laugardagur, desember 03, 2005

Saurmissir

Var að heyra að ófremdarástand ríkti í grunnskólum bæjarins þar sem nemendur leggðu í vana sinn að losa saur í skólatöskur og pennaveski samnemenda sinna. Eigi veit ég hvað skal segja um þá iðju. En einungis einn mann þekki ég sem komist hefur skammlaust út úr því að kúka á sig. Það var strákur sem ég þjálfaði fyrir mörgum árum.

Pottormurinn varð semsagt fyrir þeim skakkaföllum á miðri æfingu að drita lítið eitt á sig en var þó ekkert á leiðinni í einhvern vandræðalegan pakka. Var eiginlega bara ofursvalur á því:
-Hei Krissi, ég var að kúka á mig maður, sagði hann hálfbrosandi.
Ég varð grafalvarlegur þegar ég heyrði þetta. Ætlaði í fyrsta lagi að passa rækilega upp á að enginn af hinum strákunum á æfingunni kæmist að þessu og þurfti í öðru lagi einhvern veginn að tækla vandann. Gaurinn hafði minni áhyggjur:
-Já, ég er að spá hvort ég megi ekki bara hringja í mömmu og láta hana sækja mig fyrr. Ertu með síma, maður?
Ég lét hann fá símann minn og hann sagði múttu alla sólarsöguna án þess að blikna. Ætlaði svo að kveðja mig:
-Krissi, ég ætla bara að kíkja niðureftir, mamma er að koma. Við sjáumst bara á næstu æfingu, er hún ekki á laugardaginn?
-Uuu, jú, laugardaginn...
-Klukkan þrjú?
-Jú.
-Kúl. Sjáumst.
Svo labbaði hann drullusvalur af æfingu, og hélt fullkomlega kúli þrátt fyrir einkennilegt göngulag sem skýrðist af óboðna gestinum í brókum hans.

Þó strákhvolpurinn hafi náttúrulega verið mjög ungur þegar þetta gerðist sýndi hann og sannaði að maður þarf ekkert að vera kindarlegur þó óhöpp banki að dyrum. Klárt að ef það kemur manni ekki úr jafnvægi að kúka á sig er maður fær í flestan sjó. Sjálfur myndi ég sennilega saga af mér vinstri hendina fyrir að vera að eðlislagi jafnkúl á því og kauði.