HM II
“Deutschland, Deutschland, uber alles ...”
Fyrir tuttugu árum síðan, kom til stimpinga í blokkaríbúð miðaldra hjóna í Dusseldorf í Þýskalandi. Önugur eiginmaður tók upp á því að henda konu sinni út um glugga íbúðarinnar, sem var á annarri hæð. Konan stórslasaðist. Þegar lögreglan yfirheyrði karlinn og krafðist skýringa á hegðun hans stóð ekki á svörum. Helvítis kerlingin heimtaði að fá að horfa á Dallas á sama tíma og undanúrslitaleikur V-Þjóðverja og Frakka fór fram á HM í fótbolta.
Ég man ekki eftir þessum leik. Var bara fimm. Man bara EM ’88 þegar Holland vann.
En ég var á Ítalíu þegar ég var 9 ára. Heillaðist af strákunum frá Kólombíu. Mitt uppáhald var Valderrama. Markvörðurinn, Rene Higuita, lék ósjaldan á grandalausa sentera andstæðinganna eins og þeir væru dúkkur. Eina skiptið sem hann missti boltann var þegar gamli Kamerúninn Milla stal honum og sendi Kólombíu heim. Ég elskaði Kamerún. Einkum búningana þeirra. Mest elskaði ég V-Þjóðverjana. Brehme, Matthaus og Klinsarann. Það var frábær dagur þegar þeir hirtu titilinn. Hefði samt frekar vilja sjá Schillaci og Ítalana í úrslitum en Argentínu.
Og ég var í Bandaríkjunum þegar ég var 13 ára. Grét í alvörunni þegar Kólombía datt út í riðlinum. Grét líka seinna þegar Escobar, fyrirliði liðsins var skotinn heima í Kólombíu vegna sjálfsmarksins. Mitt lið var Nígería eftir þetta. Okocha, Yekini, Oliseth. Þeir náðu ekki eins langt og Kamerún áður. Ég fílaði Stoichkov. Ekki Svíana. Hélt með Brasilíu í úrslitum. Greyið Baggio. Greyið Baresi.
Í Frakklandi var ég þegar ég var 17 ára. Bekkmann eyðilagði mótið fyrir Englendingum. Mót sem raunar var í eigu Zidane. Brassarnir reyndar góðir. Bergkamp frábær. Owen. Hagi. Króatía í þriðja sæti. Tvíhöfði úrskurðaði Ronaldo látinn í úrslitaleiknum.
Ég var í Kóreu og Japan 21 árs. Senegalarnir stálu senunni í leikjunum en stálu af lýðnum á götumörkuðum milli leikja. Sigurstranglegu þjóðirnar ollu vonbrigðum. Nema Brassarnir. Ronaldinho var mættur í fyrsta sinn. Sama hversu hann auðmýkti gúbbana í vörn andstæðinganna og svívirti og hrellti var það samt hann sem leit út eins og auli þegar kameran sýndi hann í nærmynd. Hann var þó í skugganum á Ronaldo. Öfugt farið næsta sumar.
Mig langar til Þýskalands í sumarfrí. Fara í alvörunni. Ekki bara í gegnum sjónvarpið mitt. Ef ég missi af því núna fer ég kannski aldrei. Ef ég missi af því núna fá kannski saklausar konur og menn að fjúka út um glugga.
Er einhver með?
<< Heim