Partíbær
“Vertu ávallt velkominn hér,
vinur Hafnarfjarðar.
Taktu þétt í hendin’ á mér,
vinur Hafnarfjarðar.”
Í gær fór ég á Hansen. Um helgi. Síðast þegar ég gerði það fengum við meðreiðarsveinar mínir morðhótun frá Ungfrú Íslandi. Ungfrú Íslandi 1956. Áttum það engan veginn skilið. Í gær var þó stuð. Hansen er að breytast úr skítugu ormabæli syndarinnar í búllu. Fíla það.
Í gær gat ég keypt Guinness á þrjúhundraðkall án þess að þurfa að fara inn í Reykjavík (í Reykjavík er reyndar ekki hægt að kaupa Guinness á þrjúhundruð kall).
Í gær óð miðaldra kona inn á mig þegar ég var á salerninu. Hún stóð álengdar og glápti á mig. Ég spurði hana hvort hún væri ekki á röngum stað. Hún ranghvolfdi augunum og sagði mér að slaka bara á, hún væri sviðsstjóri Þjóðleikhússins. Ég túlkaði orð hennar á þá vegu að sviðsstjórar sæu mikið af beru fólki og kipptu sér því aldeilis ekki upp við slíka sýn. Ég sagði: “jaaááá”. Eins og ég skildi hvað hún væri að fara.
Í gær héldum við Steinn Ármanni um herðar hvors annars og sungum Piano man af lífsins sálar kröftum. Gunni Helga horfði á og trallaði með.
Gærkvöldið var sönnun þess að hægt er að mynda roknastemmningu í Firðinum á annars venjulegu föstudagskvöldi. Það var ágætt að öllu leyti ef undanskilið er leiðindaatvikið með sviðsstjóra Þjóðleikhússins.
<< Heim