Skröggur spíttar út
Senn líður að árlegri hátíð hins heilaga peningaguðs. Fólk hefur bráðum hlaupið nóg um Smáralindina, hrint og troðist og barist fyrir síðustu eintökunum af Jóa Fel á DVD og nýju karókíplötu Kalla Bjarna. Það er gaman að segja frá því að þessi hátíð var áður fyrr tengd kristinni trú, ljósi og friði, jesúbörnum og mirrum. Enn þann dag í dag eru reyndar örfáar hræður sem í tilefni af þessu öllu saman dusta rykið af Guðsa gamla og mæta í kirkju. Liðið setur guðinn samt auðvitað aftur niður í skúffu þegar heim er komið. Öðrum nægir að setja bara Garðar Cortes á fóninn til að upplifa hátíðlega fílinginn. Ég set í mesta lagi Cortez the killer með Njáli unga á minn grammófón.
Þetta er skrýtin hátíð. Kannski eitthvað til í því sem einn móróninn söng; ‘Jesú hefði hlegið með/ hann faðir minn hefð’ann séð / mömmu kyssa jólasvein í gær’. Samt ekkert leiðinlegur skrípaleikur. Bara súr.
Átti erindi á sóðabúlluna Jolla bæði í gær og í dag. Kellurnar þar þurfa alltaf að segja ‘gleðileg jól’ og kreista fram dánheilkennisbros. Er að hugsa um að koma þeirri hugmynd á framfæri til eiganda staðarins (held hann heiti Jolli) að skipta út ‘gleðilegum jólum’ og neyða þær til að segja ‘gleðileg Jollajól’ í staðinn. Það myndi klárlega auka viðskipti:
-Ha? Ég heyrði ekki hvað þú sagðir...
-Gleðileg Jollajól (með hröðum og áhugalausum framburði).
-Einu sinni enn, ég bara heyrði ekki neitt...
Gott væri líka ef þær þyrftu alltaf að enda setningar um hátíðarnar á ‘barammbammbammbamm’ eins og í vísunni um litla trommuleikarann (held að lagið sé um Halla í Botnleðju); ‘Stelpur, nennið þið að setja einn tvöfaldan sóðaborgara á grillið, barammbammbammbamm’ eða ‘viltu franskar með þessu, barammbammbammbamm?’.
Bara upp á fílinginn. Jólin er nefnilega bara einn stór fílingur. Í kringum jólahaldið þurfa að vera rótgrónar hefðir sem helst má ekki hrófla við.
Heyrði einu sinni sögu af fjölskyldu einni sem rökræddi jólahaldið mikið. Krakkarnir þrír voru orðnir þreyttir á að troða alltaf rjúpu framan í sig á aðfangadagskvöld og vildu umbylta þeirri hefð. Eftir þras ákváðu foreldrarnir að láta lýðræðislega atkvæðagreiðslu skera úr um málið. Krakkarnir héldu leynilegan skyndifund en greiddu svo atkvæði og fór svo að rjúpan laut í lægra haldi með eins atkvæðis mun... fyrir Kentucky Fried Chicken. Krakkarnir voru þrjóskir og hótuðu öllu illu ef foreldrarnir voguðu sér að vanvirða lýðræðið. Á aðfangadagskvöld hitaði mamman á heimilinu upp kjúklingabita sem hún hafði keypt á Þorláksmessu og fólkið át Kentucky og franskar meðan messan ómaði í útvarpinu. Að matnum loknum ákváðu skömmustulegir krakkarnir að rjúpan yrði á borðum framvegis. Upp á fílinginn.
Hjá mér er jólastemmarastuðullinn frekar lágur ennþá. Er enn að bölva sjálfum mér fyrir að hafa skitið á mig í síðasta prófinu. Gekk reyndar mjög vel í prófinu, það er bara svo hallærislegt að skíta á sig, ekki síst þegar maður er kominn á þrítugsaldur og svona. Kannski finnur maður fílinginn á jóladag, sprettur upp og spyr krakkann í næsta húsi hvaða dagur sé, fiskandi eftir svarinu: ‘Það er jóladagur!’. Svona eins og úrilli gaurinn í sögunni. Eftir það mun ég svo hlusta eins og óður maður á Garðar Cortes, gera eins og einn engil í snjónum, éta laufabrauð og syngja fa-la-la-la-la-la-la-la-la og barammbammbammbamm og fúmm-fúmm-fúmm.
Jább. Svon’eru jólin. Svon’eru jólin.
<< Heim