fimmtudagur, mars 16, 2006

Lið

Hlustið bara á þetta.

Í stofunni liggur gamalt myndalbúm sem ég gluggaði í í dag. Myndir af mér fimm ára í Manchester United náttfötum. Á næstu síðu er ég á svipuðum aldri í Arsenalgalla. Svo átta ára í Tottenhambúningi. Um leið er ég minnugur þess að að herbergi mitt var veggfóðrað með Glasgow Rangers plakötum þegar ég var 12 ára og á sama tíma hélt ég með Blackburn Rovers í ensku. Þegar Newcastle komst upp tók ég ástfóstri við enn einu liðinu og hef reyndar haldið með þeim síðan. Hvert er samt málið með öll þessi lið? Er ég bara aum liðshóra?

Þetta minnir skuggalega mikið á vatnsberann fræga sem starfaði fyrir Fimleikafélagið lengi vel. Gaurinn sem alltaf var mættur með ískalt og svalandi vatn á annars flokks og meistaraflokksæfingar. Hann var líka boltasækir, hljóp eins og antílópa á eftir leðrinu ef menn skutu framhjá. Var kallaður Hr. Liverpool því hann fór aldrei úr Liverpool búningnum sínum. Og var sem húsgagn í Krikanum, svo harður FH-ingur var hann. Þangað til að hann yfirgaf Fimleikafélagið og gerðist vatnsberi hjá meistaraflokki KR af því þeir unnu svo marga titla um þær mundir. Skömmu seinna hætti hann að halda með Liverpool, gaf Stjána Finnboga allt Liverpool dótið sitt og fór að halda með Manchester. Þeir unnu jú titla. Fullorðinn maðurinn valdi bara ný lið eins og ekkert væri sjálfsagðara. Það mætti jafnvel kalla þennan mann moldarhaus.

Í lífinu er margt hverfult. Hægt er að tilheyra mörgum fjölskyldum á lífsleiðinni. Margir skipta ört um kærustur eða kærasta, bíla, húsnæði, skoðanir, dekk, jafnvel störf. Þetta skil ég allt. Þetta má. En undir engum mögulegum kringumstæðum má skipta fótboltaliðinu sem þú styður út fyrir annað. Sannur stuðningur við liðið þitt er eilíft hjónaband. Það er hægt að skilja við konuna sína eða stjórnmálaflokkinn sinn og sleppa frá því með reisn. En ef þú skiptir skyndilega um fótboltalið til að styðja hefurðu engan trúverðugleika. Ekki einn.

Ég var auðvitað bara grandalaust smábarn þegar ég var klæddur í alla þessa búninga í æsku. Geri því greinarmun á mér og Hr. Liverpool. En ef ég eignast einhvern tímann barn mun ég læra af þessu. Það mun eiga FH-búning, Newcastle-búning og Barcelona-búning. Punktur. Ef krakkinn dirfist nokkurn tíma til að skipta um lið mun ég selja hann sígaunum. Vondum, harðbrjósta sígaunum. Ekki þessum skemmtilegu og fjörugu með mandólínin og fiðlurnar.