Subbuskapur
Fyrir nokkrum árum var ég að borða samloku í skólanum. Man ekki hvernig samloku en líklegt er að þetta hafi verið samloka með rækjusalati eða túnfisksalati þar sem ég hef alltaf haft miklar mætur á slíkum lokum. En þegar ég var að smjatta á þessari samloku áttaði ég á mig á að í henni var hár. Þessu bölvaði ég og ragnaði og upphófust heitar umræður hjá því fólki sem var viðstatt. Einn félagi minn hóf þá að segja okkur frá kærustunni sinni sem vann á Subway og hafði fundið hálfa margfætlu um leið og hún var að skera kál. Þá fóru hinir að segja ljótar sögur af drasli sem hafði fundist í mat og oftast enduðu þær á því að einhver Ameríkani kærði fyrirtæki og græddi á tá og fingri.
Næsta dag fórum við Danni á Subway og ætluðum að gæða okkur á eins og einni subbu. Man reyndar ekki hvernig subbu ég fékk mér en líklegt er að bræðingur hafi orðið fyrir valinu þar sem ég fæ mér hann oftast. Við stukkum út í bíl og borðuðum þar af bestu lyst. Allt þar til Danni öskraði upp yfir sig og hrækti út úr sér vænum bita. Hann lét sem sturlaður væri og talaði um að það væri margfætla í subbunni. Kom í ljós að þarna var hálf margfætla, líklega hinn helmingur þeirrar er kærasta félaga okkar hafði hent áður.
Boðskapur þessarar sögu er m.a. sá að passa að láta ekki skordýr og jukk fylgja með þegar matur er útbúinn. En einnig sá að heimurinn er ansi lítill. Og að eins manns margfætla getur verið annars manns matur. Jafnvel sá að betra er að fara næst á Quiznos. Í raun má segja að sagan sé heimspekileg ádeila á samtímann og hefur fjölmarga anga; rétt eins og sjálf margfætlan.
Þetta er reyndar frekar slöpp saga en mér datt ekkert betra í hug. Þið reynið bara að hunsa þessa færslu.
<< Heim