: ‘Hei, hvar er Elding?’ Og þá svaraði Stormur máski yfirvegað en töff í bragði: ‘Skrapp á klósettið með Þrumunni’. Ég var alltaf stoltur af því að vera Eldingin. Fannst það vera forréttindi. Þangað til ég frétti að nafngiftin var upphugsuð af stelpuskjátum sem vísuðu með henni í bólgetu mína. Það var versti afmælisdagur sem ég hef upplifað.

Hef reyndar lengi verið kallaður Dóki líka. Á tímabili hélt fólk að Dóki væri millinafnið mitt. Og í háskólanum geng ég stundum undir nafninu Kimbi. Já, þið gátuð rétt; eins og Þorleifur kimbi í Eyrbyggju.

Í dag vil ég samt helst vera kallaður Krissi. Er kominn yfir öll þessi gælunöfn. Eiginlega eina nafnið utan Krissa sem má kalla mig í dag er Níðhöggur hinn mikli. Nennið þið því? Plís? Ég skal borga ykkur.