miðvikudagur, desember 06, 2006

Tækni?

“Åh, Ring, Ring
Bara du slog en signal!
Ring, Ring
Tystnaden är så total!
Ring, Ring
Skingra den oro som mal”

Ég var með síðustu móhíkönum minnar kynslóðar sem fengu sér gemsa. Taldi þetta bólu eins og tölvukubbsgæludýrin og poxið. Þessir smávöxnu símar eru hins vegar staðreynd í dag. Og vissulega notaðir á ýmsan hátt. Í gegnum svokallaðan síma horfir fólk nú á sjónvarp, fer á internetið, tekur ljósmyndir og jafnvel kvikmyndir, fer í flókna tölvuleiki, sendir tölvupósta og smáskilaboð, hlustar á tónlist og útvarp. Góðra gjalda vert svo sem. En enn þann dag í dag hef ég aldrei séð síma með áföstum upptakara, til að mynda fyrir bjórflöskur. Og það sem meira er; enn hef ég ekki séð síma dansa eins og dansandi kókdósirnar með sólgleraugun gerðu um árið. Fær mann til að hugsa: Erum við virkilega ekki komin lengra en þetta?

...

Árið 1906 riðu 200 sunnlenskir bændur til Reykjavíkur og sóttu að Hannesi Hafstein til að mótmæla hinu nýja og skrýtna apparati, símanum. Að hundrað árum liðnum væri ef til vill við hæfi ef einhver hugrakkur færi að ýta á eftir þessum upptakara.