föstudagur, apríl 21, 2006

Vorboðinn ljúfi

“Hún hefur sagt mér til syndanna minna,
ég sofi of mikið og vinni ekki hót.
Hún hefur sagt mér að vaka og vinna.
Af vængjaðri rottunni rífa vil ég fót.”

Fokk. Djöfull er ég búinn að nýta tímann illa. Við mér blasa fimm próf og tvær ritgerðir. Tuttugu daga afplánun framundan. Enginn getur frelsað mig úr prísundinni. Ekki einu sinni þetta ómerkilega fuglsgerpi sem allir dásama. Myndi ekki þekkja þessa lóuforsmán þó hún ataði mig út í sínum sumarlegasta úrgangi.

Alltaf tekst mér þetta. Að vakna upp þegar vorar og uppgötva að ég á allt eftir. Fokk.

fimmtudagur, apríl 13, 2006

Sick as a dog

“Hey Joe, where are you gonna run to now?
Hey Joe, where are you gonna run to now?
Where are you gonna go?”


Gærdeginum eyddi ég með höfuð ofan í Gustafsbergklósetti. Ansi hræddur um að ég hafi gubbað eins og einu milta í öllum æsingnum. Finn allavega ekki mitt. Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem ég verð veikur. Eitt það versta við veikindi er að geta lítið gert annað en að horfa á sjónvarp undir sæng, alveg sama hvaða drasl er í því. Í gær byrjaði ég á að horfa á átakanlegan þátt á RÚV um örbirgð í Afríkuríkinu Gíneu-Bissau. Einn fimmti hluti barna sem þar fæðist deyr áður en þau ná fimm ára aldri.

Klikk. Ákvað að skipta yfir á Skjáeinn. Innlit-útlit. Sá að tveir menn á þrítugsaldri eiga gígantíska íbúð í bryggjuhverfinu og ansi magnaðan nuddpott.

Klikk. Í Gínea-Bissau er ólæsi um 60%. Í þessu litla landi deyja þúsundir á hverjum degi úr sjúkdómum sem auðvelt væri að lækna á Íslandi. Við mér blöstu myndbrot sem fengu á mig.

Klikk. Strákarnir í bryggjuhverfinu eiga spíttbát. Það tekur þá örfáar mínútur að komast til Reykjavíkurhafnar en aðallega nota þeir hann bara til að leika sér.

Klikk. Gíneuþátturinn var búinn en Gilmore Girls teknar við. Mæðgurnar í þættinum töluðu svo geðveikt hratt að ég varð mjög ringlaður og ældi í fötu sem ég hafði mér við hlið.

Mér leið illa. Leið illa yfir veikindum mínum og enn verr yfir ástandinu í Gíneu-Bissau. Ég var ekki að fara að horfa á restina af Gilmore Girls þættinum og ákvað að tékka á tölvunni. Gladdist aðeins þegar ég sá að fjöldi heimsókna á þessa síðu rauk upp úr öllu valdi. Gleðin var skammvinn. Senn varð ljóst að Jói kumpáni hafði búið til bloggsíðu í mínu nafni um poppmelluna Whigfield. Whigfieldsíðan var með tengil inn á mína síðu og hver færsla var undirrituð með fullu nafni mínu. Jói hafði einnig látið vinsæla tenglasíðu vita af þessu og því voru rúmlega 200 heimsóknir á þessu síðu þegar ég sá hana. Nafn mitt hafði verið lagt við... við... Whigfield. Þessi ljóti leikur Jóa var líklega tengdur frásögn minni af því þegar hann keypti sér disk með Whigfield. En einnig vildi hann meina að hann væri að hefna fyrir atvikið þegar við Svenni bróðir settum mynd eftir hann í Stundina okkar.

Ég staulaðist fram á klósett með tárin í augunum og ælufötuna í hendinni. Faðmaði eina vin minn, herra Gustafsberg, og hleypti öllu út.

Á erfiðum stundum í lífinu ber þó að hugsa til fólksins sem á virkilega erfitt. Fólks sem á við raunveruleg vandamál að stríða. Til að mynda fólksins í Gíneu-Bissau. Og auðvitað Jóa.

sunnudagur, apríl 09, 2006

Daginn eftir

“but it's the morning after all that went before
and now you've paid the dept - get up you wreck and crawl out through the door
and then you do it all again.

Things have got to change.”

Alltaf kemur hann, dagurinn á eftir. Þegar maður er á ljúfasta ölvunarstiginu leiðir maður aldrei hugann til næsta dags. Hvort eins og einn timburmaður láti á sér kræla. En alltaf kemur hann. Siðferðið kikkar inn aftur og mórallinn dúkkar upp. Maður blótar þessu tilgangslausa ráfi í gegnum lífið í endalausri þynnku og heimsku. Furðar sig á því að þrátt fyrir glórulaust stefnuleysi allra þurfum við samt að gefa stefnuljós í umferðinni.

Drykkjusiðir Íslendinga eru auðvitað rugl. Það þykir bara heilbrigt að vera fullur heila helgi í Vestmannaeyjum einu sinni á ári en menn eru litnir hornauga ef þeir sjást með bjórdós um miðjan, ósköp hversdagslegan laugardag. Það gerir maður ekki nema maður sé rússneskur sjóari. Og þegar Íslendingar vakna um miðjar nætur til að fara út á KEF í ferðalag er það fyrsta sem þeir gera að kaupa sér bjór á barnum. Það versta við þessa menningu er að þurfa alltaf að skemmta sér á nóttunni ef maður ætlar að vera samferða öðrum í gleðinni.

Kinks eru frábært meðal við timburmönnum. Eða þunglyndi. Einu sinni reyndu læknar að tala við þunglyndissjúklinga. Nú gefa þeir þeim hamingjupillur. Í framtíðinni fá sjúklingar vonandi bara plötur með Beach Boys og Kinks og láta músíkina um að þurrka af þeim fýlusvipinn. Núna er það einn kaldur og nýi diskur Raymond Douglas Davies, sem umbreyttu doða í góða stemmningu í mínum herbúðum. Hlakka til að sjá hann á föstudaginn langa.

Dagurinn eftir kemur ekki fyrr en á morgun. Hann er ekki núna. Ætla út.

miðvikudagur, apríl 05, 2006

Subbuskapur

Fyrir nokkrum árum var ég að borða samloku í skólanum. Man ekki hvernig samloku en líklegt er að þetta hafi verið samloka með rækjusalati eða túnfisksalati þar sem ég hef alltaf haft miklar mætur á slíkum lokum. En þegar ég var að smjatta á þessari samloku áttaði ég á mig á að í henni var hár. Þessu bölvaði ég og ragnaði og upphófust heitar umræður hjá því fólki sem var viðstatt. Einn félagi minn hóf þá að segja okkur frá kærustunni sinni sem vann á Subway og hafði fundið hálfa margfætlu um leið og hún var að skera kál. Þá fóru hinir að segja ljótar sögur af drasli sem hafði fundist í mat og oftast enduðu þær á því að einhver Ameríkani kærði fyrirtæki og græddi á tá og fingri.

Næsta dag fórum við Danni á Subway og ætluðum að gæða okkur á eins og einni subbu. Man reyndar ekki hvernig subbu ég fékk mér en líklegt er að bræðingur hafi orðið fyrir valinu þar sem ég fæ mér hann oftast. Við stukkum út í bíl og borðuðum þar af bestu lyst. Allt þar til Danni öskraði upp yfir sig og hrækti út úr sér vænum bita. Hann lét sem sturlaður væri og talaði um að það væri margfætla í subbunni. Kom í ljós að þarna var hálf margfætla, líklega hinn helmingur þeirrar er kærasta félaga okkar hafði hent áður.

Boðskapur þessarar sögu er m.a. sá að passa að láta ekki skordýr og jukk fylgja með þegar matur er útbúinn. En einnig sá að heimurinn er ansi lítill. Og að eins manns margfætla getur verið annars manns matur. Jafnvel sá að betra er að fara næst á Quiznos. Í raun má segja að sagan sé heimspekileg ádeila á samtímann og hefur fjölmarga anga; rétt eins og sjálf margfætlan.

Þetta er reyndar frekar slöpp saga en mér datt ekkert betra í hug. Þið reynið bara að hunsa þessa færslu.