föstudagur, febrúar 10, 2006

Hryllingssaga

“God knows I’m good
God knows I’m good
God knows I’m good
God may look the other way today”


Á annan í jólum fór ég bæinn ásamt góðum mönnum. Á Keltik kross vorum við hýrir og í góðu skensi. Öllu glaðari var þó hópur úberkristinna gleðiganda, manna og kvenna, á borði ei langt frá okkar. Fólkið söng af mikilli gleði um á sem rann djúp og breið og um Jesú sem frelsaði þau. Stökk ég í hópinn og söng með en krakkarnir tóku mér misjafnlega. Ég hugsaði um að starta næsta lagi og byrja að gaula ‘Sympathy for the devil’ en þorði því ekki. Hefði líka litið út eins og kjánaprik. Illgresi í kálgarði guðs sem söng ekki með af einlægum ásetningi.

Enda hefði engu skipt þó ég hefði gert gott grín á þessari stundu. Ég hefði verið í sömu sporum eftir brandarann og ég var fyrir hann. Tilgangslaus og vitlaus sem fyrr, alveg eins og brandarinn. Þegar hlátrinum hefði linnt væri allt eins og áður. Ég bara einum brandara nær dánarbeðinu. Hressu krakkarnir fóru ábyggilega öll brosandi heim þetta kvöld, full af von, með sinn skýra tilgang í farteskinu. Ég hins vegar guðlaus og ráðvilltur og einn og kaldur og pínu illt í fætinum. Einn með grimmri vinkonu minni, hótfyndninni. Og vinum mínum auðvitað.

Oft vildi ég vera fígúran sem syngur um ána djúpa og breiða og talar um Job og Sýrak og Abraham. En ég á hins vegar við það vandamál að stríða að halda að jörðin sé flöt vegna þess að vísindamenn hafa fært rök fyrir því. Halda að allt sem ég geri byggist á rökum. Ég set bensín á bílinn minn því annars veit ég að hann mun lítið nýtast mér. Ef ég myndi ekki gera það tæki ég S2 strætóbílinn til að komast í skólann því ég veit að hann kemur mér þangað. Þegar ég þarf að tala við vini mína stimpla ég ákveðin númer á símann minn því ég veit að ef ég geri það heyrast raddir þeirra í símanum mínum. Reynslan hefur sýnt fram á allt þetta. En hvernig get ég haft skoðun á fyrirbæri (eins og Guðsa) sem enginn hefur séð? Sem enginn hefur sannað að sé til? Hvernig er hægt að sannfæra sig um eitthvað sem maður veit ekkert um? Er ekki alveg eins hægt að trúa á Lagarfljótsorma og einhyrninga? Bottomlænið sumsé: Molnum við ekki öll og grotnum ásamt hinum dýrategundunum þegar við deyjum? Slökknar ekki bara á okkur? Geimóver; ekkert aukalíf?

Kannski er bara hægt er að lifa á þrjá vegu. Í fyrsta lagi að lifa hræddur í tilgangsleysi og efa og trúa í hjarta sínu á stórt ekki neitt. Í öðru lagi að kjósa að hugsa ekki, lifa sofandi, hafa ekki áhuga á andlegum efnum og finna sér önnur áhugamál sem láta tímann líða (eins og t.d. að vinna vinnu eða lesa og skrifa blogg). Í þriðja lagi er hægt að sannfæra sig um að æðri máttarvöld sjái um okkur.

Úllen, dúllen, doff, kikkelaní koff.

Ef ég er heppinn er um það bil einn þriðji lífs míns að baki. Alltof mikið. Spurning um að fara að byrja að lifa?