Vér bavíanar hins ritaða orðs :(
Ég var á salerni knæpu um daginn og gaur sem ég kannast lítillega við stóð við þvagskálina við hliðina á mér. Hann sneri sér að mér og sagði:
-Hei, ég held ég hafi kíkt á bloggsíðuna þína um daginn. Ansi fróðleg!
Þetta kom mér allt í opna skjöldu og ég svaraði strax:
-Gaur! Þú ert að míga á mig maður, snúðu þér fram, fíflið þitt! Svona gerir maður ekki! Hættu! Snúðu þér fram!
Þá upphófst vandræðaleg sena. Hann sagði ekkert nema ‘sorrí, maður’ og ég fór undir þurrkvélina sem blés kraftlítið á hlandblautan mig. En mannkertinu til málsbótar skoðaði hann víst stundum bloggsíðuna mína. Og kvaddi ég fálkann með handabandi og færði ég honum hlýleg orð í nesti.
Sat sjálfur eftir illa lyktandi og djúpt hugsi. Hvaða skríll er það sem les þessi orð yfirleitt (þegar ég segi skríll þá meina ég þig)? Þekki ég þetta fólk? Og ég hélt áfram að spyrja sjálfan mig áleitinna spurninga. Ætli það sé til miðill sem bloggar og gefur framliðnum færi á að láta gamminn geysa? Eða blogg geðklofa manns sem skiptir ört um skoðanir og jafnvel hnakkrífst við sjálfan sig? Blogga dýr? Blogga konur? Hvað borða dýr?
Svörin létu á sér standa en víst er að mér þykir bloggdingl oft fróðlegt. Íslendingar eiga líka örugglega heimsmet í því eins og þunglyndi, fótanuddtækjaeign og óöryggi (‘hádjúlæk Æsland?’ ruglið er t.d. svona svipað og ef ég spyrði fólk alltaf ‘hvernig finnst ykkur ég?’). Já, annar hver moðhaus virðist vera með prívat síðu undir tuð sitt og leiðindi. Og þó blogg séu fróðleg og jafnvel skemmtileg stundum eru ýmsir bloggkækir sem gera mig leiðan.
Þar ber hæst erkióvinur minn, broskallinn :( Það að nota broskalla er svona svipað og að segja alltaf ‘djók’ í lok setninga :( Sem er ekki kúl til lengdar :( Broskallar eru líka óvinir kaldhæðninnar :( Stundum er ég hræddur um að einn daginn taki kallarnir alveg við af punktum :) ...nei ég meina :(
Annað dapur bloggsiður er þegar fólk færir hlátur sinn í letur. Bloggverjar skrifa alltaf eitthvað ‘hahahehe’ og ‘híhíhíhí’ þegar þeir slá á létta strengi. Í næstu Orðabók Menningarsjóðs verður hægt að finna orðið ‘múhahaha’ ef heldur sem horfir. Og fyrst fólk ritar hlátrasköll sín, hví ritar það ekki önnur hljóð sem það framleiðir meðan skrifað er? Hafa búkhljóð t.d. ekki sama tilverurétt í rituðu máli og hlátur? Ef ég er látinn vita þegar fólk hlær vil ég líka fá að vita ef það klórar sér eða hnerrar.
En það er nú bara ég. Bara orð manns sem migið er á á almenningssalernum. Ekki til að taka mark á. Gleymið þessu, hefði ekki átt að minnast á þetta. Hvernig finnst ykkur ég?
<< Heim