miðvikudagur, október 25, 2006

What am I?

Þegar allt fer út um þúfur og maður er gripinn glóðvolgur við einhverja tóma vitleysu er gott ráð að benda á næsta mann og telja fólki trú um að hann sé í raun sökudólgurinn. En ef allar bjargir virðast bannaðar og enginn sakleysingi er í sjónmáli til að kenna um er geysivinsæl brella um þessar mundir að kenna aukasjálfi sínu um allt saman og firra sig þannig allri ábyrgð. Andri Freyr Viðarsson, útvarpsmaður, kom einu sinni í Kastljós og benti andófsmönnum sínum á að hann tæki sko hreint ekki ábyrgð á grallaranum Freysa sem gerði afskiptasamar húsmæður landsins gráhærðar. Freysi væri bara aukasjálfið og fólk gæti bara talað við hann. Feimin áhugaleikkona steig seinna fram og flippaði í nafni einhvers allt annars, Silvíu Nætur. Sama gerði Gillzeneggerþumbinn. En öll met slær tónlistarmaðurinn sem mætti áðan í Kastljósið og kenndi einhverjum Dr. Mister (hver getur efast um gjörðir manns með doktorsgráðu?) um allt sem miður hafði farið hjá honum. “Þetta byrjaði allt sem brandari á fylleríi... og svo gáfum við bara út plötu”, sagði fuglinn. Spurning hvort stjórnmálamenn geti notað sömu rök þegar þeir eru með allt niðrum sig: “Þetta var bara eiturflippaði karakterinn minn, Dr. Maniac, sem samþykki þetta frumvarp”. Ætli svona málflutningur nýtist sakamönnum fyrir rétti?

Þegar maður glápir á svona gáfnaljón eins og Dr.Mister er ekki laust við að maður sakni frétta af fuglaflensunni. Eða jafnvel Fazmo. Hvernig ætli þeir hafi það?

Í algjörum útúrdúr gerðumst við félagarnir einu sinni sekir um að búa til okkar eigin fígúru. Þegar fór að líða á valdatíma aðalstjórnar í nemendafélagi mínu í framhaldsskóla var okkur farið að leiðast þófið allverulega. Við boðuðum öll ráð og nefndir á fund (sirka 20 manna hópur) en ræddum ekkert um þau verkefni nemendafélagsins sem biðu. Þess í stað kynntum við til leiks nýjasta bandamann nemendafélagsins (sem reyndar komst ekki á fundinn), Konráð Tuma Tulinius. Um var að ræða athafnamann sem ætlaði að aðstoða félagið í starfseminni. Konráð hafði víðtæka reynslu af tónleikahaldi í Finnlandi og Svíþjóð og var öllum hnútum kunnugur í þessum bransa. Við töluðum svo fallega um þennan ímyndaða mann, sem einungis fæddist vegna þess að okkur leiddist, að fljótlega vissu allir í skólanum hver Konráð Tumi var. Eftir þetta var sama hvað við gerðum í nafni nemendafélagsins, alltaf sögðum við að Tumi hefði reddað hlutunum. Hann varð fljótt að goði í skólanum, skipulagði skíðaferð, reddaði einu sinni hljóðkerfi og sá nánast um árshátíðina alveg sjálfur.

Burtséð frá útúrdúrum er vandamálið að Silvía Nótt, Gillzenegger, Freysi, Dr. Mister og jafnvel Konráð Tumi eru öll kennitölulaus. Þetta eru ímyndaðir vinir okkar. Og þegar þetta lið þarf að axla ábyrgð vegna gjörða sinna finnst það hvergi í símaskrám. Sem er tómt vesen. Þetta stórskotalið má þó eiga eitt; það fékk mig til að krota inn á þennan síðuandskota eftir langa og ljóta þurrð í gamla grautarhausnum.