Something better beginning
Hálftími í leik. Minn kæri skrjóður, Rósinant, var við það að gefa upp öndina sem og kortið mitt sem á einhvern óútskýranlegan hátt var ekki lengur í strauvænu ásigkomulagi. Síminn einnig í rugli eins og fyrri daginn. Mig vantaði bensín og fé til að komast inn á leikinn á KR-velli. Ég reytti hár mitt í svartasta þunglyndi á ÓB-bensínstöð við Fjarðarkaup og sparkaði ítrekað í Rósinant. Dagsverkið var einfalt þegar ég vaknaði í morgun; að fara á KR-FH. Í einskærri heimsku var ég að klúðra því. Ég sá fram á að missa af leiknum.
En glæpur minn og heimska fólst ekki í að vera með ónothæft kort, inneignarlausan síma og bensínlausan skrjóð. Nei, ég hafði um stund vanmetið fjölskyldu mína. Ég hætti að sparka í Rósinant þegar ég sá að annar bíll kom á bensínstöðina. Þar var á ferð kappi sem ég þekkti lítillega en heilsa alveg þegar ég rekst á hann á bensínstöðvum og svona. Hann spurði hvort ég ætlaði ekki að kíkja á leikinn og ég svaraði: “Jú, ég er að fara með þér”. Lagði svo bílnum mínum í snöggheitum og stökk inn í hans vagn. Örfáum mínútum og góðu spjalli síðar vorum við staddir í Frostaskjóli og ég fékk gamlan samherja úr 3. flokki til að lána mér fyrir miða á leikinn. Hljóp upp í palla og byrjaði að tala lágt en upphátt við leikmennina á vellinum.
Að fara á FH-leik er eins og að fara á risastórt ættarmót. Óteljandi hæ, handabönd og faðmlög eru ómissandi fylgifiskar. FH-krakkar, foreldrar, félagar, þjálfarar, stuðningsmenn og fyrrverandi samherjar út um allt.
Bakvörðurinn Gummi Sævars er einfaldlega einn af hættulegustu sóknarmönnum deildarinnar. Hann vissi nákvæmlega hvar Tryggvi var í bæði skiptin. Dyring djöfull var frábær. Davíð Þór Viðarsson er besti maður deildarinnar þegar hann hefur sókndjarfan miðjumann fyrir framan sig. Atli Viðar kláraði þetta eins og leigumorðingi. Ásgeir eins og bardagamaður á miðjunni. Tommy. Freyr. Helvítis Smárinn.
FH vinnur alltaf á KR-vellinum. Alltaf.
<< Heim