sunnudagur, apríl 09, 2006

Daginn eftir

“but it's the morning after all that went before
and now you've paid the dept - get up you wreck and crawl out through the door
and then you do it all again.

Things have got to change.”

Alltaf kemur hann, dagurinn á eftir. Þegar maður er á ljúfasta ölvunarstiginu leiðir maður aldrei hugann til næsta dags. Hvort eins og einn timburmaður láti á sér kræla. En alltaf kemur hann. Siðferðið kikkar inn aftur og mórallinn dúkkar upp. Maður blótar þessu tilgangslausa ráfi í gegnum lífið í endalausri þynnku og heimsku. Furðar sig á því að þrátt fyrir glórulaust stefnuleysi allra þurfum við samt að gefa stefnuljós í umferðinni.

Drykkjusiðir Íslendinga eru auðvitað rugl. Það þykir bara heilbrigt að vera fullur heila helgi í Vestmannaeyjum einu sinni á ári en menn eru litnir hornauga ef þeir sjást með bjórdós um miðjan, ósköp hversdagslegan laugardag. Það gerir maður ekki nema maður sé rússneskur sjóari. Og þegar Íslendingar vakna um miðjar nætur til að fara út á KEF í ferðalag er það fyrsta sem þeir gera að kaupa sér bjór á barnum. Það versta við þessa menningu er að þurfa alltaf að skemmta sér á nóttunni ef maður ætlar að vera samferða öðrum í gleðinni.

Kinks eru frábært meðal við timburmönnum. Eða þunglyndi. Einu sinni reyndu læknar að tala við þunglyndissjúklinga. Nú gefa þeir þeim hamingjupillur. Í framtíðinni fá sjúklingar vonandi bara plötur með Beach Boys og Kinks og láta músíkina um að þurrka af þeim fýlusvipinn. Núna er það einn kaldur og nýi diskur Raymond Douglas Davies, sem umbreyttu doða í góða stemmningu í mínum herbúðum. Hlakka til að sjá hann á föstudaginn langa.

Dagurinn eftir kemur ekki fyrr en á morgun. Hann er ekki núna. Ætla út.