miðvikudagur, desember 14, 2005

Svartigaldur frænku + Æ þér forni fjandi

Viskupésar og málsmetandi menn hafa stundum deilt um hver séu mestu grimmdarverk mannkynssögunnar. Tína kannski til umdeilda höfðingja eins og Stalín, Pinochet og Hitler og segja þá eiga höfundarétt illskupara og djöfulgangs. Ekki get ég sagt að ég sé sammála þess konar spekingum enda verður mín seint minnst sem viskupésa (á mínum legsteini mun sennilega standa: ‘Hér hvílir Kristmundur Guðmundsson, maður vel fyrir neðan meðalgreind. Vinsamlega stigið á hann.’). Illræmdasta grimmdarverkið sem mér kemur í hug var framkvæmt í byrjun desember 1986. Bakvið glæpinn var enginn Hitler, enginn Pol Pot, enginn Gengis Khan. Það var Þóra frænka, fjögurra ára skrattakollur frá Selfossi.

Hinn myrki svartigaldur sem frænkuvargurinn framdi fólst í því að bíta í alla molana í súkkulaðidagatalinu mínu og skila þeim svo aftur á sinn stað. Þessi jól liðu í ekka og táraflóði. Ég hágrét með gismóinn minn í fanginu. Hver bítur í alla molana án þess að klára þá? Hvað gekk henni til?

Vert er reyndar að geta að mikið rættist síðar meir úr þessari frænku. Hún er eiginlega með frægari frænkum (sennilega næstfrægust á eftir Soffíu). Í Flensborg var hún til að mynda ekki þekkt undir öðru nafni en Þóra frænka. Eitt sinn átti aðstoðarskólameistarinn meira að segja eitthvað vantalað við hana, gekk inn í miðjan líffræðitíma og bað um að fá að eiga orð við ‘Þóru frænku’. Ekkert þótti athugavert við það. Hún var frænka allra Flensborgara. Kennara og nemenda. Og Hreins húsvarðar sem safnaði plötum.

Og ástæða þess að ég dreg þetta jóladagatalsmyrkraverk frá 1986 fram í dagsljósið með tilheyrandi tilfinningaskaða er sú að Þóra frænka hefur nú loksins stigið fram og játað glæpinn. Hún hefur og gefið mér táknræna gjöf, jóladagatal (þar sem hún fékk óvart þrjú slík í ár) og bætt þar með upp fyrir syndir fortíðar. Óhætt er að segja að ég hafi ekki einungis endurheimt jóladagatal heldur líka frænku mína.

Því langar mig að koma á framfæri hjartanlegum þökkum til minnar eðalfrænku, Þóru frænku. Fyrir hennar góðvild sef ég nú værum svefni á nóttunni með gamla gismóinn mér við hlið. Afglöp fortíðar eru gleymd og grafin.

Í jóladagatalinu í dag fékk ég lest, hreindýr, skip og snjókall. Já, og eitthvað lauf. Mér til málsbóta át ég þetta allt svo hratt að ólíklegt er að jólasveinninn hafi séð það.

.......

Annars er prófplágan að níðast á mér þessa dagana. Ég er eins og andlaus, skítblönk og rytjuleg vampíra. Sem skrifar lítið á þennan fjölmiðil. Sú mjölfiðla ómar ekki næstu daga. Ætla að skrifa mikið þegar ég er búinn.

Eitt námskeiðið er öðru fremur að murrka úr mér lífsviljann. Forni fjandinn, íslenskt mál um tólfhundruð. Tímarnir hafa verið sjóðandi helgrýti. Er viss um að sama námsefni er notað þegar draga þarf játningar upp úr harðsvíruðum glæpamönnum. Eftir tímana líður manni eins og nýbúið sé að nauðga manni. Í dag var ég að reyna að lesa helvítlegan forndjöfulinn en bugaðist og grýtti bókinni í vegg og hóf að þruma yfir forna fjandanum og særa hann til hlýðni.

Til að átta mig á hinum forna óskunda hef ég grafið mig niður í holu Refs, kollega míns í fræðunum, sem staðsett er í því skítuga ormabæli Kópavogi. Refvingullinn hefur sent fjölskyldu sína á brott svo hún kynnist ekki myrkum hliðum fornbjóðsins. Þar drekkum vér garmar rótsterkt kaffisull í skinnfatnaði, allt þar til líkaminn hættir að bjóða það velkomið. Þá færir maðr sik iðuliga yfir í áfenga drykki, vín ok bjor, til at halda sönsum. Eptir hrít lemr maðr hvárn annan met stóli svá maðr festir eigi sváfn.

Já. Líðr eins ok ek sé í dópi. Svá er lífit í Fagradali. Beiskt og vánt. Svá er fjándinn forn. Svá em ek langt leiddr.