Einn kall
‘Well the dawn was coming,
heard him ringing on my bell.
He said: My name's the teacher,
that is what I call myself.’
Þegar ég var lítill fór ég oft á FH-leiki með föður mínum. Stundum kom annar kall með okkur. Þessum kalli fannst gaman að tala, var hressari og orkumeiri en álfurinn í sjónvarpinu en átti við það einkennilega vandamál að stríða að halda jöfnum höndum með Grindavík, KR og FH. Sagan segir að hann hafi verið meðlimur í KR-klúbbnum ásamt allra hörðustu Vesturbæingum. Einu sinni gleymdi hann sér í þessum félagsskap og stóð upp og fagnaði þegar FH skoraði í Frostaskjólinu. Kallinn uppskar ásakandi augnaráð sessunautanna.
Svo komst ég að því að kallinn væri kennari í skólanum mínum. Sögusagnir hermdu að hann væri ógnvænlega strangur. Samt var hann feikivinsæll meðal krakkanna. Eftirvæntingin var mikil í bekknum þegar kom í ljós að þessi maður ætti að kenna okkur.
Ég naut góðs af því að þekkja hann í fyrstu tímunum. Einu sinni kom hann með ævisögu George Harrison og sagði mér að skoða hana í tímanum. Barði svo öðrum klossanum í kennaraborðið og hóf að spyrja alla aðra en mig út úr námsefninu. Þetta gerðist aftur skömmu seinna þegar nýja KR-blaðið var komið út og ég fékk að glugga í það. Kallinn lánaði okkur bróður mínum líka Ten years after disk og Very ‘eavy, very ‘umble með Uriah Heep. Öðrum kennara skólans, Helga Helgasyni, varð mikið um þegar hann sá þessar plötur á borðinu mínu í stærðfræðitíma, talaði fjálglega um Alvin Lee, gítarleikara Ten years after, og sagði hann næstbesta gítarleikara í heimi á eftir bróður Höllu vélritunarkennara. Ég er ennþá að reyna að melta þessa athugasemd Helga.
Umræddur kall var snillingur í að segja sögur. Og mér til mikillar gleði komst ég nýlega að því að hann er sem betur fer ekki hættur því.
...
Svona í leiðinni má einnig benda á annan gamlan kenniföður og bloggjöfur sem á helvíti fínan ritvöll líka.
Og fyrst ég er byrjaður að rausa um góða penna þá er þessi einn sá kostulegasti sem ég hef nokkru sinni vitað um.
<< Heim