laugardagur, mars 04, 2006

Þjóðarbókhlaðan

Sá frægu tvíburana úr MS, Ármann og Sverri Jakobssyni hanga saman í Hlöðunni í dag. Þeir eru snillingar. Hef lengi fílað þá. Álkulegir settust þær við borðið við hliðina á mér á kaffistofunni og þömbuðu kaffi. Þó þeir séu óneitanlega alltaf frekar kúl á því, lúkka þeir einhverra hluta vegna aðeins betur í sjónvarpinu en í raunheimum. Ég var sem í losti, var starsýnt á þessa mætu menn og snarhætti að hlusta á speki skólafélaga minna, þeirra Refs og Gnaþons. Að lokum gat ég ekki setið á mér lengur. Ég stóð upp, rétti bræðrunum stílabókina mína og bað um eiginhandaráritun. Svona menn hittir maður einfaldlega ekki á hverjum degi. Þetta virtist koma þeim pínulítið í opna skjöldu en eins og fagmennirnir sem þeir eru krotuðu þeir nöfn sín í stílabókina. Ég þakkaði pent fyrir mig og sagði að lokum: “Bara langar að segja ykkur að þið eruð með þeim svalari. Hlusta mikið á músíkina ykkar.”

Enn á ný var eins og ég kæmi þeim á óvart. Ármann svaraði brosandi: “Uuu... við erum ekki tónlistarmenn. Við erum háskólakennarar.” Sverrir tók undir orð bróður síns: “Það er rétt, Ármann. Og eitt sinn vorum við landsþekktir fyrir þátttöku okkar í spurningakeppni”.

Nú var það ég sem var hvumsa. Hugsandi settist ég aftur við borðið mitt og fór í huganum yfir stöðuna. Gat það verið ég sem var úti á þekju? Eða voru nærsýnu tvibbarnir eitthvað að grilla í mér? Ég þurfti að fá botn í málið. Ég gekk aftur að þeim og spurði þá hikandi: “Hverjir sungu aftur lagið þarna... um 500 miles og það?”. Ármann leit spyrjandi á bróður sinn og sagði: “Voru það ekki Proclaimers? Frá Skotlandi, ekki satt?”. Sverrir kinkaði kolli og sagði: “Jújú, Proclaimers hétu þeir. Lagið kom út á þeirra fyrstu plötu, Sunshine on Leith, ef ég man rétt. Þeir eru tvíburar ekki ólíkt okkur, Ármann”. “Jáááá, Proclaimers...”, umlaði ég og settist á ný hjá skólafélögunum.

Á vissan hátt er þetta galdurinn við háskólanám. Á hverjum degi tekst maður á við ögrandi verkefni, færir vitsmunaleg mörk sín sífellt lengra og lærir nýja og nýja hluti.