föstudagur, september 22, 2006

Limlest stolt í morgunmat

Skólastarf er hafið. Ég er smám saman að detta í gang, samt varla byrjaður að læra af viti. Einu afrek mín hingað til er heimsmeistaratign í háskólaknattspyrnu sem ég vann til ásamt félögum mínum úr íslenskuskor. Af stakri hógværð básúnaði ég þennan áfanga lítið heima fyrir en gladdist þó þegar ég sá í morgun magnaða mynd af sigurliðinu í Stúdentablaðinu sem fylgdi Fréttablaðinu. Hreykinn leit ég upp frá kornfleggsinu og fann fyrir þörf að sýna sambýlisfólki mínu myndina, þennan fagra vitnisburð afreks míns. Klúturinn var að baða sig og Jói úti en frauka hans, stundum nefnd Bryndís, sat í stofunni og leysti krossgátu um leið og hún tuldraði orðið ‘líkþrá’ aftur og aftur. Ég gekk að henni eins og lítill og feiminn drengur sem vildi gera móður sína stolta og benti hógvær á myndina í blaðinu. Fraukan ljómaði öll upp og spilaði með, lét eins og ég væri fimm ára að sýna henni fallega teiknaða mynd. Sagði svo: “Vá... en gaman... Þeir eru ótrúlega skondnir þessir nördar”.

Ekki veit ég af hverju ég ætti að ganga milli fólks og sýna því myndir af helvítis nördunum en ljóst er að mín stolta stund gufaði upp á augabragði. Ég baslaði við að sýna henni myndina aftur og benti ítrekað á hvar ég væri á henni. Hún áttaði sig að lokum en um seinan þó.

Í kjölfarið á þessu atviki hef ég ákveðið að flytja aftur heim til móður minnar. Hún kann allavega að umgangast heimsmeistara.