fimmtudagur, maí 11, 2006

End of the season

Síðasti leikurinn var á útivelli. Og þó, Frostaskjólið hefur verið okkur FH-ingum hálfgerður heimavöllur í gegnum tíðina. Um leið og ég mætti á svæðið fór ég út á aðalvöll. Gekk teiga á milli og sá leikinn fyrir mér. Gamlar, sögufrægar orrustur komu upp í hugann. Grasið kemur vel undan vetri.

KR-völlurinn er ekki flottasti völlur á landinu, langt í frá. En dínamískur andi og magnþrungin stemmning er yfir svæðinu. KR-áran er alltumlykjandi. Það er meiri sál í KR en mörgum öðrum klúbbum. KR-ingar eru stoltir af félaginu sínu. Þess vegna eru leikir í Frostaskjólinu oft mikil upplifun. Það er krefjandi verkefni að næla sér í stigin þrjú. Mín augu voru á þessum stigum. Ég var klár í slaginn.

Þegar átökin hófust fór ég úr peysunni og spilaði í FH-treyjunni með númerið tólf á bakinu. Ég var ekkert stressaður. Bara einbeittur. Frá fyrstu mínútu ætlaði ég að rústa þessu. Ég vissi hvað til þurfti og nýtti tímann vel. Stigin voru aldrei í hættu. Tók þetta 4-0. FH vinnur alltaf á KR-vellinum. Alltaf.

...

Prófið var samansett af fjórum ritgerðarspurningum og ég leysti þær tiltölulega skammlaust af hendi. Ég nýtti þessa þrjá tíma vel og hefði í raun getað setið lengur og skrifað meira. Það var svo gott að vera búinn í prófum að ég léttist um fjögur kíló er ég gekk út úr KR-heimilinu. Furðulegt að þreyta próf þar. Fór beint í bjór með kollegum um kvöldið.

Ég er loks búinn að taka lóuna í sátt en þó var það annar fugl sem birtist mér í morgun sem táknmynd sumarsins. Sá heitir Eiríkur Svanur Sigfússon og kenndi mér leikfimi fyrir tíu árum. Hann óð með látum inn í herbergið mitt eldsnemma vopnaður myndavél og reif mig á fætur. Hann ætlar víst að reyna að selja húsið sem ég bý í. Eftir að Eiki var búinn að vekja mig áttaði ég mig á því að í dag þurfti ég ekki að lesa námsbækur. Það var ágætt. Eiki er fínn líka.

Síðasta prófið í KR-heimilinu markaði endalok þessa keppnistímabils. En í hverjum endalokum felst upphaf. Nýtt keppnistímabil hefst á sunnudag með leik KR og FH í Frostaskjóli klukkan 20. Það verður veisla. Við ætlum að sækja þrjú stig.