föstudagur, janúar 27, 2006

Skrymbill fer í hraðbanka

Akureyrarferðirnar í Flensborg voru suddi. Fór tvisvar og kann margar sögur. Fæstar er hægt að hafa eftir. Stundum kom fyrir að prýðilegasta fólk náði ekki að skrá sig í ferðina í tæka tíð og henti þetta góðan vin okkar í eitt skiptið (þori ekki að láta nafns hans getið, köllum hann bara Skrymbil). Vonbrigðin voru vitaskuld mikil. Þetta var svona náungi sem allir dýrkuðu, ofurkammó og fantafjörugur fálki. Það þótti vont ef hann vantaði í partí. Einhvern veginn ætlaði Skrymbill þó að komast norður og taka djammið með því góða fólki sem hafði skráð sig í ferðina. Fáir bjuggust samt við að sjá kappann.

En þegar fólk var komið eilítið í glas uppi á hóteli á laugardagskvöldinu gerðist hið fráleita. Við stóðum nokkur saman á svölum Hótels Norðurlands og sötruðum drykki (sumir fóru með heillaráð Jóns Barða alla leið þetta kvöld og drukku vatnsglas og bjór til skiptis). Fólk var við það að komast í gírinn, eftirvæntingin mikil enda á hreinu að kvöldið yrði viðburðaríkt. Það var vitað. Allt í einu sáum við lágvaxinn gosa rölta inn í hraðbanka sem var við hlið hótelsins. Eiginlega alveg fyrir neðan okkur. Við sáum afar vel inn í hraðbankann og senn var ljóst að þarna var á ferð samkvæmisljónið og góðvinur okkar, sjálfur Skrymbill. Bara mættur á Akureyri án þess að tala við kóng eða prest! Hvílíkur snillingur! Fagnaðarlætin voru gríðarleg, menn byrjuðu að kalla í geðshræringu: ‘Krakkar, Skrymbill er mættur! Komið þið!’. Og fleiri og fleiri komu út á svalirnar og öskruðu nafn hans út í nóttina: ‘Skrymbill!-Skrymbill!-Skrymbill!’. Múgæsingin var algjör. Þetta var eins og á ótrúlega spennandi handboltaleik.

Hraðbankar eru hins vegar þannig úr garði gerðir að þegar maður er staddur inn í þeim heyrir maður ekki mikið hvað er á seyði fyrir utan. Þeir eru margir bara alveg hljóðeinangraðir. Og Skrymbill heyrði því ekki fagnaðarlætin og stemmninguna á svölunum sem stigmagnaðist með hverri sekúndu þar sem styttist í að Skrymbill kæmi út og heyrði lætin í okkur. Og það var þá sem allt fór úrskeiðis. Þegar Skrymbill var búinn að taka út peninginn sinn fór hann ekki rakleiðis út. Þess í stað girti hann rækilega niður um sig svo hans heilögu djásn blöstu við stuðningsmönnunum á svölunum. Og þegar hann meig í ruslafötuna í horni hraðbankans hætti fólk að hvetja hann áfram og hóf að kyrja með vonleysistón: ‘Nei, Skrymbill... ekki míga í ruslið! Ekki!’. En Skrymbill heyrði ekki orð. Og fyrir framan fulla stúku af aðdáendum meig hann í hraðbankanum með fávitaglott á vörum, algjörlega ómeðvitaður um að hópur fólks fylgdist vandlega með honum. Stuðningsliðið flúði aftur inn og þegar við hittum Skrymbil seinna um kvöldið reyndist enginn nógu hugrakkur til að minnast á þennan hvimleiða gjörning hans.