Nýtt ár
“Það besta sem
Guð hefur skapað
er nýr...
...dagur”
Allt verður frábært á árinu 2006. Fuglasöngur út í gegn, gríðarlegur hagvöxtur og enginn mun verða veikur. Sjálfur stefni ég á að gefa út hljómplötu, ljúka námi, skrifa skáldsögu um geimdreka og frelsast. Samkvæmt völvu ráðagóðu raddanna mun þó ekkert af þessu gerast nokkurn tímann. Hún og kústurinn hennar verða líka brennd á báli á þrettándanum enda göldrótt og leiðinleg. Aðspurð sagðist hún borubrött hafa séð það allt fyrir fyrir löngu. Á brennunni verða einnig Harrí Potter, Ellý Ármanns og dávaldurinn Sæless. Einnig maður sem stóð sig grunsamlega vel á Lengjunni á síðasta ári. Hvenær fer maður of langt með svona galdragrín? Einhver?
Um áramót spretta allir heimsins gáfumenn upp eins og gorkúlur og búa til topptíulista af öllum sortum. Menn ársins, íþróttamenn ársins, plötur ársins, og bækur ársins líta dagsins ljós. Það er hins vegar ofar mínum skilningi hvernig í ósköpunum allir fóru að því að hlusta á allar plötur á árinu og lesa allar bækur á árinu. Skrýtið að þetta duglega fólk sem það gerir skuli ekki vera menn ársins eða fá að minnsta kosti fálkaorðu. Ég viðurkenni stoltur að ég er ekki einn þeirra sem hlustaði á allt 2005 galleríið en ætla samt að láta listagyðjuna plata mig til að birta topptíulista yfir sönglög sem mér fannst hress á árinu 2005 (mér er svo sem sama hvort þau komu út á árinu eður eigi). Hér er hann og þegiði nú:
Aðvörun: Fyrst hélt ég að ég væri sniðugur að gera svona lista en sé núna að þetta útspil er svo leiðinlegt aflestrar að það gæti drepið heilu þorpin. Allir eru því hvattir til að hætta að lesa og skipta yfir á aðra stöð. Helst strax svo enginn beri skaða af. Hví lestu enn, óhlýðni lesandi? Snautaðu frekar á brautu!
10. Waltz 2 með Elliott Smith. Gömul plata og einhver sagði mér að kallinn væri dauður.
9. Lag með Ampop sem ég veit ekki hvað heitir.
8. Eiður Smári Gudjohnsen með hljómsveitinni Mér.
7. Þú skítuga borg með mér.
6. Gone for good með Shins.
5. Glósóli með Sigurrós.
4. Permanent waves með Kinks. Útsetningin döpur en lagið dúndur. Ray meistari Davies kemur til Íslands 2006 sem er gaman.
3. Kompromissen með Bob hund.
2. Chicago með Sufjan Stevens. Danni gaf mér Illinoise diskinn hans Sufjans og er hann hress og frekar póstmódernískur. Diskurinn er fínn líka.
1. Neigbourhood: In the tunnels með Arcade Fire. Besta band sem ég hef heyrt í lengi.
Einnig:
Íþróttamaður ársins: Álfkvikindið í Latabæ.
Hljómsveit ársins: Álfkvikindin í Mosfellsbæ er kenna sig við Sigurrós.
Blogg ársins í flokki fatlaðra: Þessi. Honum hefur farið mikið fram.
...
Verðlaunaafhendingu er lokið í ár. Bannað að troðast á leiðinni út. Sko mig samt að gera lista. Bara jafnmikill hálfviti og allir hinir.
<< Heim