fimmtudagur, desember 29, 2005

Fordómar

“Nya svenskar
Gamla svenskar
Gamla fördomar
Nya fördomar”

Einu sinni var Haukari úti á gangi með hundræksni sitt, átti leið hjá sportbar og ákvað að stökkva inn og frétta hvernig Haukaleikurinn hefði farið. Haukarinn kallaði inn á pöbbinn, spurði hvernig fótboltaleiknum hefði lyktað og fékk þau svör að Haukar töpuðu. Um leið og það kom í ljós smellti hundurinn sér á bakið og lést vera dauður. Kapparnir á barnum brostu í kampinn og fannst þetta kostuleg sjón. Spurðu manninn hvort hundurinn væri þjálfaður í þessu. Það hélt sko Haukarinn, sagðist hafa kennt hundinum þetta og að hvutti lætist ávallt vera dauður er hann heyrði að Haukar töpuðu leik. Gleðigandarnir á barnum spurðu því næst hvað hundsi gerði eiginlega þegar Haukar ynnu.
-Tja... ég er ekki viss, sagði maðurinn. Ég hef bara átt hann í ár.

Ótrúlegt að segja frá því en þessi brandari var ekki fyndinn fyrr en ég skipti upprunalegu söguhetjunni út fyrir Haukara. Nú hugsa þó Haukararnir vinir mínir ef til vill: “Mikið djöfulsins fífl er hann Krissi alltaf”. Og lái ég þeim það ekki. Enda hafa þeir örugglega rétt fyrir sér. En rótgrónir fordómar mínir í garð Haukara hverfa ekki fyrir það (ekki einu sinni þó ég hafi áður logið því á þessari síðu að ég væri fordómalaus gagnvart Haukurum). Og þó ég hafi oft tekið unga FH-inga í gegn fyrir að skíta út Knattspyrnufélagið Hauka býr pínulítill fáfróður fordómadjöfull í mér sem púar á Hauka við hvert tækifæri. Það eina sem ég get gert er að bæla þessar tilfinningar niður eftir fremsta megni.

Á hinn bóginn fíla ég samkynhneigða í tætlur. Ég þekki reyndar engan samkynhneigðan sérstaklega vel en ég hef alltaf lagt mig fram við að sleikja þá upp. Þegar ég var ungur og blankur fór ég stundum á Mannsbar til að spjalla við kappana við barborðið og láta þá splæsa á mig kapteini í kók. Þeir komu fram við mig eins og algjöra prinsessu, blessaðir. Ég gufaði samt alltaf upp eftir drykkinn. Bara hvarf eins og algjör dramadrottning. En þessar ferðir voru samt lærdómsríkar og til þess gerðar að víkka sjóndeildarhringinn (þó ég hafi nú reyndar aldrei verið tekinn í sjóndeildarhringinn). Fordómaleysi mitt sést einnig vel á geisladiskasafninu mínu. Ég fíla fyrstu plöturnar með Queen t.d. alveg. Þó ég leggi fæð á allt sem þeir gerðu eftir 1980. Shír-hart-attakk er til að mynda frábær sem og Næt-at-ðí-ópera. Friðrekur sálugur var heldur ekkert slakur söngmaður.*

Ég hef líka fordóma gagnvart fólki sem notar orð eins og ‘raritet’, ‘pedagog’ og ‘að fabúlera’ og langar oft til að meiða það (ég fyrirgef þetta þó ef fólkið er danskt). Fólk gæti allt eins skipt þeim út fyrir orðin ‘ég er snobbaður hrokagikkur’ og komið sér þannig beint að efninu. Er einnig dómharður þegar ég sé fólk nota joð í orðinu aðilar.

En þó ég hafi í sakleysi mínu og einfeldni furðulegar hugmyndir um samkynhneigða og fyllist reiði þegar fólk segir ‘raritet’, hef ég engar áhyggjur af þeim karakterlýtum mínum. Ég hef meiri áhyggjur af vanþroskuðu sjónarmiði mínu í garð Haukara. Mitt nýársheit verður því tileinkað því að útrýma fordómum mínum í garð þeirra. Ég er sannfærður um að það muni takast með guðs hjálp enda miklu skemmtilegra að geta einbeitt sér að raunverulegu hálfvitunum, Stjörnumönnum úr Garðabæ.


*Heyrði reyndar ljótan brandara um daginn: ‘Hvað sagði Freddie Mercury eftir að hafa átt mök við Magic Johnson? Svar: Who want’s to live forever (hinu upprunalega svari hefur hér verið skipt út þar sem það þótti ekki fyndið).’