þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Helvítis Þórir

Í dag fór ég á bókasafnið að læra. Í anddyrinu var hópur leikskólastráka. Stóðu álengdar svona fjögurra ára gamlir. Þetta voru bara strákar og voru alveg einir og ótrúlega grafkyrrir. Fóstran hafði örugglega farið inn á safn og látið þá bíða. Gaurarnir voru álkulegir mjög og störðu út í loft í pollagöllunum sínum, bíðandi eftir fóstru. Veit ekki hvort þeir hafi verið smeykir eða bara ofurspakir en ekki heyrðist múkk í þeim. Þeir störðu bara. Eins og gamalmenni. Ég labbaði framhjá, nývaknaður, órakaður og eins og varúlfur í framan, í rifnum gallabuxum og allskuggalegur. Fékk óskipta athygli strákanna í pollagöllunum. Þeir þögðu allir nema einn sem sagði lágt: “Hæ”. Svona eins og hann vissi ekki hvort hann ætti að segja ‘hæ’ eða ekki. Þetta föruneyti var svo stórfyndið að ég snarvaknaði til lífsins og svaraði hress í bragði: “Nei, blessaðir strákar, hva... eru ekki allir örugglega í stuði?”. Ekki var að sökum að spyrja og strákarnir svöruðu allir játandi, hátt og snjallt og í kór og allt. Mökkuðust upp og voru með stærilæti og rugl. Fóru að spyrja meðan ég rölti framhjá hvað ég héti og fóru að segja mér hvað þeir hétu. Man að einn hét Orri. Helvíti ferskir. Ég fór rakleiðis upp á lessal og ætlaði að byrja að grúska í fræðum er ég fattaði að setningarfræðibókin góða varð eftir úti í bíl. Sneri við og ætlaði að ná í skrudduna. Mætti auðvitað vinum mínum í anddyrinu og var fóstran nú mætt á svæðið. Segir þá einn hinna vösku sveina: “Heyrðu... hann Þórir er sko ekki í stuði”. Var mér litið á einn guttann sem hét ábyggilega Þórir, og sá að hann hafði sett upp aldeilis skúffaða skeifu. Var bara úrillur og leiðinlegur. Lét það ekki á mig fá og hélt út í bíl að sækja bókina.

Án efa eftirminnilegasta atvik dagsins.

sunnudagur, febrúar 20, 2005

Hrafn og Kiljan

Vinur minn lenti einu sinni í partíi hjá dóttur Hrafns Gunnlaugssonar. Víst frekar leiðinlegu partíi. En það er ekki öll sagan. Þessi vinur minn átti nefnilega annan vin sem var stelsjúkur. Og það á svo háu stigi að það var hálfvandræðalegt. Ég sá hann einhverju sinni stela reykskynjara úr stigagangi í blokk. Bara til þess að taka hann. Sá stelsjúki hringdi í gaurinn í partíinu og ætlaði að fara á límingunum er hann frétti að félaginn væri heima hjá Hrafni Gunnlaugssyni. Egndi hann ítrekað til að taka eitthvað. Bara eitthvað. Fyrir sig.

Tekið skal fram að stráksi er staddur var á hýbýli Hrafns Gunnlaugssonar er afar mætur drengur og bæði greindur og réttsýnn. En einhvern veginn fékk sá stelsjúki hann til að láta slag standa. Og okkar maður í teitinu afsakaði sig og þóttist á klósettið. Fór í miklu fáti inn í herbergi þar sem ljósrofinn var á eitthvað ókristilegum stað og allt var í myrkri. Hann var yfirspenntur og hræddur og þreif með sér einhverja litla mynd í ramma sem hann setti í úlpuvasann. Fór fram og hélt áfram að sötra ölið eins og ekkert hefði í skorist. Fór fljótlega í annað partí og gleymdi í ölvun sinni blessaðri myndinni.

Seinna um kvöldið hringdi sá stelsjúki í þennan vin sinn sem þá var staddur í bænum ásamt hópi fólks. Spurði stelsjúkur hvort þýfi hefði fylgt honum úr húsi Hrafns Gunnlaugssonar. Þá fyrst uppgötvaði kappinn að hann var enn með myndina í vasanum, þreif hana upp og virti hana fyrir sér. Kemur þá fyrst á daginn að myndin var af Hrafni takandi í spaðann á Halldóri Kiljan Laxness. Á henni sást Hrafn horfa með virðingaraugum og lotningu á meistarann og kunni klárlega vel að meta félagsskapinn. Tvisvar ég hef séð Hrafn tala um Laxness í viðtölum og þar skafaði hann ekki aldeilis utan af aðdáun sinni á skáldinu. Mínum réttsýna vini, sem þarna stóð í miðbænum með mynd af Hrafni Gunnlaugssyni og Halldóri Laxness, leist ekki á blikuna. Hann hafði grun um að hann hefði rænt dýrmætustu eign Hrafns Gunnlaugssonar. Hinn stelsjúki bar sig hins vegar vel og var allra manna kátastur þetta kvöld.

Niðurlög sögunnar eru þó á þá leið að vinurinn mætti seinna á vettvang glæpsins, þ.e. heimili Hrafns Gunnlaugssonar, og henti myndinni á einhvern stól þegar enginn sá. Samviskubitið hafði kjamsað á honum eins og fjallaljón á hýenu. Ég á í engum vandræðum með að ímynda mér viðbrögð Hrafns Gunnlaugssonar þegar hann uppgötvaði að myndin góða hafði skilað sér aftur eftir útlegðina.

Ædolið

Mér hefur tekist að fara illilega á mis við ædolfárið. Er ekki með Stöð tvö eða neitt. Hefur heldur ekki fundist kúl að horfa á svona karókíkeppni. Það er líka dýru verði keypt að vera kúl. T.d. bannað að horfa á Júróvísjon, ædolið og myndir með Hugh Grant. En að öllu kúli slepptu er ótrúlegt hversu mikinn sjarma þessi dagskráliður virðist hafa.

Og einhvern veginn kemst maður bara ekki hjá því að vita hver staða mála í ædolinu er. Það ekki síst fyrir að nokkrir átta ára lærisveinar mínir í knattspyrnunni eru helteknir af því. Láta mann alltaf vita hver datt út síðast og svona. Í dag tjáði einn mér meira að segja hvernig hann ætlaði að vinna ædolið þegar hann fengi aldur til að taka þátt. Ætlaði bara að taka FH-lögin. Hljómar barnalegt í fyrstu en kænskubragð ef vel er að gáð. Það þarf bara að sjá þetta fyrir sér. Gaur í FH-treyju í Smáralind, intróið ómaði fyrst; ‘bamm-bamm-bamm-bamm’ og svo “Ég-vil-vera, þú-vilt-vera, allir-vilja-vera í FH...” Þú kýst ekki svoleiðis menn út.

Kappinn sagði þó spakur í bragði að hann myndi ekki taka FH-lag í úrslitum. Þá tæki hann þjóðsönginn. Ótrúlegt útspil. Hvernig getur gaurinn tapað ef hann vefur sig í þjóðfánann og syngur lofsönginn? Hvílíkur refur! Sannfærði durgur mig um að með réttu lagavali gætu allir unnið ædolið.

föstudagur, febrúar 18, 2005

Drakk eiturlyf og fór í fangelsi

Í vikunni bárust þær fréttir af boltagoðinu Eiði Smára að hann hefði verið tekinn fyrir ölvunarakstur. Seinna kom í ljós að hann var undir löglegum mörkum og keyrði sjálfur heim eftir að hafa blásið duglega fyrir bresku löggurnar. Fréttin var því engin frétt. Og ef hann hefði verið fullur væri það kannski engin stórfrétt heldur. Ég myndi allavega finna leið til að vakna á morgnana. Tæki bara einn dag fyrir í einu.

En svona fréttir koma samt við kaunin á mörgum hörðustu stuðningsmönnum Eiðs og einkum yngstu aðdáendum. Þegar ég mætti að þjálfa á þriðjudag var uppi fótur og fit vegna þessa. Strákarnir voru harmi slegnir yfir því að Eiður hefði verið fullur. Einn var orðinn töluvert æstur og gjammaði ítrekað: “Hvað er Eiður að spá að vera að keyra fullur?” Því kallaði ég hópinn saman og útskýrði að fréttin hefði verið uppspuni, nú lægi fyrir að hann hefði alls ekki verið ölvaður. Löggan hefði bara gert athugasemd við hvernig hann keyrði bílinn sinn. Flestum var létt við þetta en sá æsti varð ennþá æstari: “Hvað er Eiður að spá? Kann hann ekki að keyra? Hann er orðinn 27 ára og kann ekki að keyra”. Almenn ánægja var þó með að Eiður sé ekki fullur og vitlaus milli leikja hjá Chelsea. Í dag hitti ég svo yngra árið mitt og var sama uppi á teningnum. Þar sagði einn að Eiður hefði drukkið eiturlyf og væri nú staddur í fangelsi. Það tók langan tíma að leiðrétta þann misskilning svo ekki færi á milli mála að Eiður er enginn dópisti, fyllibytta eða aumingi heldur sómamaður og ágætis framherji.

Hið beiska óbragð ósigurs

Í dag fór ég á Stælinn og át mat með félögum mínum í kveðjuskyni við einn þeirra sem er að fara til útlanda. Held hann sé að fara að taka þátt í Amazing Race eitthvað, var ekki alveg að hlusta. Veit samt að hann fer til New York, Bólivíu og á Galapagoseyjar. Fengum við honum urmul fjár og bað ég hann að setja það allt á töluna 13 í spilavítinu í Quito. Segi síðar frá hvernig það gekk. Var spaugilegt atvik rifjað upp á Stælnum. Atvik frá því er við vorum í menntaskóla.

Eitt sinn var heljarinnar ræðukeppni haldin í menntaskólanum okkar og skráðum við félagarnir okkur til leiks. Gekk vonum framar og unnum við tvær keppnir og tryggðum okkur þar með sæti í úrslitum. Þó, en sér í lagi þar sem ég segi sjálfur frá vorum við langbesta liðið í keppninni. Og vorum klárir með allar okkar ræður sem sennilega voru frekar einkenndar af aulafyndni en ræðusnilld. Fullt af fólki ætlaði að mæta og mikil stemmning var í skólanum. Ákváðum við liðsmenn að kíkja á Stælinn rétt fyrir keppni, fá okkur borgara og hrista liðið saman. Gekk ágætlega að panta og hlömmuðum við okkur niður með dýrindis málsverð fyrir framan okkur. Ég stökk á salerni en kom brátt til baka og henti fram svona eins og einum brandara er ég settist aftur. Strákarnir sprungu úr hlátri. Mér fannst ég vera orðinn funheitur og smellti á þá öðrum brandara og hlógu þeir á ný eins og vitlausir væru. Sigri hrósandi fékk ég mér þá sopa af ísköldu kókinu mínu enda verður maður oft þyrstur eftir að hafa sagt marga góða brandara. Fékk mér stærðarinnar gúlp en komst skjótt að því að frummælandi liðsins hafði sett eins og ígildi hálfs saltstauks í kókið og voru piltarnir víst einungis hlæjandi að þeim illa hrekk en ekki hótfyndni minni. Alltaf gott að hafa djúpan frummælanda. Ég fór aftur inn á klósett og ældi. Fór svo held ég hálfleiðina með að klára matinn minn en þá var brunað á keppnisstað. Keppnin átti að byrja klukkan átta en þá var ég fastur á salerninu ælandi máltíð 82 af Stælnum. Kom loks náfölur fram og flutti ræðurnar mínar. Við töpuðum keppninni. Féllum á eigin bragði. Og djöfull var það drulluvont bragð.

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Fiskurinn; sverð okkar og skjöldur

Á Íslandi er kalt. Mér er alltaf skítfokkingkalt. Og er þó oft með húfu og allt. En samt búum við hérna og förum alveg út í kuldann, setjum bara ofninn á sjö þegar komið er heim. En það er ekki allt. Á Íslandi er fiskur borðaður í öll mál og eiga landsmenn víst allt helvítis fiski að þakka.

En á gjöfum Njarðar er gjarnan rækilegur hönnunargalli. Og jú, fiskur er skrambi vondur. Af fiski er einvörðu vont bragð. Og það var sennilega af þeim sökum að einhver fann upp fiskrétti. Tilgangur fiskrétta er að deyfa fiskibragðið eins mikið og mögulegt er. En það er ekki nóg. Við erum samt að borða fisk og það er ekki hægt að dulbúa fisk. Á sama hátt og það er ekki hægt að henda horni á froskdýr og halda að það sé nashyrningur.

En íslenska þjóðin stendur föst við sinn keip og hampar fiski í hvívetna. Segir alla okkar afkomu byggja á honum og að fátt sé bragðbetra en soðin ýsa með hamsatólgi. Sjálfur neita ég að taka þátt í þessum hlægilega fiskisirkusi. Í sögunni um nýju föt keisarans stóð einhver sakleysinginn upp og hrópaði sannleikann hátt og snjallt. Og svo er eins farið í minni sögu: “fiskur er fokking vondur, það er megavika og ég stend ekki í þessu”.

Bolludagssull

Þegar ég var smár drengur át ég ávallt bollur af mikilli lyst á bolludag. Bæði rjómabollur og svo fiskibollur í kvöldmatinn. Nú er af sem áður var. Mér finnst fiskibollur ekkert sérstakar og er eiginlega hættur að fíla rjómabollur. Þær eru subbulegur andskoti. Því hef ég undanfarið verið svolítið utangáttar á bolludag. Hef skyggnst með augum utangarðsmanns inn í gleðina sem rjómabollan hefur í för með sér. Fyrir mér hafði dagurinn glatað þýðingu sinni. Fyrir rúmum tveimur árum sátum við Svenni bróðir einmitt í þungum þönkum og skeggræddum þessa hvimleiðu þróun mála. En þá laust lausninni í höfuð okkar. Auðvitað! Bolla! Svarið hafði verið fyrir framan nefið á okkur allan tímann!

Í dag tökum við á móti bolludeginum með því að sanka að okkur áfengisleifum, söfum og ávöxtum og blöndum í góða bollu. Í ár var meira að segja slegið til bolluveislu heima hjá Bollu-Gaua, hressbróður Sveins. Blandað var í sjö bollur. Sex þeirra voru afbragð en aspasbollan stóð ekki undir væntingum. Fullmikið tónik í henni fyrir minn smekk. Sullinu lauk um miðnætti þegar greindir menn gerðu sér grein fyrir að bolludeginum væri lokið samkvæmt almanaki.

Ég hef því heimt bolludaginn úr helju og hlakka nú ávallt til er hann ber að dyrum.

Og enn um heimskupör

Hef alltaf haft horn í síðu jólaskrauts. Hef lengi bölvað jólaskrauti, sett upp illilegan svip þegar ég sé slíkt skraut og jafnvel grýtt smásteinum í það. Ég var meira að segja einu sinni handjárnaður af lögreglunni vegna hneigða minna í átt jólaskrauts.

Eitt sinn lærði ég eins og maður galinn fyrir próf í skólanum. Daginn sem þeim lauk, rétt fyrir jól man ég, var ég illa sofinn og ringlaður en afar feginn. Fagnaði ég próflokum allduglega, kneyfði mjöð og var glaður í bragði. Minn helsti bróðir í svallförum þessum var bróðir Dannsi sem líka hafði lokið prófum sama dag. Enduðum við í stúdentaveislu, sennilega að óska fólki til lukku með húfur eins og siður er í stúdentaveislum. Var veislan á Hraunholti nokkru og að henni lokinni gengum við Dannsi heim, reyndar með unga stúdínu upp á arminn okkur til upplyftingar. Er hún sómakær kona og því mun nafn hennar liggja milli hluta. Gengum við heim sem áður segir. Var það langur gangur. Man að ég gekk einu sinni heim af Astro með Jóa Skag eftir framhaldsskólaball og var tvo og hálfan tíma á leiðinni. Er það önnur saga. Í þessari sögu stoppaði ég einhvers staðar á leiðinni bitur og illur í svipmóti. Var litið á eitthvert ljótasta hús bæjarins, þakið smekklausu jólaskrauti; sveinki á toppnum, seríur hvert sem litið var, snjókarlar, hreindýr og annar ósómi. Hafði greinilega tekið heimilisfólk 2-3 vikur að koma þessu upp. Þarna var ég orðinn ölreifur og ódæll, rænulaus og vitlaus auk þess að kenndir mínar í garð jólaskrauts brutust þarna fram. Á þessu örlagaríka augnabliki var mér litið til Snæfinns snjókarls sem bundinn var fastur við húsið. Snæfinnur ákallaði mig og er ég leit í augu hans heyrði ég hann segja: “Ég er bara dapur snjókarl og er hér haldið nauðugum af illræmdum húsbónda mínum. Bara ef einhver hefði kjark til að bjarga mér... jæja, sjáumst kumpáni...” Ég stóð hugsi um stund en stakk svo upp á því að við myndum hafa Snæfinn með á brott. Bjóst við að einhver segði mér að halda kjafti og halda áfram göngunni. Bróðir Dannsi var hins vegar sama sinnis og hóf að naga snúrur Snæfinns af miklum móð svo hægt væri að flytja karlinn. Danni var lengi að naga og okkur varð brátt drullukalt. Hinn glaðhlakkalegi Snæfinnur losnaði þó loks úr viðjum hins illa húsbónda Jólalands, vippaði ég karlinum góða á bakið og héldum við áfram heim á leið. Leit reyndar við og kallaði til Rúdolfs sem trónaði efstur á þakinu að hann skyldi eigi örvænta enda yrði næsti björgunarleiðangur helgaður honum. Við nálguðumst heimaslóðir óðfluga. Á leiðinni tókum við Moggabunka sem bíða átti eftirvæntingafulls blaðbera í morgunsárið og bárum hann auk Snæfinns. Okkur leið óneitanlega eins og hetjum. Þessi för var sem frægðarför. Snæfinni var bjargað úr helsi jólafasistanna.

En ekki var Adam langdvölum í Paradís. Á Brekkugötunni kom lögreglubíll upp að okkur þremenningunum og voru laganna verðir vondir í bragði. Tókum við Dannsi til fóta vorra en ekki kom að sök, bölvuð svínin náðu okkur og handjárnuðu svo sár mynduðust við úlnliði okkar. Dundu á okkur spurningar. Hvaðan kemur Snæfinnur? Berið þið út Moggann? Í öllu spurningaflóðinu buguðumst við og sögðum þeim sólarsöguna. Snæfinnur var settur í skottið á löggubílnum og við beint í bílinn. Snæbbi átti að fara aftur til síns heima. Löggurnar spurðu því næst hvar við hefðum fundið hann. Við sögðumst ekki vita hvað gatan hét. Löggurnar urðu ofsareiðar og endurtóku spurningana hatrammir í bragði. Við sögðumst ekkert vita enda vissum við ekki hvað gatan hét. Endaði á því að einhver sagði að þetta væri í færeyska hverfinu. Var önnur löggan þá brjáluð og hótaði okkur vist í fangageymslum. Hin löggan sagðist þó vita hvar færeyska hverfið var og fórum við þangað. Það var þá sem ég lærði hvar færeyska hverfið er. Snæfinni var skilað og löggurnar ætluðu að henda okkur heim. Klukkan var að nálgast sex. Segir þá löggi: “Jæja, hvar er best að henda ykkur út? Við sundlaugina?”. Við svöruðum: “Já, snilld væri það. Væri fínt að kíkja í smá sund áður en við förum heim”. Löggurnar brugðust hinar verstu við og báðu okkur um að lofa að gera það ekki. Benti ég þá á hús með ljótu jólaskrauti og bað þá um að henda okkur út þar. Gæti verið gaman að taka meira skraut. Löggurnar urðu draugfúlar við það og báðu okkur um að taka ekki meira skraut. Fórum við út hjá sundlauginni og svo heim að sofa.

Lýkur þar með sögunni um Snæfinn. Ku hún vera hluti af sagnabálkinum “Heimskupör Krissa – The Greatest Hits” en áður hafa birst heimskulegar sögur í svipuðum dúr á síðunni. Mórall sögunnar er þó umdeilanlegur. Skiptast fræðimenn jafnvel í tvær fylkingar. Vilja sumir meina að óráðlegt sé að vera fullur og heimskur og að ekki sé til eftirbreytni að stela. Vilja aðrir meina að jólaskraut sé til trafala og að löggur skorti oft skilning og víðsýni í málum sem þessum. Hallast ég að því síðarnefnda og tel fullvíst að ég njóti stuðnings títtnefnds Snæfinns í því málinu.

mánudagur, febrúar 07, 2005

Stone cold crazy you know

Móðurmál okkar er hjálpar þurfi. Óhljóð erlendra mála dynja á okkur í gríð og erg og berja miskunnarlaust á málvitund okkar. Hatrammir, eldspúandi drekar útlenskra mállýskna hafa tekið sér bólfestu í hugum okkar, sagt málinu okkar stríð á hendur, boðið til útfarar íslensks máls. En sem betur fer eigum við menn sem hvika eigi þegar illþefjandi útbreiðsla sora er við það að ná fram að ganga. Sem betur fer eru framverðir íslenskunnar vakandi þegar slímug, erlend áhrif reyna að smjúga inn í hugarfylgsni okkar. Framverðir sem segja: “Ekki á minni vakt!”. Og ég er ekki að tala um einhverja svokallaða ‘framámenn íslenskunnar’ eins og Snorra Sturluson, Jónas Hallgrímsson og Halldór frá Laxnesi. Þeir eru fokking gígalóar í samanburði við hinn eina sanna verndara. Hinn heilaga verndara íslenskrar tungu... Þorstein Gunnarsson (spurning um að allir ímyndi sér massareyk núna og svo Steina koma út úr honum með hnefann á lofti og standandi á öðrum fæti. Steini er klæddur í ofurmannabúning í fánalitunum, reyndar með Sýn-merkið á maganum og sætkikkið sitt í eftirdragi sem er sennilega Valtýr Björn).

...

KALDHÆÐNISHLÉ

Púff... Hversu steiktur er þessi gaur? Það hafði ekki heyrst múkk í íslenskunjörðum þessa lands þegar tapsárir, ótalandi Sýnarmenn setja allt í einu allt á annan endann. Stöðvar eins og PoppTíví og Omega eru með ótextaða þætti nær öll kvöld. Ætli Þorsteinn viti af því? Ég vona að enginn segi honum því þá mun hann lögsækja stöðvarnar til helvítis... Hvílík snilld var það samt að hafa bresku félagana að lýsa. Robbie Earle og svona dáta. Menn með skilning á leiknum. Maður virkilega hlustaði á hvað þeir höfðu fram að færa.

...

KALDHÆÐNISHLÉI LOKIÐ

Hjá Þorsteini eru allir dagar tileinkaðir hamslausri baráttu fyrir okkar dýrmætasta fjársjóði, móðurmálinu. Dagar strits fyrir sérkennum okkar og arfi. Dagar erfiðisvinnu í þágu sjálfstæðis okkar.

Já, og miðvikudagar eru bornir fram sem ‘migguda’.

laugardagur, febrúar 05, 2005

Hinn seinheppni Klemens

Úpps... var næstum búinn að gleyma brandaranum mínum.

Einu sinni var fólk að snæða kvöldverð. Voru þarna hjón og svo góður fjölskylduvinur. Köllum hann Klemens. Skiptir samt engu máli hvað hann heitir. Nema hvað að gaurinn hét Klemens. Fólkið var uppstrílað og virðulegt og var sennilega að éta pekingönd með mikilli sósu þegar eiginmaðurinn ákvað að rjúfa þögnina, brjóta ísinn og koma í veg fyrir vandræðalegheit:
-Tja, ég var nú að lesa ansi merkilega grein í New York Times hér. Fjallaði um trjáriðla. Menn sem fá heilmikið kynferðislega út úr því að þjösnast á trjám í frístundum.
Segir nú fjölskylduvinurinn Klemens eftir langa leit að sómasamlegum viðbrögðum:
-Já... Betri eru nú trjáriðlar en náriðlar!
Við þetta tilsvar stendur eiginkonan upp og fer hin reiðasta í fússi. Hverfur á brott með tilheyrandi fussi og sveii. Segir þá eiginmaðurinn með fyrirlitningu:
-Klemens, djöfull geturðu verið ónærgætinn. Pabbi hennar var náriðill...

...

Þetta er víst eini brandarinn sem ég kann enda bjó ég hann til sjálfur fyrir mörgum árum síðan.

föstudagur, febrúar 04, 2005

Ray

Þegar ég var tólf ára gerðist ég manískur aðdáandi sixtísrokkaranna í the Kinks. Ég keypti alla Kinks-diska sem falir voru, kortlagði textanna og stúderaði meira að segja ævisögu forsprakkans, Raymonds Douglas Davies. Stundum reyndi ég að spila þessa tóna innan um jafnaldra en var yfirleitt ávítaður harðlega fyrir vikið. Einu sinni tóku einhverjar stelpur Kinks-spóluna mína úr tækinu, hentu í mig og smelltu Ace of base eða Whigfield á. Man að ég fór næstum því að gráta. Ekki yfir því að hafa verið beittur rangindum heldur því mér fannst heimurinn vera svo innilega á mis.

Allar götur síðan hefur Kinks-árátta mín verið við lýði. Textagerð Ray Davies á sér vart hliðstæðu og helstu plötur gullaldarára Kinks eru svívirðilega ferskar. Hef sennilega alltaf fílað Kinks betur en Stones eða Bítlana. Því var ég glaður þegar ég frétti einhvern tíma að Ray Davies ætlaði að halda tónleika á Íslandi. Man ekki hvaða ár þetta var en festivalið hét Reykjavík Music Festival og konsertinn var í Höllinni. Ég las ævisöguna aftur af þessu tilefni. Og tónleikarnir voru frábærir, upplifunin mikil að berja gamla kallinn augum. Kallinn sem rak einu sinni alla úr sveitinni nema sjálfan sig. Kallinn sem fór einu sinni ekki úr rúminu sínu í tíu daga þar til hann byrjaði allt í einu að hlaupa um Lundúnaborg endilanga uns hann fann umboðsmanninn sinn sem hann svo barði í stöppu.

Eftir tónleikana fór ég beint heim, þurfti að þjálfa snemma um morguninn. Um miðja nótt byrjaði síminn þó að öskra og sá ég að þar var á ferð félagi minn, sem greinilega var á djamminu og hafði reyndar vakið mig um svipað leyti helgina áður. Var ég að vonum ósáttur. Félaginn náði þó að stumra út úr sér: “Ég er hérna að rölta Laugaveginn og er ekki frá því að Kinksarinn vinur þinn sé bara nokkrum skrefum á undan mér”. Ekki fannst mér frásögnin trúverðug enda var þessi kumpáni minn þekktur fyrir óknytti er hann brá sér á galeiðuna. Því bað ég durginn um að setja helvítið í símann og hélt svo áfram að bölva honum fyrir símtöl um miðjar nætur en komst ekki langt með það. Heyrði nefnilega strax í félaganum: “Mr. Davies, I’m sorry to interrupt you but I’ve got the biggest Kinks fan in Iceland on the phone. He just want’s to say hi”. Ekki var að sökum að spyrja, goðið mætti eldhresst í símann, kastaði kveðju og bað fyrir góða nótt. Sjálfur svaf ég reyndar eitthvað lítið en var þó kampakátur með símtalið.

Annars höfum við glatað svolítið sambandi eftir þetta, ég og Ray. Frétti samt síðast af honum í New York er hann var að elta uppi þjóf og fékk byssukúlu í lærið. Rúmlega sextugur nagli að elta gangstera New York borgar. Fínn kall hann Ray.

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Við eigum einn besta semballeikara í heimi!

Held að bloggið mitt sé í tilvistarkreppu. Ég veit ég ekki alveg hvernig það á að vera. Fyrst hélt ég að það gæti innihaldið stórmerkilegar og jafnvel mannbætandi hugrenningar um menn og málefni. En þó það kunni að hljóma furðulega bærast ekki eins stórmerkilegar hugsanir innra með mér og ég hélt. Ég virðist hugsa meira um annars konar hluti eins og apa og hversu gaman væri að hlýða á gormæltan dverg syngja “Nú er frost á Fróni”.

Því datt mér einna helst í huga að þessi síða gæti innihaldið sögur sem þangað til nú hafa einungis verið til í munnlegri geymd. Sögur sem sagðar hafa verið á mannamótum í gegnum tíðina en eiga í hættu að gleymast er fram líða stundir.

Var annars að fylgjast með Íslensku tónlistarverðlaununum í sjómbanum. Muggi var að hamstra verðlaun og er það vel. Hins vegar vöknuðu hjá mér spurningar þegar Helga Ingólfsdóttir semballeikari, fékk verðlaun fyrir ævistarf í þágu íslenskrar tónlistar. Spurningar eins og: Hver er Helga Ingólfsdóttir? Hvað er sembal? Man ekki eftir að hafa heyrt nein ruddaleg sembalsóló í íslenskri tónlist.

Jæja, best að halda áfram að lifa við fáfræði. Hef þó alltaf vini mína apana.

Sá bíræfni, sá fífldjarfi og sá heiðvirði – Seinni hluti

Er líða tók á kvöld voru félagarnir að lýjast. Sá fífldjarfi var þá þegar týndur enda væntanlega farinn á vit frekari fífldirfsku. Því beið hinna tveggja það verkefni að flytja ránsfenginn heim og var leitað að bifreið til leigu. Reyndist það erfitt því ekki var nægt pláss fyrir stólinn í flestum bílanna. Kom þá hópur leðurhomma á vettvang og vildi sá heiðvirði hlaupast á brott með þeim. Sá bíræfni hélt aldeilis ekki og fóru þeir hvergi. Loks fannst stór leigari og fullkomnaði sá bíræfni nú myrkraverk sitt með því að vefa ljótan svikavef. Sagði hann bílstjóranum að hann ætti afmæli og þyrfti að ferja gjafir sínar heim eftir vel heppnað húllumhæ í miðbænum. Sá heiðvirði hristi enn hausinn, hafði gert það sem hann gat til að afstýra óskunda þetta kvöld en hvorki haft til þess erindi né erfiði. Misgjörðir kvöldsins sátu í honum, og á sama andartaki og leigubílstjórinn kastaði afmæliskveðju á þann bíræfna sem glotti við leit sá heiðvirði dapur út um afturglugga bílsins á ljósadýrð stórborgarinnar. Sem ljósin fjarlægðust felldi sá heiðvirði lítið tár. Tár heiðvirðs manns er hafði haldið tryggð við skúrka og ómenni.

Lýkur þar með sögu hins heiðvirða, bíræfna og fífldjarfa.

Sá bíræfni, sá fífldjarfi og sá heiðvirði – Fyrri hluti

Eitt sinn voru þrír menn á gangi. Skulu nöfn þeirra liggja milli hluta enda væri annað orðstír þeirra til minnkunar. Var einn þeirra bíræfinn mjög, annar ginningarfífl mikið og sá þriðji heiðvirður maður í óæskilegum félagsskap. Fengu þeir þá flugu í höfuðið að fróðlegt yrði að sjá hvort þeir gætu þrætt allan Laugaveginn á laugardagskvöldi og fengið sér bjór á öllum knæpum sem á vegi þeirra yrðu. Hélt þetta föruneyti strax af stað og mælti einn þeirra: “Jæja, þá erum við lagðir af stað.” Annar svaraði: “Ég hefði nú haldið það, Daníel. Og ef við erum ekki lagðir af stað þá heiti ég ekki Jóhann Skagfjörð.” Leið á ferðina og fengu piltar sér bjór á mörgum mætum bjórbúllum. Smakkaðist bjórinn vel og urðu kappar ölreifir og vitlausir ansi skjótt. Fór sá bíræfni skyndilega að bera sig býsna mannalega, vildi ólmur sanna kænsku sína í eitt skipti fyrir öll og bað félaga sína að villa um fyrir barþjóni einnar knæpunnar. Grandalausir leystu félagarnir verkefnið en á meðan greip hinn bíræfni gullfallegan leðurstól og rogaðist með hann út af knæpunni. Kom þetta heiðvirðum félögum hans í opna skjöldu. Hófu þessir ölvuðu menn þá að renna sér á stólnum (sem var jú á hjólum) niður Laugaveginn og geymdu gripinn í skúmaskotum miðbæjarins er þeir stukku inn á öldurhúsin og sumbluðu sem verstu raftar. Á einni þeirra reyndi stólaþjófurinn bíræfni að eggja félagana til frekari rána og beit annar á agnið. Þegar bjórinn var kláraður og komið var út báru þeir saman ránsfenginn og kom í ljós að hinn bíræfni hafði hnuplað rándýru málverki af einum veggja knæpunnar, sá fífldjarfi stóð sigri hrósandi með vasa fulla af bréfþurrkum og sá heiðvirði hristi hausinn yfir atferli félaga sinna. Ránsfengurinn allur var geymdur sem fyrr í myrku skúmaskoti og ferðinni haldið áfram.

Komið var að enn annarri knæpu og sá hinn bíræfni sér nú leik á borði og gerði óskammfeilna tilraun til að þykjast vera af frönskum ættum. Tilgangur þessa var illur, að blekkja starfsfólkið. Reyndi hann að panta bjór á tungumáli sem hljómaði eins og franska en var þó einungis tilviljanakennt þrugl og hin mesta soramállýska. Illa gekk því að panta og var hann fastur í karakternum svo þetta uppátæki yrði honum ekki til háðungar. Gekk þá sá heiðvirði að honum, gaf honum vænan kinnhest og kallaði “Jean-Pierre!”. Hinum bíræfna brá, var ekki skemmt en reyndi að halda andliti og bulla meira á tungumáli sínu. Laut sá heiðvirði honum aftur kinnhest með sömu orðum og pantaði loks þrjá bjóra. Hlaut sá bíræfni litla sæmd af þessu atviki.