Játningar drullusokks
Í fyrst lagi: Mér hefur alltaf verið annt um kúl mitt. Það er eitt það dýrmætasta sem ég á. Því hef ég alltaf forðast að sýna minnstu tilfinningar. Set líka mjög oft upp kúl James Dean-svip (m.ö.o. læt eins og ég sé með harðlífi) og reyni yfir höfuð að vera ekki asnalegur - með misjöfnum árangri þó.
Eitt af því í lífinu sem ekki er kúl er öskudagurinn. Ég var eiginlega aldrei neitt á öskudaginn þegar ég var krakki. Einu sinni var ég reyndar Ruud Gullit, með hárkollu og í AC Milan búning. En Gullit var erfitt að toppa og frá 10 ára aldri fór ég alltaf í fýlu á öskudaginn og vildi ekkert vera. Mér var alveg sama um sælgætishrúgurnar sem krakkarnir komu með heim. Allt nammi heimsins kom ekki í stað kúlsins. Ég var ekki hóra. Allavega ekki þegar ég var barn.
En helvítis vitleysan eltir mann á röndum enn þann dag í dag. Og stundum lendir maður í því að fólk býður í grímubúningapartí. Sömu kenndir og í barnæsku gera vart við sig og yfirleitt mæti ég ekki. En um helgina síðustu yfirsteig ég óttann og klæddi mig í búning eins og fífl. Við brósi brugðum okkur í gervi Maríóbræðra, vopnaðir drullusokkum og pítsum. Ég var Luigi.
Þetta var ekki eins hræðilegt og ég hélt. Hinir gestirnir litu margir verr út en ég. Í raun sé ég ekki eftir neinu. Ja, nema kannski einu.
Þegar allir voru orðnir frekar ruglaðir af ölvun tók bróðir minn, Maríó, upp á því að drekka áfengt öl úr drullusokknum sínum. Þetta var glænýr drullusokkur svo það var held ég alveg í lagi. En í einni af fjölmörgum klósettferðum mínum þetta kvöld tók ég eftir því að við hlið klósettsins var drullusokkur. Eiginlega mjög svipaður þeim sem við vorum með nema bara margnotaður. Og þegar ég stakk upp á því að það væri kannski fyndið að láta einhvern drekka úr heimilisdrullusokknum var ég tekinn á orðinu. Augnabliki síðar var fólk farið að skála með heimilisdrullusokknum hægri vinstri. Haldandi að um hreinan drullusokk væri að ræða.
Ég þurfti að fara snemma heim því ég var að þjálfa daginn eftir. Ég leit í kring á alla fábjánana í búningunum drekkandi úr drullusokkum og spilandi einhvern rafstraumsleik (sem gekk út á það eitt að fólk fékk raflost og kveinaði) og komst að þeirri niðurstöðu að undir þessum einkennilegu kringumstæðum hefði mér tekist að halda kúli þrátt fyrir allt.
Og eftir á að hyggja var þetta bara massapartí. Verð næst dreki.
<< Heim