Uppgjör við Íslandssöguna
Kennarinn okkar í 4. bekk sagði okkur einu sinni að ef krakkarnir í unglingadeildinni reyktu á skólalóðinni mætti alveg henda snjóboltum í þá. Hljómaði vel þegar hann sagði það. Ekki eins vel eftir löngu frímínútur. Unglingarnir búnir að berja Hjalta og við hinir læstum okkur inni á klósetti svo þeir tækju ekki í lurginn á okkur. Kannski pínulítið okkur að kenna. Fórum yfir strikið er við grýttum mjólkuráskriftinni okkar í þá líka. Það kom okkur aldeilis á óvart að þegar við snerum til baka eftir þessa herferð okkar gegn reykingum var umsjónarkennarinn okkar ekki stoltur á svip.
Eftir gott spjall við yfirkennarann fórum við í Íslandssögu. Þar biðum við spenntir eftir að fá að læra um stærsta bardaga Íslandssögunnar, sjálfan Örlygsstaðabardaga. Loksins komið að kafla sem snerist ekki um langskip og aska heldur um blóð og atgeira. Það kom okkur hins vegar á óvart að úrræði helstu garpanna á 13. öld voru þau sömu og okkar strákanna. Að fela sig inni á klósetti. Og bardaginn í hnotskurn bara drullulummulegur.
Svolítið eins og öll saga þjóðarinnar. Afar lítið rokk í gangi. Enginn dó þegar við tókum kristni. Sjálfstæðisbaráttan var ekki blóði drifin, nema ef vera skyldi að einhver hafi skorið sig á pappír. Þorskastríðið var bara brandari. Það dóu ekki einu sinni smáfiskar í því. Við létum Dani, Norðmenn og Alsírbúa vaða yfir okkur. Ef dönskum stríðsfanga datt í hug að gerast konungur yfir Íslandi gerði hann það bara. Það var bara pís of keik. Við gortum í gríð og erg af tungumálinu okkar en eigum í raun merkilegheit þess að þakka pattaralegum Dana sem hét Rasmus. (Og sumir hata Dani. Það geri ég ekki. Þeir eru bara aular. Við létum hins vegar þessa aula leggja land okkar undir sig. Gátum ekki einu sinni látið sómasamlegt lið okra á okkur. Okkur er stjórnað af útslitnum hálfvitum. Algjörar skítaaðstæður til að búa við og allt helvítis ferska loft heimsins mun ekki breyta neinu, Tommi.)
Stundum vildi ég að ég væri Rómverji eða Mesópótami. Gæti montað mig af glæsilegri sögu og merkum forfeðrum. Væri laus við skömmustulegan feluleik inni á klósetti.
<< Heim