mánudagur, mars 06, 2006

Dancing fool

“I hear that beat; I jump outa my seat,
But I can't compete, 'cause I'm a
Dancin' fool, I'm a Dancin' fool”


Hann var fastagestur í DV fyrir tæpu ári þegar stofnfjáreigendur Sparisjóðs Hafnarfjarðar komust í fréttirnar. Hann hefur leikið í sjónvarpsauglýsingum með frábærum árangri og forðum daga var hann markvörður í handbolta. Allavega tvívegis fékk hann beint rautt spjald. Í annað skiptið spurði dómarinn hann númer hvað hann væri en þegar kappinn svaraði með uppréttri löngutöng var hann sendur í sturtu. Í hitt skiptið var hann að leika gegn liði Ögra sem einungis var skipað heyrnarlausum leikmönnum. Í miðjum leik komst einn Ögramanna í hraðaupphlaup, var einn gegn umræddum markmanni sem gerði enga tilraun til að verja heldur gaf hinum heyrnarlausa merki um að tíminn hefði verið stoppaður. Sá heyrnarlausi snarhemlaði og rétti markmanninum boltann. Augnabliki síðar fékk þessi bíræfni maður að fjúka úr búrinu sínu og af velli vegna óíþróttamannslegrar framkomu.

Markmaðurinn er auðvitað lífskúnstnerinn og gleðipinninn Fiddi. Veit ekki alveg hversu sannar þessar markmannssögur eru en mér finnst þær ágætar engu að síður. Fiddi er mikill sögumaður og um daginn er ég horfði á unga FH-inga kljást í bikarúrslitum í handbolta sagði hann mér frá sögulegum úrslitaleik bikarsins í 2. flokki karla fyrir svona 25 árum.

Þá voru FH-ingar með mikið yfirburðalið og mættu KR-ingum í úrslitum. Sjálfsagt mikið af þjóðþekktum kempum sem spiluðu leikinn þó ég hafi gleymt að spyrja Fidda út í það. Í bikarleikjum ræður stemmningin oft miklu og KR-ingarnir börðust eins og ljón og höfðu yfirhöndina lengst af þrátt fyrir að vera minni spámenn í þá daga. Þegar 12 sekúndur voru eftir var þeim að takast hið lygilega, að sigra firnasterkt lið FH. Þeir voru marki yfir, með boltann og virtust ekki eiga í neinum vandræðum með að halda honum út leiktímann. Markmaður þeirra var að fara yfir um af kæti og stökk út á punktalínu þar sem hann steig villtan stríðsdans. Stjáni Ara komst þá inn í sendingu KR-inga og skoraði bæði yfir endilangan völlinn og dansandi markmanninn sem vissi ekki hvaðan á hann stóð veðrið enda djúpt sokkinn í danssporin. FH vann í framlengingu. Sagan segir markmaðurinn hafi aldrei dansað eftir þetta. Ekki einu sinni í brúðkaupinu sínu.

Einhvern daginn ætla ég að safna kjarki og spyrja Fidda hvort ég megi skrifa ævisögu hans. Koma öllum sögum hans á blað. Eftir mikil heilabrot er ég þegar búinn að upphugsa titil á bókina. Hún gæti heitið: ‘Fiddi’.