þriðjudagur, janúar 24, 2006

What a drag it is getting old

“Mannshöfuð er nokkuð þungt
en samt skulum við standa uppréttir”


Um daginn var mér tjáð af talnaglöggum manni að í ár yrði ég 25 ára gamall. Sem er bara rugl. Dómaraskandall. Fékk mig til að hugsa um hvað felst í að eldast.

Þegar ég var í þriðja bekk snerist lífið um að eiga Thomas Berthold fótboltamynd eða Dikembe Mutombo körfuboltamynd. Það var allt frekar einfalt (nema ef mann vantaði áðurnefndar myndir). Allir voru vitlausir og tiltölulega áhyggjulausir. Ekki hægt að klúðra hlutunum á þessum aldri. Ef maður teiknaði mynd var alltaf sagt: “Þú litar fínt, Kristmundur”.

Þegar ég var í tíunda bekk var aðeins farið að örla á vitrænni hugsun. Mikilvægast samt að halda kúli þó það væri kannski ekkert stórslys ef það klikkaði endrum og eins. Allir ætluðu að verða þyrluflugmenn eða atvinnumenn í poxi eða ljónatemjarar en engir vildu verða endurskoðendur eða bankamenn eða afgreiðslumenn. Það var gaman í tíunda bekk. Einu sinni fengum við leika okkur í skólasundi.

Í dag er hins vegar sama hvert litið er; það eru allir búnir að missa það. Allir helvítis ræflar. Við erum í stærri líkömum en þegar við vorum í þriðja bekk en hjartað er kaldara, lífsgleðin minni og frítíminn af skornum skammti. Við vinnum í bönkum og sinnum afgreiðslustörfum. Við lifum af gömlum vana. Þegar menn svo mikið sem teikna mynd er litið á hana með grimmum gagnrýnisaugum. Aldrei heyrir maður: “Þú litar fínt, Eiríkur Smith”.

Einhver sagði að unglingsárin væru erfiður aldur. Held að sá hinn sami ætti frekar að prófa að vera 27 ára. Svo má hann spyrja Hendrix, Cobain, Joplin, Morrison, Brian Jones og Kristján Fjallaskáld (já og jafnvel bassaleikarann í Uriah Heep).

Þegar ég verð 27 ára ætla ég að láta pakka mér inn í bómul, alltaf að líta til hægri og vinstri áður en ég geng yfir götu og láta gítarinn minn alveg vera. Þangað til bölva ég því að hafa gefið ljónatemjaradrauminn upp á bátinn. Hefði getað orðið einn af þeim bestu.