fimmtudagur, mars 23, 2006

Riddle me this, riddle me that

Varð eitt sinn viðskila við vini mína á laugardagskvöldi í bænum. Aleinn og týndur. Leitaði mikið en fann ekkert nema gamla bekkjarsystur sem ég hafði ekki séð lengi. Fór með henni á Kaffibarinn. Þar sáum við Krumma í Mínus og söngvarann í Vínyl og kom á daginn að þessi bekkjarsystir þekkti Krumma í Mínus. Hún fór því að spjalla við hann heillengi um daginn og veginn og ég settist að lokum hjá þeim. Krummi og bekkjarsystirin áttu ýmislegt vantalað og við Vínylgaurinn sátum bara luntalegir og störðum út í loftið. Lengi lengi. Loks datt mér í hug að reyna að koma af stað samræðum. Braut heilann um góða opnunarlínu og sagði svo: “Jæja... hvað segirðu, kanntu nokkuð einhverjar gátur?”. Þetta hélt ég að væri kúl lína. Söngvarinn í Vínyl brosti í kampinn, tók smók og setti upp töffarasvip (svona eins og honum væri illt í maganum). Ég beið lengi eftir svari og að lokum færði hann sig nær mér, klappaði mér á bakið og hóf að tala hratt og með djúpri röddu: “Þú ert staddur í myrkustu frumskógum Afríku og þarft að leita á náðir ættbálks sem getur gefið þér að borða. Valið stendur milli tveggja ættbálka og vandamálið er þetta: Annar er skipaður illræmdum mannætum sem segja aldrei sannleikann! Farir þú til þessa ættbálks ertu dauðans matur! Dedd es diskó! Hinn ættbálkurinn er góður. Þar segja allir alltaf sannleikann. Þú stendur frammi fyrir tveimur blámönnum úr sitthvorum ættbálknum og hefur einungis eina spurningu til að komast að því hvor tilheyrir góða ættbálknum og þar með; hvorum þú átt að fara með. Hvers spyrðu?”

Ég veit ekki af hverju en mér var stórlega brugðið. Gaurinn hafði farið á gríðarlegt frásagnarflug og ég stóð eftir algjörlega áttavilltur. Ég sagði hikandi orð eins og “jájá”, “ég” og “hérna” og aulaði út úr mér að lokum einu “er að spá í að bara fá mér einn bjór.” Svo fór ég bara. Vínylgaurinn hef ég aldrei séð eftir þetta. Ekki nema í Popppunkti bara. Hann hræðir mig.