fimmtudagur, desember 01, 2005

Hlusta á Ace of Base og ég ferðast aftur í tímann

Já, verður maður ekki að gera þessa endurfundi upp?

Þegar ég mætti í partíið um kvöldið var allt liðið mætt og orðið ölreift mjög. Til að byrja með þurfti ég ítrekað að líta á klukkuna. Ekki af því það var leiðinlegt heldur vegna þess að ég hafði lúmskan grun um að hún væri orðin 1997.

Ég ferðaðist eiginlega átta ár aftur í tímann og fór í enn eitt 10. bekkjarpartíið ásamt grunnskólafélögum mínum. Besta 10. bekkjarpartí sem ég hef farið í. Án efa ekki það síðasta.

Sömu hlutirnir reyndar nokkurn veginn í gangi, gömul kærustupör að rífast yfir sambandsslitum frá árinu 1997, Kiddi með klútinn enn með klútinn og ég held ég hafi meira að segja séð tvo gaura poxa í einu horninu. Kiddi og Gunni lentu svo næstum í slagsmálum þegar Gunni sagði í óðagoti að Scatman væri betri en Snow. Þó fólk hafi vafalaust breyst mjög mikið og jafnvel þroskast eitthvað á þessum átta árum duttu allir eiginlega í sama farið. Og það var líka það besta sem gat gerst.

Enginn setti upp ríjúnjongrímuna og þóttist í tærum rembingi vera að brillera í lífinu. Fáir gengu manna á milli og spurðu: ‘og hvað ert þú að gera?’. Mjög fáir voru með vélræna og þaulæfða framsögu um afrek sín síðustu árin. Enginn var í stigakeppninni þar sem punktar fást fyrir að eiga hús og börn og vera giftur og eiga jeppa og uppþvottavél og að vera búinn að finna upp nytsamlega hluti eða búinn að bjarga selebrídíum úr eldsvoða.

Kannski er fólk bara búið að gera sér grein fyrir því að það er löngu búið að missa það. Sá eini sem hefur afrekað eitthvað frásagnarvert er Heimir, en hann er landsliðsmaður í litbolta. Ég áttaði mig reyndar ekki alveg strax á því hvað litbolti væri og fór að ímynda mér hann í ærslafullum leik í Boltalandi eins og var í IKEA. Heimski ég fékk svo að vita að þessi íþrótt heitir peintboll á íslensku.

En þarna var mikil gleði. Takmarkalaus gleði. Eða svo ég vitni að lokum í hið fornkveðna, eiginlega nokkurs konar einkunnarorð kvöldsins:
“No, no, no, no, no, no, no, no, no, no, no, no, there’s no limit’.