mánudagur, mars 27, 2006

Sameinumst hjálpum þeim

Nú nýlega söng landslið poppara fúla viðbjóðinn Hjálpum þeim inn á söngplötu og seldist óþrifnaðurinn eins og um heitar lummur væri að ræða. Ekki allir vita þó að í millitíðinni (þ.e. milli þess að upprunalega söngurinn var sunginn og áðurnefndur óskapnaður) var þessu lagi pakkað snyrtilega inn á skólaskemmtun.

Söngkeppni NFF 2000 var fyrir margt merkileg. Hún fór fram í gamla leikhúsi Hermóðs og Háðvarar sem búið er að rífa. Atriðin voru vel á annan tug og kenndi ýmissa grasa. Mikið fjör var jafnt á sviði sem áhorfendapöllum þetta kvöld en hvergi þó meira en baksviðs. Þar var hreinlega svallveisla. Fólk kepptist við að ölva í sig kjark áður en það steig á stokk og var upp til hópa sauðdrukkið. Fréttabréfið var þarna skráð til leiks og naut þeirra forréttinda að vera síðasta atriðið. Okkar lag var Hjálpum þeim. Öllum eitísjökkum móður Danna var tjaldað til, menn voru málaðir og hópdansar æfðir í þaula.

Þegar við mættum á svæðið höfðum við, eins og svo margir keppendur aðrir, tryggt að fljótandi mjöður væri með í för til að liðka söngraddir sem og lund okkar. Þessi brella reyndist næstum okkar banabiti. Þegar vel var liðið á seinni hluta keppninnar og nokkuð skemmtilegt hlé var afstaðið reyndist aðalaktið okkar sofandi á gólfinu. Jói var bara útúr því. Við slógum hann í framan og öskruðum á hann en ekkert gekk. Hann virtist aldeilis ekki í stakk búinn að syngja á skólaskemmtun. Við brugðum á það ráð að reyna að kenna Sigga E (sem var bakrödd hjá Jóa Presley í sigurlagi kvöldsins og er nú bakari og fjölskyldumaður í Baunaveldi) línurnar hans Jóa. Siggi var búinn að taka þátt í sínu atriði og tók sér stöðu úti í horni þar sem hann þuldi línurnar hans Jóa aftur og aftur. Óðum styttist í atriði okkar, við Danni vorum að fara á límingunum og svitnuðum eins og feitir Finnar í sánu. Kallað var á okkur, og bakvið svart tjald stóðum við Danni og Siggi E, skítstressaðir. Siggi kunni ekki dansinn eða neitt. Við biðum bara þess að gjaldkeri nemendafélagsins benti okkur á að hlaupa inn á svið. En þá átti sér stað kraftaverk. Jói Skag reis frá dauðum, hrinti Sigga burt og sagði: “Af hverju létuð þig mig ekki vita að við værum næstir?”. Við Danni brostum allan hringinn.

Fréttabréfið var kallað fram og settum við okkur í stellingar. Dansatriðið í upphafi gekk klakklaust fyrir sig og í kjölfarið ómaði englasöngur. Við skiptum með okkur línum en góluðum viðlagið í sameiningu. Sviðsframkoma Jóa var sérstaklega lofsverð, hann stökk m.a. út í sal og dansaði eggjandi dans fyrir framan fremsta bekkinn. Ekki var að sjá að áfengi ætti nokkurn hlut í sjóinu. Undir lok lagsins, þegar viðlagið er sungið aftur og aftur og aftur, stigu allir keppendur kvöldsins fram á svið og sungu með okkur. Við lokuðum frábæru kvöldi með stæl. Fengum hrós fyrir. Engin verðlaun þó.

Og engum hjálpuðum við í raun. Enda kannski við sem vorum hjálpar þurfi.