föstudagur, janúar 27, 2006

People take pictures of each other

‘Pictures of Lily made my life so wonderful
Pictures of Lily helped me sleep at night
Pictures of Lily solved my childhood problem
Pictures of Lily helped me feel alright’

Fyrir rúmri viku tók ég upp á því að hanga svolítið í gamla menntaskólanum mínum (var að aðstoða ræðumenn skólans). Lærði að það þykir kúl nú til dags að vera ‘víraður’ og miður kúl að vera ‘algjör safi’. Er annars bara eins og ég var. En við þessa dvöl í gráa kastalanum varð mér litið til baka á þá daga er ég var í Flensborg. Fyrir vikið sagði ég sögu af Skrymbli einum. Bið ykkur nú að tjekka á þessu...

Við vorum heima hjá Danna. Fréttabréfið eins og það lagði sig; ég, Eyvi, Danni og Jói. Eyvi hafði skömmu áður tapað í veðmáli og þurft að hringja í dömu eina sem sat stundum fyrir í blöðum eins og Hustler og Bleiku og bláu. Sú hafði einu sinni verið í Flensborg líka. Við vildum að hún yrði ungfrú desember í jólablaði Fréttabréfs NFF. Hún sló til. "Okkur datt í hug að þú gætir verið í bikiníi... samt allt í lagi ef þú vilt það ekki..." hafði Eyvi sagt við hana. Þegar drottningin mætti heim til Danna fór hún hins vegar rakleitt inn á salerni, fór úr að ofan, klæddi sig í bláa silkihanska og kaus að halda fyrir brjóst sín á myndunum. Setti einnig á sig jólasveinahúfu og var til skiptis með handjárn og vindil í kjaftinum.

Á sama tíma og hún gerði sig klára á salerninu veltum við fyrir okkur hver ætti að taka myndirnar. Völdum fljótt Jóa. Við hinir vorum eiginlega bara eins og kjánar á meðan allt fór fram. Jói hins vegar blómstraði. Stjórnaði myndatökunni eins og herforingi og var sítalandi við fyrirsætuna: ‘Flott! Og brosa! Og vera reið! Glæsilegt! Vinndu aðeins með mér! Glæsilegt!’. Eftir að ljósmyndarinn hafði tekið fullt af myndum af henni liggjandi í sófanum heima hjá Danna ýmist með vindil eða handjárn í munnrifunni færði hann sig upp á skaftið. Lét henni í té jólakrans sem hún reyndi vandræðaleg að flétta inn í myndaseríuna. Jóa var svo skyndilega litið á styttu af gömlum manni í stofunni og heimtaði að hún smellti styttunni fyrir brjóst sín og setti upp getnaðarlegan svip. Fáránlegt útspil en daman leysti það eins og pró. Á meðan á þessum skrípaleik stóð var fjölskylda Danna á neðri hæðinni að horfa á sjómbann. Bara venjulegt þriðjudagskvöld hjá þeim.

Daman fór á salernið að myndatöku lokinni og við tókum viðtal við hana er hún hafði klætt sig í aftur. Birtum allt saman í Fréttabréfinu. Jólablaðið var í lit þetta árið. Sjálfir prýddum við reyndar forsíðuna, uppáklæddir með jólapakka uppi á Hamri. Jói var vafinn í plastfilmu og nakinn undir. Heimskulegir tímar.

Þetta ruglingslega kvöld heima hjá Danna var lengi rætt síðar meir. Við bara gláptum á þessu léttlyndu stelpu sem flétti sig klæðum eins og ekkert væri eðlilegra. Vitandi að á hæðinni fyrir neðan voru Halli Skef, Elísa og Hrönnsa litla í gúddí gír að glápa líka en sennilega bara á eitthvað gott fjölskyldudrama. Þau komust aldrei að því hvað fór fram í stofunni þetta kvöld.

Þegar ég kem í heimsókn í Lækjarhvamminn enn þann dag í dag er ekki laust við að ég brosi algjörlega ósjálfrátt þegar mér verður litið á styttuna af gamla kallinum í stofunni. Og það sem meira er, þá er ég alls ekki frá því að gamli kallinn brosi alsæll á móti.

Skrymbill fer í hraðbanka

Akureyrarferðirnar í Flensborg voru suddi. Fór tvisvar og kann margar sögur. Fæstar er hægt að hafa eftir. Stundum kom fyrir að prýðilegasta fólk náði ekki að skrá sig í ferðina í tæka tíð og henti þetta góðan vin okkar í eitt skiptið (þori ekki að láta nafns hans getið, köllum hann bara Skrymbil). Vonbrigðin voru vitaskuld mikil. Þetta var svona náungi sem allir dýrkuðu, ofurkammó og fantafjörugur fálki. Það þótti vont ef hann vantaði í partí. Einhvern veginn ætlaði Skrymbill þó að komast norður og taka djammið með því góða fólki sem hafði skráð sig í ferðina. Fáir bjuggust samt við að sjá kappann.

En þegar fólk var komið eilítið í glas uppi á hóteli á laugardagskvöldinu gerðist hið fráleita. Við stóðum nokkur saman á svölum Hótels Norðurlands og sötruðum drykki (sumir fóru með heillaráð Jóns Barða alla leið þetta kvöld og drukku vatnsglas og bjór til skiptis). Fólk var við það að komast í gírinn, eftirvæntingin mikil enda á hreinu að kvöldið yrði viðburðaríkt. Það var vitað. Allt í einu sáum við lágvaxinn gosa rölta inn í hraðbanka sem var við hlið hótelsins. Eiginlega alveg fyrir neðan okkur. Við sáum afar vel inn í hraðbankann og senn var ljóst að þarna var á ferð samkvæmisljónið og góðvinur okkar, sjálfur Skrymbill. Bara mættur á Akureyri án þess að tala við kóng eða prest! Hvílíkur snillingur! Fagnaðarlætin voru gríðarleg, menn byrjuðu að kalla í geðshræringu: ‘Krakkar, Skrymbill er mættur! Komið þið!’. Og fleiri og fleiri komu út á svalirnar og öskruðu nafn hans út í nóttina: ‘Skrymbill!-Skrymbill!-Skrymbill!’. Múgæsingin var algjör. Þetta var eins og á ótrúlega spennandi handboltaleik.

Hraðbankar eru hins vegar þannig úr garði gerðir að þegar maður er staddur inn í þeim heyrir maður ekki mikið hvað er á seyði fyrir utan. Þeir eru margir bara alveg hljóðeinangraðir. Og Skrymbill heyrði því ekki fagnaðarlætin og stemmninguna á svölunum sem stigmagnaðist með hverri sekúndu þar sem styttist í að Skrymbill kæmi út og heyrði lætin í okkur. Og það var þá sem allt fór úrskeiðis. Þegar Skrymbill var búinn að taka út peninginn sinn fór hann ekki rakleiðis út. Þess í stað girti hann rækilega niður um sig svo hans heilögu djásn blöstu við stuðningsmönnunum á svölunum. Og þegar hann meig í ruslafötuna í horni hraðbankans hætti fólk að hvetja hann áfram og hóf að kyrja með vonleysistón: ‘Nei, Skrymbill... ekki míga í ruslið! Ekki!’. En Skrymbill heyrði ekki orð. Og fyrir framan fulla stúku af aðdáendum meig hann í hraðbankanum með fávitaglott á vörum, algjörlega ómeðvitaður um að hópur fólks fylgdist vandlega með honum. Stuðningsliðið flúði aftur inn og þegar við hittum Skrymbil seinna um kvöldið reyndist enginn nógu hugrakkur til að minnast á þennan hvimleiða gjörning hans.

þriðjudagur, janúar 24, 2006

Your mother should know

Vald mæðra er gríðarlegt. Þær stjórna öllu, skipa öllum fyrir og fá alltaf sínu framgengt. Þegar rök þrutu í minni æsku var alltaf hægt að smella einu ‘ef-þú-gerir-það-þá-læt-ég-mömmu-vita’ og mál féllu yfirleitt dauð og ómerk undir eins.

Ég naut þeirrar óttablöndnu ánægju að þekkja pínulítið til eins harðasta spaðans í Hafnarfirði á tíunda áratuginum (hálfgerður Francis Begbie okkar Hafnfirðinga). Þetta var gaur sem vílaði ekki fyrir sér að lúberja saklausa borgara ef honum mislíkaði eitthvað. En þrátt fyrir almenn óalmennilegheit hans í garð náungans var hann víst alltaf ljúfur sem lamb þegar mútta var innan seilingar. Og þegar hann sagði sig úr háskólanum hafði hann ekki kjark til að tjá móður sinni fregnirnar, vaknaði þess í stað alla morgna klukkan sjö, stökk upp í strætóbíl og tók einn hring meðan mamma hans kom sér í vinnuna. Svo fór hann bara aftur heim að sofa.

Máttur mæðra sannaðist ennfrekar þegar ég var að hlýða á útvarpið hér áðan. Ég hef oft lagt við hlustir þegar Þróttaradeila Atla Eðvaldssonar og Palla Einars ber á góma og útvarpsfuglinn Valtýr Björn var einmitt að ræða deiluna við reiða Þróttarakonu (held reyndar að þetta hafi verið brot úr gömlum þætti). Viðskipti þeirra voru á þessa leið:
Þróttarakonan: Og ég legg til að Þróttarar mótmæli þessari framkomu allir sem einn og styðji við bakið á Páli Einarssyni.
Valtýr Björn: Þekkirðu marga Þróttara sem eru sama sinnis?
Þróttarakonan: Ójá, það eru gríðarlega margir Þróttarar sem eru ósáttir.
Valtýr Björn: Hefurðu verið Þróttari lengi?
Þróttarakonan: Já, alla tíð. Hef vart misst úr leik síðustu árin.
Valtýr Björn: Áttu kannski börn í félaginu?
Þróttarakonan: Já, ég á barn í félaginu.
Valtýr Björn: Nú. Í hvaða flokki er það?
Þróttarakonan: Ja... það vill reyndar svo til að Páll Einarsson er sonur minn.

Ekki veit ég þó til þess að móðir Atla Eðvaldssonar hafi hringt inn og svarað fyrir sig. En það er gott að heyra rödd mæðra í samfélaginu. Mæður þingmanna mættu til að mynda láta betur í sér heyra. Gætu myndað sérstaka nefnd sem sæti á rökstólum og siðaði þingmenn til þegar það ætti við. Ég væri jafnvel hlynntur því að koma á sérstökum degi sem gæti heitið: ‘taktu-mömmu-þína-með-þér-í-vinnuna’-dagurinn.

Í beinu framhaldi gætu mæður Hannesar Hólmsteins og Jóns Ólafs útkljáð deilumál sona sinna í Kastljósinu eða mæður Árna Johnsen og Hreims tekið netta leðjuglímu til að gera upp gamlar sakir.

Kannski komið gott af þessu þrugli. Mamma er líka að kalla. Þarf að fara að nudda siggið á iljum hennar aftur.

What a drag it is getting old

“Mannshöfuð er nokkuð þungt
en samt skulum við standa uppréttir”


Um daginn var mér tjáð af talnaglöggum manni að í ár yrði ég 25 ára gamall. Sem er bara rugl. Dómaraskandall. Fékk mig til að hugsa um hvað felst í að eldast.

Þegar ég var í þriðja bekk snerist lífið um að eiga Thomas Berthold fótboltamynd eða Dikembe Mutombo körfuboltamynd. Það var allt frekar einfalt (nema ef mann vantaði áðurnefndar myndir). Allir voru vitlausir og tiltölulega áhyggjulausir. Ekki hægt að klúðra hlutunum á þessum aldri. Ef maður teiknaði mynd var alltaf sagt: “Þú litar fínt, Kristmundur”.

Þegar ég var í tíunda bekk var aðeins farið að örla á vitrænni hugsun. Mikilvægast samt að halda kúli þó það væri kannski ekkert stórslys ef það klikkaði endrum og eins. Allir ætluðu að verða þyrluflugmenn eða atvinnumenn í poxi eða ljónatemjarar en engir vildu verða endurskoðendur eða bankamenn eða afgreiðslumenn. Það var gaman í tíunda bekk. Einu sinni fengum við leika okkur í skólasundi.

Í dag er hins vegar sama hvert litið er; það eru allir búnir að missa það. Allir helvítis ræflar. Við erum í stærri líkömum en þegar við vorum í þriðja bekk en hjartað er kaldara, lífsgleðin minni og frítíminn af skornum skammti. Við vinnum í bönkum og sinnum afgreiðslustörfum. Við lifum af gömlum vana. Þegar menn svo mikið sem teikna mynd er litið á hana með grimmum gagnrýnisaugum. Aldrei heyrir maður: “Þú litar fínt, Eiríkur Smith”.

Einhver sagði að unglingsárin væru erfiður aldur. Held að sá hinn sami ætti frekar að prófa að vera 27 ára. Svo má hann spyrja Hendrix, Cobain, Joplin, Morrison, Brian Jones og Kristján Fjallaskáld (já og jafnvel bassaleikarann í Uriah Heep).

Þegar ég verð 27 ára ætla ég að láta pakka mér inn í bómul, alltaf að líta til hægri og vinstri áður en ég geng yfir götu og láta gítarinn minn alveg vera. Þangað til bölva ég því að hafa gefið ljónatemjaradrauminn upp á bátinn. Hefði getað orðið einn af þeim bestu.

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Vér bavíanar hins ritaða orðs :(

Ég var á salerni knæpu um daginn og gaur sem ég kannast lítillega við stóð við þvagskálina við hliðina á mér. Hann sneri sér að mér og sagði:
-Hei, ég held ég hafi kíkt á bloggsíðuna þína um daginn. Ansi fróðleg!
Þetta kom mér allt í opna skjöldu og ég svaraði strax:
-Gaur! Þú ert að míga á mig maður, snúðu þér fram, fíflið þitt! Svona gerir maður ekki! Hættu! Snúðu þér fram!
Þá upphófst vandræðaleg sena. Hann sagði ekkert nema ‘sorrí, maður’ og ég fór undir þurrkvélina sem blés kraftlítið á hlandblautan mig. En mannkertinu til málsbótar skoðaði hann víst stundum bloggsíðuna mína. Og kvaddi ég fálkann með handabandi og færði ég honum hlýleg orð í nesti.

Sat sjálfur eftir illa lyktandi og djúpt hugsi. Hvaða skríll er það sem les þessi orð yfirleitt (þegar ég segi skríll þá meina ég þig)? Þekki ég þetta fólk? Og ég hélt áfram að spyrja sjálfan mig áleitinna spurninga. Ætli það sé til miðill sem bloggar og gefur framliðnum færi á að láta gamminn geysa? Eða blogg geðklofa manns sem skiptir ört um skoðanir og jafnvel hnakkrífst við sjálfan sig? Blogga dýr? Blogga konur? Hvað borða dýr?

Svörin létu á sér standa en víst er að mér þykir bloggdingl oft fróðlegt. Íslendingar eiga líka örugglega heimsmet í því eins og þunglyndi, fótanuddtækjaeign og óöryggi (‘hádjúlæk Æsland?’ ruglið er t.d. svona svipað og ef ég spyrði fólk alltaf ‘hvernig finnst ykkur ég?’). Já, annar hver moðhaus virðist vera með prívat síðu undir tuð sitt og leiðindi. Og þó blogg séu fróðleg og jafnvel skemmtileg stundum eru ýmsir bloggkækir sem gera mig leiðan.

Þar ber hæst erkióvinur minn, broskallinn :( Það að nota broskalla er svona svipað og að segja alltaf ‘djók’ í lok setninga :( Sem er ekki kúl til lengdar :( Broskallar eru líka óvinir kaldhæðninnar :( Stundum er ég hræddur um að einn daginn taki kallarnir alveg við af punktum :) ...nei ég meina :(

Annað dapur bloggsiður er þegar fólk færir hlátur sinn í letur. Bloggverjar skrifa alltaf eitthvað ‘hahahehe’ og ‘híhíhíhí’ þegar þeir slá á létta strengi. Í næstu Orðabók Menningarsjóðs verður hægt að finna orðið ‘múhahaha’ ef heldur sem horfir. Og fyrst fólk ritar hlátrasköll sín, hví ritar það ekki önnur hljóð sem það framleiðir meðan skrifað er? Hafa búkhljóð t.d. ekki sama tilverurétt í rituðu máli og hlátur? Ef ég er látinn vita þegar fólk hlær vil ég líka fá að vita ef það klórar sér eða hnerrar.

En það er nú bara ég. Bara orð manns sem migið er á á almenningssalernum. Ekki til að taka mark á. Gleymið þessu, hefði ekki átt að minnast á þetta. Hvernig finnst ykkur ég?

fimmtudagur, janúar 05, 2006

Nýtt ár

“Það besta sem
Guð hefur skapað
er nýr...
...dagur”

Allt verður frábært á árinu 2006. Fuglasöngur út í gegn, gríðarlegur hagvöxtur og enginn mun verða veikur. Sjálfur stefni ég á að gefa út hljómplötu, ljúka námi, skrifa skáldsögu um geimdreka og frelsast. Samkvæmt völvu ráðagóðu raddanna mun þó ekkert af þessu gerast nokkurn tímann. Hún og kústurinn hennar verða líka brennd á báli á þrettándanum enda göldrótt og leiðinleg. Aðspurð sagðist hún borubrött hafa séð það allt fyrir fyrir löngu. Á brennunni verða einnig Harrí Potter, Ellý Ármanns og dávaldurinn Sæless. Einnig maður sem stóð sig grunsamlega vel á Lengjunni á síðasta ári. Hvenær fer maður of langt með svona galdragrín? Einhver?

Um áramót spretta allir heimsins gáfumenn upp eins og gorkúlur og búa til topptíulista af öllum sortum. Menn ársins, íþróttamenn ársins, plötur ársins, og bækur ársins líta dagsins ljós. Það er hins vegar ofar mínum skilningi hvernig í ósköpunum allir fóru að því að hlusta á allar plötur á árinu og lesa allar bækur á árinu. Skrýtið að þetta duglega fólk sem það gerir skuli ekki vera menn ársins eða fá að minnsta kosti fálkaorðu. Ég viðurkenni stoltur að ég er ekki einn þeirra sem hlustaði á allt 2005 galleríið en ætla samt að láta listagyðjuna plata mig til að birta topptíulista yfir sönglög sem mér fannst hress á árinu 2005 (mér er svo sem sama hvort þau komu út á árinu eður eigi). Hér er hann og þegiði nú:

Aðvörun: Fyrst hélt ég að ég væri sniðugur að gera svona lista en sé núna að þetta útspil er svo leiðinlegt aflestrar að það gæti drepið heilu þorpin. Allir eru því hvattir til að hætta að lesa og skipta yfir á aðra stöð. Helst strax svo enginn beri skaða af. Hví lestu enn, óhlýðni lesandi? Snautaðu frekar á brautu!

10. Waltz 2 með Elliott Smith. Gömul plata og einhver sagði mér að kallinn væri dauður.
9. Lag með Ampop sem ég veit ekki hvað heitir.
8. Eiður Smári Gudjohnsen með hljómsveitinni Mér.
7. Þú skítuga borg með mér.
6. Gone for good með Shins.
5. Glósóli með Sigurrós.
4. Permanent waves með Kinks. Útsetningin döpur en lagið dúndur. Ray meistari Davies kemur til Íslands 2006 sem er gaman.
3. Kompromissen með Bob hund.
2. Chicago með Sufjan Stevens. Danni gaf mér Illinoise diskinn hans Sufjans og er hann hress og frekar póstmódernískur. Diskurinn er fínn líka.
1. Neigbourhood: In the tunnels með Arcade Fire. Besta band sem ég hef heyrt í lengi.

Einnig:

Íþróttamaður ársins: Álfkvikindið í Latabæ.

Hljómsveit ársins: Álfkvikindin í Mosfellsbæ er kenna sig við Sigurrós.

Blogg ársins í flokki fatlaðra: Þessi. Honum hefur farið mikið fram.

...

Verðlaunaafhendingu er lokið í ár. Bannað að troðast á leiðinni út. Sko mig samt að gera lista. Bara jafnmikill hálfviti og allir hinir.

þriðjudagur, janúar 03, 2006

Fyrir þúsund Krissa

Á Bókasafni Hafnarfjarðar er að finna magnaðar krakkabækur um söguhetjuna Krissa. Þær eru sænskar og mitt uppáhald er Krissi kemst í hann krappan. Krissi er ráðagóður grallari alveg eins og ég og hef ég oft sýnt kunningjum mínum þessar bókmenntir þegar ég á leið um safnið. Ég er hreykinn af Krissa og leita stundum til hans (þ.e. R-S rekkans) þegar mér líður illa. Hann hefur reynst mér vinur, verndari og fyrirmynd og eflt sjálfstraust mitt til muna. Eftir raunir dagsins stendur það þó á brauðfótum.

Jóhannes Skag var að kenna mér nýtt föndur sem ég tel reyndar byltingu í tölvutækni. Þetta sýsl snýst um að gúgla sjálfan sig á alnetinu. Jóhannes komst sjálfur að því að hann er í miklum metum hjá kornungum stelpugörmum sem búa á Suðurnesjum. Þessi uppgötvun hans þykir mér merkileg og eftir að hafa upplifað leikinn sjálfur vil ég jafnvel ganga svo langt að segja að tölvur séu framtíðin.

Mér til nokkurs ama leiddu rannsóknir mínar þó ekki í ljós að heilu hrúgurnar af kvenfólki biðu mín suður með sjó. Hins vegar er ljóst að ég nýt hylli víða á Austurlöndum og þyki með eindæmum stór í Japan. Margar vefsíður alnetsins færa sönnur á það, m.a. þessi. Oft hef ég viljað meina að samtímamenn kunni ekki að meta mig sem skyldi en nú er ég á því að einungis þeir samtímamenn mínir sem ekki eru af japönsku bergi brotnir séu haldnir þeim kvilla. Kann ég Japönum bestu þakkir fyrir allt. Aldrei að vita nema ég heiðri þessa smávöxnu öðlinga með nærveru minni ef heldur sem horfir.

Öllu leiðinlegra þótti mér að sjá þessar misgjörðir einhverra óprúttinna hrekkjalóma sem augljóslega freista þess að koma mér fyrir kattarnef. Veit ég vel að ég get verið kvenskur á stundum (og á einstökum augnablikum jafnvel algjör glamúrprinsessa) en með þessu gríni er ljóst að menn hafa gengið fulllangt. Niðurlæging mín er algjör. Aukinheldur: Hvað var svo sem að Krissa I?

Önnur uppgötvun mín reyndist mér til framdráttar. Uppáhaldssönglag Danna kumpána er Daniel með Elton John og leiðist honum ekki að kvaka það á góðum stundum. Hann fílar líka Oh Danny boy, Daniel’s song og Daniel and the sacred harp, nú og ekki síst lagið um alla þá sem vilja líkjast Daníel (hann heldur einnig að lagið You're so vain með Carly Simon sé um hann sjálfan). Ég hef lengi öfundað Dannsa út af þessu lagasafni og hann hefur stundum hlegið að mér og kallað mig auvirðilegan glóp fyrir að eiga ekkert einkennislag. Nú hef ég hins vegar loksins svarað fyrir mig og gúglað mér sönglag sem er vafalaust miklu betra en Elton John-vælið hans Danna.

En gleðin sem því fylgdi reyndist skammvinn. Skömmu síðar fann ég mann sem á svipstundu kom óorði á alla heimsins Krissa. Þetta var minn djarfi og dólglegi nafni, sjímeilklámprinsinn Krissi. Þarna úti er ljótur heimur og ég bið alla viðkvæma um að forðast þennan hlekk þar sem hann gefur annars vegar falsmynd af Krissum og hins vegar eru þessar kvikmyndir engan veginn með betri verkum þessa leikara (af hverju er t.d. ekkert minnst á You’ve got shemale III?). Það sem mér þykir verst er að þegar vel er að gáð erum við eiginlega nauðalíkir, ég og þessi nafni minn.

Lexía dagsins er sú að Krissar þessarar veraldar eru æði misjafnir að gæðum. Ekki allir óskeikulir og úrræðagóðir eins og sænski gemlingurinn á bókasafninu. Gúglleikur Jóhannesar er þó góðra gjalda verður og fræðandi. Með réttri markaðssetningu gæti hann skákað vinsælum leikjum á borð við Í grænni lautu og Hver stal kökunni úr krúsinni í gær? Þetta segi ég hikstalaust þrátt fyrir nokkra útreið í gúglinu. En þannig er lífið stundum. Eins og Jói þarf að sætta sig við að sitja í fangi ungra meyja á Suðurnesjum þarf ég að sætta mig við mitt hlutskipti; dúkkur og sjímeila.

Eða bara að byrja að láta fólk kalla mig Munda.