þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Holiday

“Holiday,
far away
to stay
on a Hol-i-day
Far away
Let's go today
In a heartbeat!”

Ég er hættur að nenna að skrifa svona blogg. Hef lítinn áhuga á því lengur. Samt dauðlangar mig til að halda aðeins áfram og ná að skrifa hundraðasta bloggið mitt. Vantar bara þrjú upp á.

Veit bara ekki hvað þetta hundraðasta blogg á að fjalla um. Ég er helvíti hræddur um að ég hafi nú þegar skrifað allt sem ég hef að segja. Á enga skoðun eftir. Eyddi síðustu skoðun minni í að taka afstöðu gegn listdansi á skautum sem er nú öllum stundum í sjónvarpinu. Nenni ekki einu sinni að apa skoðanir upp eftir öðrum. Ég er orðinn að svona gaur sem fer í skóbúðir og skoðar geðveikt lengi og mátar nær öll skópörin en kaupir aldrei neitt af því hann getur ekki ákveðið sig. Á endanum segir afgreiðslukonan svo alltaf: “Við erum búin að loka, ungi maður, vinsamlega farðu út”. Ég get ekki einu sinni myndað mér skoðun á gömlu LA Gear skónum með pumpunni og blikkljósinu. Meira að segja múnbúts gera ekkert fyrir mig. Ég man gamla teiknimyndaþætti um Skófólkið (Sjúsjúsjúsjúpíbol) en hef heldur ekkert markvert um þá að segja nema að þeir voru um skófólk.

Þessi vansi einskorðast ekki við skóbúnað. Ég nenni ekki einu sinni að mynda mér skoðun á spámannateikningunum, Silvíu Nótt eða þjálfaravandræðum íslenska landsliðsins í handbolta. Mér er bara alveg sama.

Ég hef því ákveðið að gera hlé á skrifum mínum. Ég er orðinn leiður á þeim. Orðinn leiður á sjálfum mér. Leiður á því að þurfa að druslast með sjálfan mig hvert sem ég fer. Leiður á að þurfa alltaf að vera með sjálfum mér í liði í fótbolta. Leiður á að vera alltaf samferða sjálfum mér í skólann. Leiður á því hversu illa borguð svona blogg eru.

Ég ætla því í stutt bloggfrí. Naflaskoðun framyfir vetrarólympíuleika. Það er líka nauðsynlegt að gaumgæfa vel á sér naflann þegar maður er úti að aka. Það vita jú allir menn með nafla.

Í fríinu mun ég kannski endurskoða ritstjórastefnu þessarar síðu. Ég hef lengi velt því fyrir mér að hugsa stærra, höfða til alþjóðlegs markaðar og skrifa jafnvel á ensku eða þýsku.

Annars er Samúel Örn að kalla á mig, útsending frá vetrarólympíuleikum að byrja. Reyni að fylgjast með þó ég sé ansi fáfróður um vetraríþróttir. Eina sem ég veit er að það má ekki borða snjóinn. Og þó það sé góð skemmtun að gera engla í snjó er það örugglega virðingarleysi að gera Múhammeð spámann í snjóinn. Þá verða allir skíðakapparnir frá Saudi-Arabíu brjálaðir.

Jæja. Ég er farinn, aular. Bæjó.