Sick as a dog
“Hey Joe, where are you gonna run to now?
Hey Joe, where are you gonna run to now?
Where are you gonna go?”
Gærdeginum eyddi ég með höfuð ofan í Gustafsbergklósetti. Ansi hræddur um að ég hafi gubbað eins og einu milta í öllum æsingnum. Finn allavega ekki mitt. Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem ég verð veikur. Eitt það versta við veikindi er að geta lítið gert annað en að horfa á sjónvarp undir sæng, alveg sama hvaða drasl er í því. Í gær byrjaði ég á að horfa á átakanlegan þátt á RÚV um örbirgð í Afríkuríkinu Gíneu-Bissau. Einn fimmti hluti barna sem þar fæðist deyr áður en þau ná fimm ára aldri.
Klikk. Ákvað að skipta yfir á Skjáeinn. Innlit-útlit. Sá að tveir menn á þrítugsaldri eiga gígantíska íbúð í bryggjuhverfinu og ansi magnaðan nuddpott.
Klikk. Í Gínea-Bissau er ólæsi um 60%. Í þessu litla landi deyja þúsundir á hverjum degi úr sjúkdómum sem auðvelt væri að lækna á Íslandi. Við mér blöstu myndbrot sem fengu á mig.
Klikk. Strákarnir í bryggjuhverfinu eiga spíttbát. Það tekur þá örfáar mínútur að komast til Reykjavíkurhafnar en aðallega nota þeir hann bara til að leika sér.
Klikk. Gíneuþátturinn var búinn en Gilmore Girls teknar við. Mæðgurnar í þættinum töluðu svo geðveikt hratt að ég varð mjög ringlaður og ældi í fötu sem ég hafði mér við hlið.
Mér leið illa. Leið illa yfir veikindum mínum og enn verr yfir ástandinu í Gíneu-Bissau. Ég var ekki að fara að horfa á restina af Gilmore Girls þættinum og ákvað að tékka á tölvunni. Gladdist aðeins þegar ég sá að fjöldi heimsókna á þessa síðu rauk upp úr öllu valdi. Gleðin var skammvinn. Senn varð ljóst að Jói kumpáni hafði búið til bloggsíðu í mínu nafni um poppmelluna Whigfield. Whigfieldsíðan var með tengil inn á mína síðu og hver færsla var undirrituð með fullu nafni mínu. Jói hafði einnig látið vinsæla tenglasíðu vita af þessu og því voru rúmlega 200 heimsóknir á þessu síðu þegar ég sá hana. Nafn mitt hafði verið lagt við... við... Whigfield. Þessi ljóti leikur Jóa var líklega tengdur frásögn minni af því þegar hann keypti sér disk með Whigfield. En einnig vildi hann meina að hann væri að hefna fyrir atvikið þegar við Svenni bróðir settum mynd eftir hann í Stundina okkar.
Ég staulaðist fram á klósett með tárin í augunum og ælufötuna í hendinni. Faðmaði eina vin minn, herra Gustafsberg, og hleypti öllu út.
Á erfiðum stundum í lífinu ber þó að hugsa til fólksins sem á virkilega erfitt. Fólks sem á við raunveruleg vandamál að stríða. Til að mynda fólksins í Gíneu-Bissau. Og auðvitað Jóa.
<< Heim