þriðjudagur, janúar 24, 2006

Your mother should know

Vald mæðra er gríðarlegt. Þær stjórna öllu, skipa öllum fyrir og fá alltaf sínu framgengt. Þegar rök þrutu í minni æsku var alltaf hægt að smella einu ‘ef-þú-gerir-það-þá-læt-ég-mömmu-vita’ og mál féllu yfirleitt dauð og ómerk undir eins.

Ég naut þeirrar óttablöndnu ánægju að þekkja pínulítið til eins harðasta spaðans í Hafnarfirði á tíunda áratuginum (hálfgerður Francis Begbie okkar Hafnfirðinga). Þetta var gaur sem vílaði ekki fyrir sér að lúberja saklausa borgara ef honum mislíkaði eitthvað. En þrátt fyrir almenn óalmennilegheit hans í garð náungans var hann víst alltaf ljúfur sem lamb þegar mútta var innan seilingar. Og þegar hann sagði sig úr háskólanum hafði hann ekki kjark til að tjá móður sinni fregnirnar, vaknaði þess í stað alla morgna klukkan sjö, stökk upp í strætóbíl og tók einn hring meðan mamma hans kom sér í vinnuna. Svo fór hann bara aftur heim að sofa.

Máttur mæðra sannaðist ennfrekar þegar ég var að hlýða á útvarpið hér áðan. Ég hef oft lagt við hlustir þegar Þróttaradeila Atla Eðvaldssonar og Palla Einars ber á góma og útvarpsfuglinn Valtýr Björn var einmitt að ræða deiluna við reiða Þróttarakonu (held reyndar að þetta hafi verið brot úr gömlum þætti). Viðskipti þeirra voru á þessa leið:
Þróttarakonan: Og ég legg til að Þróttarar mótmæli þessari framkomu allir sem einn og styðji við bakið á Páli Einarssyni.
Valtýr Björn: Þekkirðu marga Þróttara sem eru sama sinnis?
Þróttarakonan: Ójá, það eru gríðarlega margir Þróttarar sem eru ósáttir.
Valtýr Björn: Hefurðu verið Þróttari lengi?
Þróttarakonan: Já, alla tíð. Hef vart misst úr leik síðustu árin.
Valtýr Björn: Áttu kannski börn í félaginu?
Þróttarakonan: Já, ég á barn í félaginu.
Valtýr Björn: Nú. Í hvaða flokki er það?
Þróttarakonan: Ja... það vill reyndar svo til að Páll Einarsson er sonur minn.

Ekki veit ég þó til þess að móðir Atla Eðvaldssonar hafi hringt inn og svarað fyrir sig. En það er gott að heyra rödd mæðra í samfélaginu. Mæður þingmanna mættu til að mynda láta betur í sér heyra. Gætu myndað sérstaka nefnd sem sæti á rökstólum og siðaði þingmenn til þegar það ætti við. Ég væri jafnvel hlynntur því að koma á sérstökum degi sem gæti heitið: ‘taktu-mömmu-þína-með-þér-í-vinnuna’-dagurinn.

Í beinu framhaldi gætu mæður Hannesar Hólmsteins og Jóns Ólafs útkljáð deilumál sona sinna í Kastljósinu eða mæður Árna Johnsen og Hreims tekið netta leðjuglímu til að gera upp gamlar sakir.

Kannski komið gott af þessu þrugli. Mamma er líka að kalla. Þarf að fara að nudda siggið á iljum hennar aftur.