fimmtudagur, mars 02, 2006

Vindmyllur

Þegar Don Kíkóti las yfir sig af riddarasögum í Mancha forðum daga átti hann erfitt með að festa hendur á raunveruleikanum. Gaurinn las sína andlegu heilsu í burtu og snappaði. Meiri aulinn. Þegar ég læri fyrir próf hræðist ég stundum svipuð örlög.

Þessi ótti er ekki síst til kominn vegna sögu sem ég heyrði eitt sinn af MR-ingi sem tók Don Kíkótann á þetta í stærðfræðiprófi eftir margar andvökunætur með bókunum sínum. Hann fór allt í einu að ráfa leitandi um kennslustofuna og þegar stærðfræðikennarinn spurði hvað væri í gangi sagðist hann vera að reyna að finna x-ið eins og fyrirmæli kváðu um í prófinu.

Ég vil meina að Þjóðarbókhlaðan sé annars helsta bækistöð íslenskra Don Kíkóta. Þar húka gjarnan gamlir kallar sem eiga það sammerkt að vit þeirra hafa lotið í lægra haldi fyrir bókalestri. Þeir eru flestir alveg gráhærðir, tala við sig sjálfa og tauta sífellt um handrit og gamla biskupa með geðveikisglampa í augum.

Sjálfur er ég vafalaust í áhættuhópi þegar próf berja að dyrum. Er nefnilega oft latur alla önnina en mökkast upp og læri óhóflega þegar prófin nálgast. Sem er auðvitað stórhættulegt. Í fyrra las ég Íslendingasögur til prófs og gekk í gegnum erfitt tímabil í kjölfarið. Ég lét kalla mig Kimba, var ofbeldisfullur og mjög áhugasamur um að brenna fólk inni. Þegar ég fór í próf í fornu máli fyrir jól talaði ég eins og árið væri 1200 og þegar ég var einn heima setti ég stundum plastvíkingahatt á mig. Um daginn var ég svo úti á þekju vegna prófs í fornum bókmenntum. Minnti skyndilega að ég væri hálfguð og var næstum búinn að færa sólarguðinum Sjamas brennifórn.

En lengst var ég þó leiddur þegar ég var við nám í hinum mikla kastala mennta og vísdóms, Flensborg. Hið goðsagnakennda tríó, ég, Danni og Jói, hafði legið yfir námsefninu í marga daga og við allir orðnir súrir og skemmdir. Ég var að lesa stjórnmálasögu 20. aldar og skrifaði nöfn allra helstu vinstrisinnuðu stjórnmálaleiðtoganna á vinstri skóinn minn en nöfn þeirra hægrisinnuðu á hægri skóinn. Eftir að hafa lært tímunum saman inni í íslenskustofu Símonar Jóns Jóhannssonar (sem opin var öllum námshestum) ásamt gommu af krökkum var ég hætt kominn vegna lestrar og á barmi snapps. Grafarþögnin sem lengi hafði ríkt í stofunni var rofin og ég fór að tafsa mjög lágt: “I’ve been cheated by you since I don’t know when...”

Fólk leit upp úr bókunum og sumir settu upp ófrýnileg glott. Hafði ég sagt þetta upphátt? Andrúmsloftið var óþægilegt. Í örvæntingarfullri tilraun til að bæta ástandið hélt ég áfram, en ennþá á mjög lágværum nótum: “So I made up my mind it must come to an end”.

Krakkarnir litu á mig undrunaraugun. Orð eins og spennitreyja hafa hugsanlega komið upp í huga þeirra. En á elleftu stundu kom björgunin. Á hárréttum tíma byrjaði Danni að kinka taktfast kolli og raula lágt með: “Look at me now, will I ever learn? I don’t know how but I suddenly lose control. There’s a fire within my soul”.

Jói spratt á fætur og skyndilega sungum við allir þrír hátt og snjallt undir forystu hans: “Just one look and I can hear a bell ring! One more look and I forget everything! Voú-ó-ó!”

Jói stökk upp á kennaraborðið og við Danni stóðum á fætur og öskruðum viðlagið: “Mama mia! Here I go again. My my, how can I resist you? Mama mia! Does it show again? My my, just how much I've missed you. Yes, I've been brokenhearted. Blue since the day we parted. Why, why did I ever let you go?”.

Við uppskárum klapp frá þeim sem könnuðust við okkur en busarnir voru bara vandræðalegir. Eins og ekkert hefði í skorist settumst við aftur og héldum áfram lestrinum. Pol Pot var að valda usla í Kambódíu og ég þurfti að bæta honum á vinstri skóinn.

Þetta var eina skiptið sem ég hef sungið lag með ABBA upphátt. Mér til varnar var ég í annárlegu ástandi og vissi ekki hvað ég var að gera. Hnepptur í álög af hinum fúla prófdjöfli.