föstudagur, september 29, 2006

Kópavogur

Það að keyra um í ormabælinu Kópavogi er eins og að fara í hollinn-skollinn. Maður veit aldrei hvar maður endar. Ein vitlaus beygja og maður gæti týnst að eilífu. Ég vil meina að ástæða þess að Kópavogur varð skyndilega næststærsta sveitarfélag landsins sé sú að fjöldi manna hafi týnst þar og ekki komist til síns heima.

Kópavogur er líka fullkomlega sálarlaus bær. Miðbæjarlaus og asnalega endilangur. Ég hef framkvæmt margar rannsóknir og komist að því að mér rís ekki hold þegar ég er í Kópavogi.(Í ljósi síðustu færslna gæta ég máski gert að höfundarverki mínu að skrifa níð um alla bæi landsins ekki ólíkt hugmynd Sufjan Stevens um að gera plötu um hvert fylki í Bandaríkjunum. Ég treysti mér í það minnsta fyllilega til að skrifa doktorsritgerð um vankanta Raufarhafnar.)

Dirty old town, dirty old town

“We’re like two lost souls swimming in a fish bowl, year after year,
Running over the same old ground, what have we found?
the same old fears,
wish you were here”


Nokkur atriði sem eru að brjótast um innra með mér þessa dagana:

1) Það að troða öllum Hafnfirðingum undir eitt þak í þeim tilgangi að drekka og rugla í heilt kvöld (eins og síðastliðið laugardagskvöld) jaðrar í aðra rönd við úrkynjun. Á þessum böllum er alltaf sama fólkið. Talandi um sama fólkið. Saumaklúbburinn Ísland. Og manni líður eins og maður sé á sama ballinu og í fyrra og hittífyrrra og hittíhittífyrra. Algjör firra. Er enn að vinna úr þessu.

Eitt mökk valið af handahófi:
Kexölvuð hjón völsuðu að mér við barinn og spurðu í eftirvæntingu hvað ég hefði í glasinu mínu. Þegar kom á daginn að það var ginsull en ekki sevenöpp tók konan flugvélafagnið og kyssti mig. Kemur á daginn að þetta fólk hafði veðjað upp á hvort ég drykki yfir höfuð eður eigi. Þetta fólk þekki ég frekar lítið. Gruna þó að það eigi við veðmálafíkn að stríða.

2) Ég er að upplifa fáranleg flassbökk frá grunnskólaárum mínum. Hver dagur hjá mér er ríjúnjon. Ég lifi á plánetunni 1992 (hef meira að segja verið gemsalaus í nokkra daga). Ekki nóg með að Kiddi og Gunni skoppi um heimili mitt alla daga eins og heimiliskettir heldur var ég næstum búinn að keyra á Ágústu Sigurjóns og son hennar í dag. Þetta fólk er út um allt.

3) Einhverra hluta vegna fór ég inn í Garðabæ að versla áðan.

Mér finnst ég vera eiginlega alla daga á sama helvítis ballinu. Í sama hjúpnum. Fer á sömu staðina á hverjum einasta degi. Eins og gerpið í Truman Show. Svona boy-in-the-bubble-fílingur. Langar helst að venda kvæði mínu í kross og gerast böskari í Edinborg. Er með gistingu þar skilst mér.

föstudagur, september 22, 2006

Limlest stolt í morgunmat

Skólastarf er hafið. Ég er smám saman að detta í gang, samt varla byrjaður að læra af viti. Einu afrek mín hingað til er heimsmeistaratign í háskólaknattspyrnu sem ég vann til ásamt félögum mínum úr íslenskuskor. Af stakri hógværð básúnaði ég þennan áfanga lítið heima fyrir en gladdist þó þegar ég sá í morgun magnaða mynd af sigurliðinu í Stúdentablaðinu sem fylgdi Fréttablaðinu. Hreykinn leit ég upp frá kornfleggsinu og fann fyrir þörf að sýna sambýlisfólki mínu myndina, þennan fagra vitnisburð afreks míns. Klúturinn var að baða sig og Jói úti en frauka hans, stundum nefnd Bryndís, sat í stofunni og leysti krossgátu um leið og hún tuldraði orðið ‘líkþrá’ aftur og aftur. Ég gekk að henni eins og lítill og feiminn drengur sem vildi gera móður sína stolta og benti hógvær á myndina í blaðinu. Fraukan ljómaði öll upp og spilaði með, lét eins og ég væri fimm ára að sýna henni fallega teiknaða mynd. Sagði svo: “Vá... en gaman... Þeir eru ótrúlega skondnir þessir nördar”.

Ekki veit ég af hverju ég ætti að ganga milli fólks og sýna því myndir af helvítis nördunum en ljóst er að mín stolta stund gufaði upp á augabragði. Ég baslaði við að sýna henni myndina aftur og benti ítrekað á hvar ég væri á henni. Hún áttaði sig að lokum en um seinan þó.

Í kjölfarið á þessu atviki hef ég ákveðið að flytja aftur heim til móður minnar. Hún kann allavega að umgangast heimsmeistara.

miðvikudagur, september 20, 2006

Daniel

Daníel ferðast í nótt með flugvél. Ég get séð rauðu afturljósin á leið til Skotlands. Og ég sé Danna veifa bless. Guð, þetta líkist Danna. Hljóta að vera skýjahnoðrar í augum mér.

Danni, bróðir kær, þú ert eldri en ég. Finnurðu enn sársaukann eftir örin sem ekki gróa? Augu þín eru dauð. En samt sérðu meira en ég. Daníel, þú ert stjarna í hvelfingu himins.Danni fer að splitta til Edinborgar hvað úr hverju. Þar mun hann reyna að öðlast MWA-gráðu í ljósorku sem gefur honum rétt til þess að starfa sem ljósmóðir. Merkilegt hvað menn nenna að leggja svona upp í hunderfitt framhaldsnám í öðru landi. Það góða er að maður hefur jú val. Getur skrifað doktorsritgerðir og háfræðilegar skýrslur eða bara borðað ís með dýfu og horft á Seinfeld.

fimmtudagur, september 14, 2006

In another land

“Then I awoke,
was this some kind of joke?
Much to my surprise
I opened my eyes”


Þó mannskepnunni hafi tekist að fljúga um háloftin og jafnvel komið manni á sjálft tunglið gengur illa að koma kvenmanni á ritstjóra þessa bloggs. Lánleysi mitt í þessum efnum kallaði nú í sumar á drastískar aðgerðir þegar ég ákvað að reyna fyrir mér í landi afar lágra fegurðarstuðla. Ég fór við annan mann til höfuðborgar Skotlands, þar sem ófrýnileg tröll og illir skrattar eru á hverju strái.

Í þessu ókunnuga og mistíska landi átti ég stutt kynni við nokkrar ótótlegar nornir en þegar þær voru við það að hneppa mig í álög kom samferðarmaður minn mér ávallt til bjargar. Edinborg er borg andstæðna. Sjálf er hún gullfalleg og náttúruundrin algjör einsdæmi en íbúarnir eru um leið margir hverjir alveg drullukyndugir í útliti. Að minnsta kosti sumir. Það kom allavega fyrir að léttur Star-Trek-ráðstefnufílingur sveif yfir köstulum.

Ferðin reyndist árangurslaus með öllu en samt alveg viðburðarrík og skemmtileg. Næsta örvæntingarfulla veiðiferð verður hins vegar á stað þar sem ástandið á að vera enn verra; á sjálfan Sólon. Reynið bara að stoppa mig.

mánudagur, september 11, 2006

Sambýli

Ef sambúð fólks á að ganga er mikilvægt að hafa heimilisreglur og ákveðnar, fastmótaðar skyldur gagnvart heimilishaldi. Ein helsta reglan hjá mér og sambýlismanni mínum, Jóa, (og nú nýjustu viðbót sambýlisins, Kidda) er í þá veru að þegar eitthvað þarf að gera skal fara fram einhvers konar keppni sem skilur á milli sigurvegara og lúsers. Lúserinn þarf svo að vinna verkið; vaska upp, ryksuga eða þrífa klósett. Á tímabili í sumar var kærasta Jóa afar grátt leikinn af þessari reglugerð og vann flest heimilisverkin þrátt fyrir að vera búsett í Reykjavík.

Oftast hefur lúserinn verið fundinn með íbúðarhandboltaleik, skrabbli eða teningakasti en einnig og ekki síst með smá pílukasti. Sú var raunin um daginn þegar við Kiddi og Jói reyndum að útkljá hver okkar færi út í sjoppu að kaupa nammi. Þegar ljóst var að Kiddi hafði tapað fylltist Jói allt í einu gremju vegna þeirrar staðreyndar að ég hef aldrei tapað í baráttunni um heimilisverkin. Lét hann ýmis orð falla, m.a. baulaði hann svo: “Mér er skapi næst að grýta pílunum í þig, helvítis grísarinn þinn!”. “Það væri reyndar mjög fyndið”, sagði Kiddi og hló aulalega. “Það væri svo fyndið að ég gæti tæpast orðið reiður, húmorinn væri svo framúrskarandi”, svaraði ég kaldhæðnislega um leið og ég sneri mér við og labbaði inn í stofu vitandi að ég þyrfti ekki að fara út í sjoppu. En á sama augabragði fann ég fyrir öskrandi sting í bakinu, rétt eins og atgeir hefði verið rekinn í mig. Ég æpti eins og særður göltur, velti mér um á gólfinu og uppgötvaði senn að Jói hafði hent pílu í mig af öllu afli. Á meðan ég var að jafna mig stumraði Jói skömmustulegur yfir mér og baðst fyrirgefningar í sífellu á móðursjúkan máta.

Í dag er ég með agnarlítið sár á bakinu og finn til þegar potað er í það. Þegar ég sef læsi ég herberginu mínu. Þannig getur enginn gert mér neitt eftir að ég hef grátið mig í svefn.