fimmtudagur, desember 14, 2006

Hættur!

Um langt tímabil hef ég reynt að blogga blogg á þetta blogg með frekar slælegum árangri. Bloggstreymi á síðuna hefur verið mismikið og hún oftsinnis legið í öndunarvél. Á þessum tíma hef ég átt góða daga og slæma. Verið duglegur og óduglegur. Farið í gegnum sjálfsskoðun og rannsakað hversu mikinn bloggaga ég hef í mér. Þegar ég lít yfir minn ómerkilega bloggferil hef ég hins vegar komist að því, mér til mikillar armæðu, að ég hef aldrei bloggað um hættur.

Nú þegar hálkan ríður vart við einteyming (eða segir maður einhyrning?) er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir þeim hættum sem henni fylgja. Sjálfur kynntist ég þessari hættulegu hættu í gær þegar ég féll kylliflatur er ég reyndi að ná strætó. Samferðafólki mínu fannst þetta skoplegt og tvær litlar stelpur og þroskaheftur maður hlógu að mér og híuðu. Sem betur fer meiddist ég ekki við fallið en var frekar niðurdreginn í strætóbílnum. Langaði mikið að fella þroskahefta manninn er hann gekk framhjá mér og út úr vagninum nokkru seinna. Gaf stelpunum líka væna löngutöng sem þær sáu ekki þar sem ég var í þykkum lúffum.

Ég tel það mína samfélagslegu skyldu að vara allt gott fólk við bæði hálkublettum og þessu ónærgætna þríeyki sem hlær að óförum annarra í S1-vagninum. Áfram Ísland!